28.02.1925
Efri deild: 19. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Jónas Jónsson:

Jeg hefi ekki fyllilega sannfærst af rœðu hæstv. forsrh. (JM) um nauðsyn þessa máls og vildi leyfa mjer að segja fáein orð, sem ef til vill geta orðið til þess, að frekari skýringar komi frá hæstv. stjórn um málið.

Jeg verð að leyfa mjer að víkja lítið eitt að forsögu þessa embættis, sem verið er að stofna, og hverjar ástæður voru fyrir því í fyrra, að kenslustarfsemi þessi var lögð niður með einróma samþykki beggja deilda Alþingis. Jeg held mjer sje óhætt að fullyrða, að fyrst þegar sá maður, sem um er að ræða, kom að háskólanum, var hann kennari í þýsku, en ekki íslensku. Hann er sjerfræðingur í þýsku. Einnig held jeg óhætt að fullyrða, að það hafi á engan hátt verið eftir beiðni háskólans eða fyrir nokkra sjerstaka íslenska þörf, að þýskukensla var tekin upp í háskólanum, heldur verið líkt og gerist við háskóla, þegar ungir menn fá leyfi til að sýna sig við háskóla sem prívatdósentar, er kenna árum saman án launa til að koma á sig orði og til þess seinna að fá stöðu hjá háskóla og ríki. Það var nokkurn veginn auðsætt, að ekki gat komið til mála að kenna þýsku við háskólann.

Jeg held mjer sje óhætt að staðhæfa, að það hafi verið hv. þm. Dala. (BJ), sem aðallega bar þetta fyrir brjósti og kom fjárveitingunni inn í þingið. Þetta verður dálítið skiljanlegra við það, að háttv. þm. Dala. mun hafa látið í ljós, að þróun háskólans gæti ekki verið okkur samboðin sem fullvalda þjóð, nema nýju embætti væri bætt við á hverju ári. Samkv. þessari hugsjón hv. þm. er það ofureðlilegt, að hann vildi fara að bæta við einhverju, og býst jeg við, að hann eigi sinn þátt í því, að þetta frv. er fram komið.

Af því að þessi þýskukensla, sem ekkert var með að gera og þjóðin bað ekki um — en styrkur var veittur til fyrir tilstilli háttv. þingmanns Dala. (BJ) —, var lögð niður, þá hefir þessi maður og hans velunnarar fundið upp á, að nú þyrfti endilega að fara að kenna gotnesku við háskólann. Engum datt í hug meðan Björn Ólsen var annað en að kenslan við háskólann væri aðeins fyrir merka vísindamenn.

Þegar háskólinn var stofnaður, var settur einn maður til að kenna íslensku, maður með mikilli vísindafrægð, og tók hann við starfi sínu eins og þingið hafði ætlast til, miklu frekar sem skrifandi maður en kennari. Á sinni tíð var það svo um grískudósentinn, að það embætti var ekki stofnað vegna þarfar háskólans, heldur vegna þarfar eins manns til að komast að háskólanum. Þannig er þetta hjer. Af því dr. Alexander getur kent gotnesku, gæti nú farið ofurvel á því að kenna hana í háskólanum. Þá á að verja styrknum, sem fyrst var veittur til þýskukenslu, til þessa, og reyna að stofna fast embætti og fullnægja kenningunni um að stofna eitt embætti við háskólann á hverju ári.

Þegar Björn heitinn Ólsen fann endi sinna daga nálgast, rjeði hann því, að hinn álitlegasti maður, sem hann hafði mesta trú á, var fenginn til að taka við embætti hans. Sá maður hafði mjög gott próf og álit á sjer utanlands og innan, eins og sjest af því, að aðrar þjóðir hafa óskað eftir að fá hann til vísindastarfa þar. Þar sem nú svo stendur á, að þingið í fyrra hækkaði laun þessa manns, sýnist í sjálfu sjer ekkert því til fyrirstöðu, að hann taki að einhverju leyti á sig aukna kenslu. Jeg hefi að vísu ekki átt tal um þetta við hann, en þetta sýnist sanngjarnt, og jeg veit, að margir álíta, að þetta sje leiðin, sem á að fara í okkar embættismálum, að hafa fáa en færa embættismenn og launa þeim ekki svo lágt, að þeir neyðist út í aukavinnu.

Jeg á hægt með að skilja það, að prófessorar í íslenskri sögu og bókmentasögu álíti ekki í sjálfu sjer rjett að mæla á móti, að embættið sje stofnað, og vilji heldur hlynna að því. Ofurskiljanlegt, að þeir vilji það eins vel og að bæta á sjálfa sig meiri kenslu.

Það var þing og stjórn, sem stofnaði til þessa embættis upphaflega, en ekki háskólinn. Hann hafði ekki beðið um neitt nýtt embætti, og þó að hann sje því hlyntur nú, eftir að styrkur hefir staðið í mörg ár, getur það ekki ráðið neinum úrslitum. Hæstv. forsrh. var mjer samdóma um það í fyrra, að það gæti ekki ráðið úrslitum í hæstarjettarmálum, þó að dómendur sjálfir vildu hafa sjerstakan skrifara og 5 dómara, og hjer er alveg sama máli að gegna.

