28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, fjárlög 1926

Ágúst Flygenring:

Jeg get ekki látið hjá líða að minnast á þær brtt., sem jeg á á þskj. 235. Jeg fann það á ræðu háttv. frsm. (ÞórJ), að nefndin, sem fjallað hefir um málin, hefir ekki fengið nægilegar upplýsingar um þessi mál. Þetta er í raun og veru ekki brtt., heldur krafa um fullnæging skýlausra loforða. Og það er ekki hægt að komast hjá því að fullnægja þeim loforðum, enda þótt brtt. nái ekki fram að ganga.

Það er þá fyrst Kjalarnesvegurinn. Um það þarf ekki að fjölyrða, að hans sje ekki full þörf. En hvorki hæstv. landsstjórn nje vegamálastjóri hafa sjeð sjer fært að taka þennan veg til greina, ekki látið nota fje það, sem til hans hefir áður verið veitt í fjárlögum. Þó er hans full þörf, því að veginn vantar tilfinnanlega, eins og jeg áður hjer í deildinni hefi fært full rök fyrir. Hv. frsm. mintist á, að engar skýrslur væru um, að þessa vegar væri þörf; þó liggur þetta mál fyrir í brjefi til stjórnarráðsins, dags. 15. febr., og er það svo ítarlegt, að jeg hjelt satt að segja, að ekki þyrfti framar vitnanna við. Brjef þetta hefir ekki verið tekið til greina, og þess vegna verð jeg að fara nokkrum orðum um málið.

Kjalnesingar verða nú að flytja afurðir sínar 2 tíma leið í kláfum á hestbaki til þess að koma þeim á vegsendann sunnan Kollafjarðar í leið til markaðs í Reykjavík, og þessar afurðir þeirra er mjólk, er þeir selja hjer. Geti þeir framleitt 120 þús. lítra á ári og flutningskostnaður við þetta 8 aurar á hvern líter, þá geta allir reiknað, hverju þetta nemur. Vegna vegleysunnar hafa þeir neyðst til þess að fara sjóleiðina, en hún er bæði erfið og hættuleg. Lending upp frá er slæm, enda varð þar slys fyrir skemstu, og hefir oft orðið, enda sjóleiðin oft alófær. Er þetta ástæðan til þess, að búskapur í þessari sveit stendur og fellur með þessum vegi. Vegamálastjóri hefir og í brjefi talið veg þennan nauðsynlegan, og er það yfirsjón hjá hæstv. atvrh. (MG), að láta hann bíða vegna annara vega. Með leyfi hæstv. forseta vil jeg hjer lesa niðurlagsorðin úr brjefi vegamálastjóra:

„Með tilliti til þess, að hlutaðeigendur bjóða fram þetta mikinn hluta vegagerðarkostnaðarins, og með því að jeg tel veg þennan, að tilskildu umræddu framlagi, í fyrsta flokki nýbygginga þeirra á þjóðvegum, er gerðar verða á næstu árum, get jeg mælt hið besta með því, að umsókn þeirra verði sint að svo miklu leyti, sem fjárveitingavaldið treystist til.“

Þetta eru hans óbreytt orð, og nærri má geta, hvort hann mælti með slíkri vegargerð, ef hennar væri ekki þörf. Þess vegna verður nú að koma því í framkvæmd, að þessi vegur sje lagður, og það er bæði synd og skömm að gefa bygðarlaginu von um þennan veg ár frá ári, en svíkjast svo um allar framkvæmdir, eins og gert hefir verið.

Mjer fanst bregða fyrir hálfgerðu skopi í ræðu hv. frsm. (ÞórJ), en þegar jeg athugaði það betur, sá jeg, að það var ekki skop, heldur ókunnugleiki. Þó að hann sje í fjvn., er ekki von, að honum sje jafnkunnugt um hagi sveitanna og einstakra manna alstaðar eða um land alt, og ekki hefir hann getað kynt sjer öll smámál, sem vera skyldi, er berast fjvn. Hann var að tala um, að ilt mundi vera að gera öllum eftirlætisbörnum í kjördæmi mínu til hæfis. En þar eru engin eftirlætisbörn, heldur miklu fremur olnbogabörn. Þarf ekki annað en opinberar skýrslur til þess að sanna það, hvað þessu hjeraði hefir verið veitt í vegabótum. Og hvaða samgöngubætur hefir það svo fengið á sjó? Engar. Esja kemur þar aldrei við og flóabáturinn kemur aldrei í Kjósarsýslu, hvað þá í Gullbringusýslu. Þetta er eftirtektarvert, að þessar sveitir, sem þurfa allra sveita mest á góðum samgöngum að halda, eru látnar sitja á hakanum, eins og jeg hefi margsýnt fram á. Það kemur Gullbringu- og Kjósarsýslu ekkert við, þótt veitt hafi verið fje til ferða Suðurlands. Þau auknu viðskifti, sem af þeim ferðum leiða, eru einungis Reykjavík til hagsmuna, en á engan hátt Gullbringu- og Kjósarsýslu eða Hafnarfirði, því að þar kemur Faxaflóábáturinn aldrei.

Í áliti sínu minnist vegamálastjóri á ýmsa vegi, þar á meðal þennan veg, og segir, að 18 þús. krónur muni nægja til vegarins, til þess að koma honum spölkorn yfir á Kjalarnesið. Það er nú alt og sumt. Á þessum kafla er enginn vegarspotti fær fyrir vagn, og verður því að leggja veginn allan. En þetta er svo lítið fjárhagsatriði og svo sjálfsagt, að jeg trúi ekki öðru en að flestir muni samþ. það.

Um hitt atriðið, lækninn, er ekki margt að segja. Hefi jeg áður sýnt fram á, að hjeraðið á rjett á að fá lækni, og þar sem það er lögmælt, að hjeraðið á heimtingu á að fá lækni, má ekki skella við því skolleyrunum. Nú er það svo, að hjeraðslæknirinn í Hafnarfirði á að gegna læknisstörfum í þessu hjeraði, en eins og allir hljóta að sjá, þá er alt of langt ofan úr Kjós til Hafnarfjarðar til þess að sækja lækni þangað; það hefir fyrrum þótt nógu langt að vitja læknis þaðan til Reykjavíkur, þótt ekki sje bætt 10 km. við leiðina. Finst mjer, að öllum hljóti að skiljast, að það sje fáránleg ráðstöfun, að Hafnarfjörður skuli vera læknissetur fyrir Kjós. Þá væri miklu nær, að Kjósarbúar ættu sjer lækni á Akranesi. En hvorugt er gott. Úr Kjósinni er meira en 10 km. lengra að vitja læknis í Hafnarfjörð heldur en í Reykjavík. Þess vegna er farið fram á þennan styrk, til þess að menn úr þessum hjeruðum geti vitjað læknis hjer, og að sá læknir hafi um leið skyldu til þess að sinna sjúklingum þaðan. Áður hefir það oft verið svo, að illmögulegt hefir verið að ná í lækni hjer, enda ber læknum í Reykjavík engin skylda til þess að sinna sjúklingum í þessu hjeraði.

Þetta er svo einfalt og ljóst mál, að jeg skal ekki fjölyrða frekar um það.