28.02.1925
Efri deild: 19. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg vil leyfa mjer að minna á, að þegar fjvn. í fyrra lagði til, að styrkurinn til dr. Alexanders Jóhannessonar yrði feldur, þá lá við borð, að annað aðalembættið við heimspekideildina losnaði, og var þá búist við, að dr. A. J. mundi fá það, og halda þannig áfram að starfa við háskólann. Þetta gerði mjer, að jeg greiddi ekki atkv. með því að halda honum kyrrum í fjárlögunum. En svo snerist Nordal hugur, og tel jeg það vel farið, því að háskólanum verður jafnan sómi að því að hafa svo ágætan mann í kennarastöðu þar.

En háskólinn má ekki heldur missa dr. Alexander, sem er eini sjerfræðingur í sögu íslenskrar tungu og málfræði við háskólann, og jeg held sá eini á þessu landi. Jeg mun því greiða atkv. óhikað með þessu frv. nú, þó að jeg greiddi ekki í fyrra atkv. með fjárlagaveitingu honum til handa, af því að útlit var fyrir, að hlutaðeigandi yrði samt kyr.