18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Forsætisráðherra (JM):

Hv. 1. þm. Árn. (MT) mintist hjer á samninga vora við önnur lönd og þar á meðal bresku samningana. Jeg þarf ekki að verja þá samninga fyrir mína hönd. Jeg tel ómaklega mælt að telja þá óheppilega. Þeir voru einmitt heppilegir að minni ætlun. Að vísu voru sumir óánægðir með þá í byrjun, en jeg held, að menn hafi sannfærst um það síðar, að þeir hafi verið í raun og veru góðir, enda var fyrsti samningurinn gerður fyrir hönd stjórnarinnar af mjög vel færum manni. Og hjer í þessari háttv. deild er a. m. k. einn maður, sem getur borið um það, hvort hægt hefði verið að fá betri kjör síðar. Mönnum fanst þrengja að sjer, sem ekki var óeðlilegt á þeim tímum, en árangurinn varð samt sá, að við höfðum mikið gott af samningnum. Þá held jeg, að ekki sje hægt að segja, að sendiferðin til Ameríku hafi verið árangurslaus, eða halda því fram, að sendiferðirnar þangað hafi ekki borið góðan árangur. Með fyrstu ferðina held jeg að allir hafi verið ánœgðir. Af dvöl umboðsmanns eða umboðsmanna okkar þar síðar verður ef til vill ekki hægt að sýna beinan árangur á borði, en líklega hefði það komið fram í einhverju, ef ekki hefði farið verið. Og það hefir oft verið sagt, að við hefðum átt að hafa sendimann í London fram á þennan dag.

Jeg vildi ekki láta þessu ómótmælt, þó það ef til vill verði til þess að lengja enn umræðurnar, sem jeg vildi þó alls ekki, enda er þess engin þörf. Hjer er aðeins um það að ræða, hvort þurfi að senda mann eða ekki. Þetta er ógnarlega einfalt og þarf ekki langra útlistana. En það er eins og einhver sjerstök tilhneiging í mönnum nú að lengja umr. von úr viti.