28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1926

Halldór Stefánsson:

Það var aðeins út af ummælum hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) um brtt. okkar þm. N.-M. á þskj. 235, að jeg vildi segja fáein orð, vegna þess að mjer virtist af þeim, að málið væri honum ekki nægilega kunnugt; enda mun hann ekki hafa verið á fundi, þegar jeg gerði grein fyrir þessari till. Hv. frsm. talaði í þá átt, að fjvn. hefði viljað gera öllum slíkum till. jafnhátt undir höfði, taka ekki eina fram yfir aðra. En hjer er till., sem er alveg sjerstök. Þær till. aðrar, sem fram hafa komið, munu hafa verið um styrk til utanfara, sem menn ætla sjer að fara. En till. okkar er um styrk vegna ferðar, sem þegar er búið að fara með loforði um styrk. En það loforð brást, af ástæðum, sem jeg hefi tekið hjer fram áður. Og til þess að lengja ekki mál mitt, þá læt jeg nægja að vísa til þeirrar greinargerðar. Hjer er sem sje ekki farið fram á annað heldur en að bæta úr mistökum, er urðu gagnvart þessum manni, sem hann a. m. k. átti enga sök á sjálfur. Og jeg efast ekki um, að þingið vilji firra hann misrjetti.