26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg sný mjer fyrst að nál. hv. meiri hl. Skal jeg ekki verða langorður, en vil benda þar á eitt atriði, sem jeg held, að ekki hafi verið nægilega gaumgæfilega athugað. í nál. er sagt svo: „— þykir meiri hlutanum sjálfsagt, að íslensk tunga sje kend við háskólann, en engin slík kensla fer fram eins og stendur“. Er þetta í samræmi við upphaflegan flutning frv. af hendi hæstv. forsrh. (JM), þar sem hann lítur svo á, að engin kensla í íslenskri tungu fari fram við háskólann, ef þetta embætti er lagt niður. Eftir þeirri kenningu mætti halda, að enginn lærdómur í íslensku gæti átt sjer stað nema í málfræði. Rökrjett ályktun af því er þá líka sú, að í raun og veru hafi ekki verið nein kunnátta í íslensku allan þann tíma, sem málfræði var ekki kend. Kunnátta í málfræði var ekki til fyrri en ritöld hófst, en síðan kom langt tímabil, sem menn lögðu aðeins stund á latnesk fræði. Þannig hefir tungan lifað í margar aldir án þess að kenslu í málfræði hafi verið haldið uppi, og á sama hátt býst jeg við, að henni sje enn engin hætta búin, þó þetta dósentsembætti væri ekki stofnað. — Þessi röksemd hæstv. stjórnar er því ekkert nema þrotayfirlýsing.

Jeg skal þá víkja ofurlítið að sögu þessa máls, og hefi jeg farið dálítið inn á hana í nál. mínu á þskj. 233. Jeg vil þá byrja að segja frá því, er skeði á þinginu 1922. Þá flytja þrír leiðandi menn Íhaldsflokksins brtt. við fjárlagafrv. um að leggja styrkinn til þessarar kenslu niður. Segir einn þessara manna í ræðu, að engar kvartanir um vöntun á kenslu í þessari grein hafi komið fyrstu ár háskólans og enginn óskað eftir aukakennara í henni, uns dr. A. J. kom upp 1915 og sótti um styrk til að kenna þýsk fræði við háskólann. Þá fyrst kom þörfin á embættinu í ljós. Sami hv. þm. segir þá ennfremur, að þó ekki sje um mikla upphæð að ræða, þá sje þó þess vert að spara hana, enda sje ekki svo miklu niður slept, þar sem maður sá, er hjer um ræðir, kenni aðeins 4 stundir í viku og haldi enga fyrirlestra.

Nú líða 2 ár. Þá ber fjvn. Nd., að því er virtist óskift, fram till. um, að styrkur til þessa manns skuli endanlega feldur niður. Er saga þess máls rakin þá í nál. og þótti hv. nefndarmönnum sem kennari þessi hefði unnið fremur lítið, þó þeir vilji ekki neita því, að hann hafi gert eitthvert gagn, og telja þeir, að einhversstaðar sje meiri þörf starfskrafta hans en við háskólann. Var og þessi brtt. hv. fjvn. samþykt í báðum deildum. Má það því telja furðulega dirfsku af hæstv. stjórn að fara að koma með frv. þetta, eftir að flokksbræður hennar hafa barist svo rækilega á móti því embætti, sem það gengur út á að stofna. Ætti hæstv. stjórn að minsta kosti að varast að eyða tíma þingsins í slíkt að óþörfu.

Jeg mun við 3. umr. komast nánar inn á, hve harla veik sú heimild er, sem hæstv. stjórn byggir á. Og á þinginu 1922 var því af íhaldsmönnum rækilega mótmælt, að ríkið væri nokkrum samningum bundið við þennan mann. Enda mun það vera eftir ósk og af stöðugri ásókn þessa manns, að frv. þetta er komið inn í þingið, og sýnir það, hve það er mikið einkamál dr. A. J. Sjálfur hefir hæstv. forsrh. orðið að játa það.

Jeg vil ennþá víkja að því, sem jeg hvarf frá áðan, og spyr nú hæstv. forsrh., hvort hann haldi, að það sje engin kensla í íslensku í því fólgin að fara t. d. yfir bókmentasögu Íslands, sem nær yfir 1000 ár, með nemendunum, og leiðrjetta ritgerðir þeirra í 5–6 ár. Og fróðlegt væri að heyra hann lýsa skoðun sinni á þessu dálítið glöggar.

