28.02.1925
Efri deild: 19. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Forsætisráðherra (JM):

Jeg ætla ekki að fara mikið út fyrir efni þessa frv. Hv. 5. landsk. (JJ) fór mjög á víð og dreif í ræðum sínum, eins og hann er vanur. Hv. þm. veit vel um nauðsyn þá, sem á því er að kenna íslenska tungu við háskólann, þó að hann vilji ekki viðurkenna hana nú. (JJ: Er kannske ekki kensla í íslensku við háskólann?). Alls ekki. Og jeg veit, að hann hlýtur að gera aðrar kröfur til íslenskukenslu við háskólann en hann lætur uppi hjer, því að það sjá allir, að ekki nægir að taka einhvern óvalinn kennara frá öðrum skólum til þess að láta kenna þar, þar sem kenslan verður að vera vísindaleg. Og ef jeg hefði vitað það í upphafi, að þingið ætlaðist ekki til, að kensla væri í íslenskri tungu við háskólann, hefði jeg aldrei verið með stofnun hans.

Jeg er að nokkru alinn upp hjá dr. Jóni Þorkelssyni rektor, sem var viðurkendur íslenskumaður, og það veit jeg, að hann hefði ekki talið kenslu þeirra prófessoranna P. E. Ó. og S. N., eins og hún er framkvæmd, kenslu í íslenskri tungu. Og svo lágar kröfur get jeg ekki gert til íslenskukenslu við háskólann, að taka Einar Jónsson, sem annars er ágætur kennari, til þess að kenna íslensku þar í stundakenslu.

Hv. þm. getur nú alls ekki borið mjer það á brýn, að jeg hafi snúist í þessu máli frá upphafi.

Það kemur ekkert þessu máli við, hvernig það atvikaðist, að dr. A. J. komst að háskólanum í upphafi. Heldur er hitt spurningin: þarf háskólinn mann, sem getur kent og rannsakað íslenska tungu vísindalega? Ef þeirri spurningu er ekki svarað neitandi, er nauðsyn á að hafa þennan mann kyrran, því að þótt hv. 5. landsk. (JJ) spyrði hina ágætu prófessora S. N. og P. E. Ó., hvort þeir gætu tekið slíka kenslu að sjer, myndu þeir verða svo hreinskilnir að svara því neitandi, því að þeir myndu ekki vilja setja sinn vísindalega heiður í þá hættu. Nei, þeir gera meiri kröfur til slíkrar kenslu, og háttv. þm. veit þetta vel, en af öðrum ástæðum vill hann ekki fallast á frv. þetta.

Það er broslegt, þegar hv. þm. er að bera heimspekideild háskólans á brýn, að hún sje að biðja um þetta embætti svona hinsegin. Jeg hjelt, að háttv. þm. vissi, að prófessorar háskólans væru vandaðri að virðingu sinni en svo, að þeir væru að biðja um slíkt embætti, ef þeir teldu það óþarft.

Þá gat þessi háttv. þm. þess, að einn mikilsmetinn maður úr Íhaldsflokknum hefði farið óvirðandi orðum um dr. A. J. í nefndaráliti í fyrra. Þetta er alls ekki rjett, og það mun háttv. þm. hafa lesið eins og sagt er, að viss persóna lesi biblíuna. Þarf jeg því engu að svara.

Það er eflaust að nokkru leyti rjett, að dr. A. J. hafi átt sinn þátt í, að svona fór í fyrra. Hefir hann líklega í bræði sinni sagt, að hann kærði sig ekkert um, að verið væri að hugsa um styrk handa honum við háskólann, þegar hann var svo mjög talinn eftir. Þetta er ofurskiljanlegt, því að maður eins og dr. A. J. getur tæplega þolað slíka meðferð, sem höfð var á fjárveitingunni til hans í fyrra. Enda á hann sannarlega betra skilið. Og það er þessum hv. þm. (JJ) fyllilega kunnugt, að niðurstaðan í þessu máli í fyrra var hjer í deildinni alt önnur en margur hefði óskað.

Að frv. þetta sje frekar þingmannafrv. en stjórnarfrv., nær engri átt. Og það mun sýna sig, hvernig stjórnin stendur að því sem heild. Annars var, þegar stjórnarskráin var samin, gert ráð fyrir, að hægt væri fyrir einn ráðherra að bera fram frv., þó hinir ráðherrarnir væru því ekki samþykkir. Jeg tek þetta aðeins fram til skýringar.

Að frv. þetta sje borið fram fyrir þingmann Dalamanna, er hin mesta fjarstæða. Jeg hefi borið það fram af því að jeg taldi það skyldu mína, þar sem jeg leit á málið eins og jeg þegar hefi tekið fram.

Að þeir sjeu minni menn, sem ekki greiða altaf eins atkvæði, er hin mesta fásinna, Jeg tel, að þeir sjeu mestu mennirnir, sem altaf greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni, þó aldrei nema þeir hafi einhverntíma haft aðra skoðun áður. Annars er ekki um slíkt að tala hjer, því að þetta mál horfir alt öðruvísi við núna en í fyrra.

Jeg hefi ekki talað nánara um það hingað til, hvers vegna jeg tel það sjerstaklega rangt við dr. Alexander að láta hann fara frá háskólanum. Orsökin er sú, að árin 1919 eða ’20 átti hann kost á að fá stöðu, sem töluvert gaf í aðra hönd. Kom því sú spurning fyrir fjárveitinganefndir þingsins, hvort ekki mundi betra að fá hann að háskólanum en tapa honum í þessa stöðu. Varð það því úr, að honum var veittur styrkur með því skilyrði, að hann tæki ekki stöðu þá, er honum bauðst. Svona gekk það til. Og hafa allar stjórnir síðan bygt á þessum grundvelli og skoðað þetta sem fast dósentsembætti. Eftir að svo hafði verið fyrir lagt af báðum fjvn., án þess þó að full veiting væri tekin upp í fjárlögin, þá heimtaði jeg, að dr. Alexander segði af sjer starfa sínum í þýska konsúlatinu, sem seinna var breytt í veglegt embætti. Jeg gerði það beint að skilyrði, að hann tæki ekki að sjer þann starfa. Þetta á jeg við, er jeg tala um, að hann hafi verið gabbaður.