16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. Barð. (HK), því hann hefir síðan síðustu umræðu samþykt svo margar brtt. við sínar eigin skoðanir, að það er ekki von, að hann geti líka samþykt brtt. mínar.

Hv. frsm. nefndarinnar (JakM) talaði um málið fram og aftur. Því hefi jeg flestu svarað áður. Það er ekki örðugra að ákveða laun þessa manns en samskonar starfsmanna annara ríkja. Og laun þessa manns mættu vera mun lægri en þeirra, því að á honum hvílir ekki sú skylda að „representera“ þjóð sína, heldur vinna að verslunar- og viðskiftamálum einum. Ef vandræði eru orðin vegna þess að manninn vantar, þá er það stjórn og bönkum að kenna. Það er til heimild um, að veita megi fje í þessu skyni, og þá heimild átti að vera búið að nota, ef þörf hefir verið. Slík mál sem þetta þarf vel að athuga. Þetta eru fyrstu spor okkar í utanríkismálum. Af því getur stafað stór hætta og ókleif útgjöld, ef fyrstu sporin eru ekki vandlega athuguð. Þessar umr. eru sorglegar, en ekki vegna þess, hve langar þær eru, eins og hæstv. atvrh. vildi meina, heldur hins, að svo er sem binda eigi fyrir augu þingsins. Og þegar það er kunnugt um miklu stærri ríki, t. d. Finnland og Noreg, að þau stynja undan útgjöldum til utanríkismálanna, þá ætti það heldur að hvetja oss til að stíga fyrstu sporin varlega.