16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg tók það fram strax, að þegar jeg talaði um langar umr., þá ætti jeg ekki sjerstaklega við umr. um þetta mál, heldur yfirleitt við umr. á þinginu nú. Það er nú svo komið, að mörg mál, sem nefndir hafa fjallað um og afgreitt nál. um, komast ekki til umr. fyrir öðrum málum, sem eru tafin með löngum umr. En þetta, að nefndirnar, þrátt fyrir það að þær oft hafa haft þrengri tíma til fundahalda en ætlast er til, vegna langra funda, eru samt á undan afgreiðslu mála við umr., sýnir ljóslega, hvort umr. er í hóf stilt eða ekki. Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að stjórnin hefði brugðist illa við sjálfsögðum till. Það er nú svo. Till. eru sjálfsagðar í hans augum, og meira getur hann ekki sagt, en það er nú eitthvað annað en að þær sjeu sjálfsagðar í augum stjórnarinnar. Það eru þær einmitt alls ekki, því getur hann ekki vænst annars en að stjórnin snúist á móti þeim. Það er svo sem auðvitað, eins og margtekið hefir verið fram, að þessi lög er hægt að afnema hvenær sem þinginu sýnist svo, og hver sendimaður, sem stöðunni gegnir, verður að leggja hana niður án nokkurra biðlauna, ef embættið er talið óþarft. Hv. þm. (TrÞ) veit þetta ósköp vel. Um það, hvað þingið kynni að gera þá gagnvart manninum, hvort það veitti honum bætur fyrir stöðumissinn eða ekki, get jeg ekkert sagt. Hv. þm. (TrÞ) getur ómögulega látið mig ábyrgjast þær gerðir. Jeg geri ráð fyrir, að það fari eftir því, hvort þingið álítur, að maðurinn hafi verið gabbaður eða ekki. Jeg álít, að maðurinn eigi engar bætur að fá, ef staðan er talin allsendis óþörf. En ef embættið er lagt niður til þess að koma manni frá, sem rækt hefir það sæmilega, tel jeg, að hann eigi rjett á bótum. Hv. þm. (TrÞ) sagði, að stjórnin vildi hafa fríar hendur til fjárbruðlunar í þessu máli, en hún hefir alveg eins óbundnar hendur til þess eftir till. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hann ætlast til þess, að stjórnin geri samning við manninn, og hefir ekki treyst sjer til að ákveða launin. Hv. þm. V.-Ísf. hefir farið líkt og manni, sem ætlaði að ákveða laun embœttismanna hjer á landi og ákvæði þau þannig, að allir skyldu hafa 1000 kr. á ári og svo sanngjarna uppbót. En hver mundi telja þetta ákvörðun launa! Enginn, því að launaákvörðun er fólgin í hámarki launa, en ekki lágmarki. Nei, háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir alveg gefist upp við að ákveða launin, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) benti rjettilega á.

Háttv. þm. Str. (TrÞ) spurði ennfremur, hvort jeg við eina umr. fjárlagafrv. ætlaði að koma með till. um laun þessa manns. Það geri jeg auðvitað ekki, því þau felast í 26. gr. fjárlagafrv. Þar segir svo: „Ef lög þau verða staðfest, er afgreidd hafa verið frá Alþingi 1925 og hafa í för með sjer tekjur eða gjöld fyrir ríkissjóð, breytast fjárhæðirnar tekju- og gjaldamegin samkvæmt þeim lögum.“ Þess vegna kemur þessi upphæð auðvitað ekki inn í fjárlög nú, en hún kemur þar næsta ár, ef maður verður skipaður. Það er því síður en svo, að hjer sje verið að fara neitt á bak við þingið, þó farið sje að hjer eins og altaf er farið að, þegar svona stendur á og fjárlagafrv. sjálft gerir ráð fyrir.

Hv. þm. (TrÞ) segist vera mjer sammála um, að bankinn sje skyldugur til að greiða hluta af laununum, en sje þó á móti því, að hann geri það. Þetta skil jeg nú ekki, nema hann álíti, að það sje rangt að láta bankann gera það, en þá er háttv. þm. (TrÞ) á móti nefndinni í heild og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem skýrt og skorinort hefir lýst yfir því, að það sje rjett, að bankinn greiði þennan hluta af laununum. Og jeg lít svo á, að bankanum sje ekki gert ilt með þessu, því meira mun hann hafa upp úr manninum en þessu nemur. Það liggur í augum uppi, fyrst hinn bankinn, sem er eingöngu gróðafjelag, er svo fús til að greiða sinn hluta launanna. Hann er ekki hræddur um, að það borgi sig ekki fyrir sig, og hinn þarf ekki að kvíða því heldur.