Í fyrra tók við sparnaðarstjórn. Þá var það sjálfur formaður þess flokks, sem við stjórninni tók — þó ekki hepnaðist honum að verða forsætisráðherra —, sem vildi eyðileggja alveg heimspekideildina. Þá var sú stemning í Íhaldsflokknum, og að nokkru leyti í Framsóknarflokknum, að taka þetta að einhverju leyti til greina. Jeg gerði tilraun til að leggja niður eitt embættið í heimspekideild, en háttv. 1. þm. Rang. (EP) hjálpaði ásamt öðrum til að bjarga því embætti. Hann hefir þó ekki ennþá borið fram neitt sparnaðarfrv. til að bæta fyrir þetta.

Þetta sparnaðarstríð endaði með því, að starf Alexanders Jóhannessonar var lagt niður í fjárlögum, og það var gert með „Fynd og Klem“. Einn hv. íhaldsþm fór í Nd. mjög hörðum orðum um þennan mann, og Nd. leit á málið líkt og þessi maður. Starfið var lagt niður með greinilegum þingvilja háttv. Nd. Hjer í deildinni vildi hæstv. forsrh. bjarga málinu, en hlutaðeigandi lýsti því yfir við fjárveitinganefnd Nd., að hann kærði sig ekki um starfið, og fjárveitinganefnd Ed. sá ekki ástæðu til að halda við starfi handa sjerstökum manni, sem ekki óskaði eftir því sjálfur.

Forsrh. gaf persónulega skýringu um manninn og áð hann sjálfur sem ráðherra hefði átt þátt í að binda þessa fjárveitingu. En straumurinn í deildinni var á móti og var skírskotað til yfirlýsingar dr. A. J. sjálfs, og það voru sárfáir flokksmenn hæstv. forsrh., sem þá studdu hann. Jeg hjelt því, að hann mundi ekki fara að fitja upp á þessu máli aftur. Því hafði verið lýst yfir af Íhaldsflokknum fyrir kosningarnar, að þetta starf ætti að leggjast niður, og þingið vildi ekki hafa það. Þetta var eina sparnaðarlaufið í lárviðarsveig Íhaldsflokksins í fyrra, og nú vill hæstv. forsrh. fara að tína þetta lauf úr kransinum.

Hvað hefir þá gerst síðan? Formaður Íhaldsflokksins setti á „prógram“ sitt í fyrra að eyðileggja heimspekideildina. Þetta embætti var þá eitt hið lausasta þar, og lá því næst að leggja það niður.

Ekkert hefir breyst annað en það, að hlutaðeigandi maður, Alexander Jóhannesson, hefir sjeð sig um hönd og vill nú fá þetta embætti fast. Jeg get skilið um hæstv. forsrh., af því hann telur sig bundinn, að hann vilji vera með í þessu. En hann hlýtur þá að bera þetta fram sem þingmannafrv., því að það er óhugsandi, að stjórnin öll geti verið með því, þar sem 2/3 hennar voru móti því í fyrra. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að stjórninni snúist svo fljótt hugur. Og það er óhugsandi, að Íhaldsflokkurinn, sem var á móti þessu í fyrra, sje nú snúinn.

Nei, ein ástæða hefir víst komið fram. Það er álitið, að landsstjórnin styðjist við 22 menn, og það er sá minsti stuðningur, sem hún kemst af með. Það er álitið, að síðasta atkvæði í stuðningsliðinu sje atkvæði Bjarna frá Vogi, og er hann þannig þrautavaralífakkeri stjórnarinnar. Þá verður skiljanlegt, að frv. kemur fram. Bjarni er stefnufastur maður og vill ekki láta á sig ganga, og hæstv. forsrh. gerir það fyrir þetta þrautavaraatkvæði sitt að flytja frv.

Er það þá ekki svo, að gamla sparnaðarbandalagið sje nú að hnýta síðasta lárviðarsveiginn áð höfði Bjarna frá Vogi! Jeg get ekki sjeð aðra ástæðu fyrir þessum stórsnúningi en að líf sjálfrar stjórnarinnar hljóti að liggja við. Öll meðferð máls þessa frá byrjun hefir verið svo, að það væri ósæmilegt fyrir þingið og alveg óviðunandi að samþykkja frv., þar sem þingið hefir látið ákveðna skoðun í ljós og ekki hægt að gera ráð fyrir, að menn hafi snúist síðan. Vil jeg nú leyfa mjer að lesa upp rökstudda dagskrá, sem jeg óska að verði samþykt.

Með því að fjárveiting til málfræðikenslu við háskólann var feld í fyrra með miklum atkvæðamun í báðum deildum, og þar sem ástæður eru óbreyttar, má telja víst, að frv. verði felt, þykir ekki ástæða til að eyða tíma þingsins í árangurslausa meðferð þess, og tekur deildin þess vegna fyrir næsta mál á dagskrá.

Jeg hefi leitt rök að því, hvernig þetta embætti er orðið til fyrir skiljanlega þörf ungs manns og dugnað eins þingmanns, hv. þm. Dala. (BJ), hvernig þingið í fyrra snerist á móti þessu, og að sama skoðun hlýtur að gilda enn. Þó jeg sje venjulega með því, að mál fari til nefnda, er jeg á móti því um þetta mál, þar sem auðsjeð er, að það getur ekki gengið fram.