Það væri heldur ekki ófróðlegt að heyra nánar um það, hvernig hæstv. forsrh. (JM) telur sig bundinn við þennan mann með loforðum, sem ekki virðast liggja í öðru en því, að fjvn. hefir stundum mælt með því, að hann fengi styrk. — Samhliða þessu er feldur af núverandi stjórn úr fjárlögunum ritstyrkur til aðalkennarans í heimspekideildinni, sem meiri hluti þingsins í fyrra veitti þeim manni. Ætti hæstv. forsrh. (JM) að skýra fyrir þessari hv. deild, hvers vegna Sigurði próf. Nordal var ekki veitt dýrtíðaruppbót af upphæð þeirri, sem þingið ákvað honum í fyrra. Hafi samningar þingsins við próf. Nordal ekki verið lagalega bindandi, er þó ólíku meira vit í því en að hlaupa eftir því, sem einhver nefnd kann að hafa einhverntíma í pukri hugsað sjer eða látið á sjer skilja. Og þegar þingið marglýsir því yfir, að það telji sig óbundið, þá fer slíkt loforð að verða ljett á metunum.

Þá er ekki úr vegi að minna á, að það að koma dr. A. J. í fast embætti hefir lengi verið aðaláhugamál tveggja manna, dr. Alexanders sjálfs og eins hv. þm. í Nd., sem hefir verið sverð og skjöldur þessa embættis. Og skilst þá betur stökk íhaldsins í þessu máli og sá mikli greiði, sem svonefndur heiðursfjelagi Íhaldsflokksins gerði hæstv. stjórn í Krossanesmálinu. Sjest nú best, hverju hæstv. stjórn vill launa lífgjöf sína á þessu þingi.

Til stuðnings því vil jeg benda á það, að þessi vinna er, eftir því sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði árið 1922, og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) 1924, ekki nema 4 stundir á viku, þannig að þó að maður borgaði 10 kr. um tímann, sem yrði 40 kr. á viku, 160 kr. á mánuði, og yfir allan veturinn yrði þessi borgun, sem er meira en þreföld á við það, sem mestu vísindamönnum hjer, t. d. dr. Helga Jónssyni o. fl., er greitt fyrir kenslu. Jeg hygg þess vegna, þegar maður ber það saman, hvað hægt væri að gera með því að borga heiðarlega fyrir svona aukakenslu, miklu betur en ríkisstjórnin gerir við landsskólana, mönnum, sem máske hafa meiri vísindalega frægð en þessi maður, þá er það auðsjeð, að það er ekki verið að ráða fram úr þessu eins og gert yrði í „prívat“-skóla. Jeg er alveg viss um, að ef hæstv. kenslumálaráðherra væri skólastjóri í „prívat“-skóla eins og jeg, og hv. 6. landsk. (IHB) er ennþá, þá mundi hæstv. ráðherra fara þá leiðina, að fá sjer tímakennara og spara sjer 3/4 af því, sem hjer á að veita, aðeins til þess að koma vissum manni á ríkissjóð, en þetta er ein af ástæðunum fyrir því, að það er í mörgum tilfellum svo ákaflega dýrt fyrir landið; þegar búið er að koma stofnunum á ríkissjóð, þá er farið að borga 5 kr. fyrir það, sem hægt var að fá jafnvel gert fyrir eina kr. Jeg vildi spyrja hæstv. forsrh. (JM), hvernig hann hugsar sjer að samræma þann afskaplega sparnað, sem flokkur hans ætlaði að beita sjer fyrir í fyrra, við þetta. Það er prentað í Alþt., að ætlað var að leggja niður part af háskólanum, til þess að rjetta við fjárhaginn. Er þetta ekkert nema leikur? Á að samþykkja þetta í hv. Ed. til þess að gera fáeinum mönnum úrlausn, og svo að drepa það í hv. Nd? Er stefnufestan ekki meiri í stjórnarflokknum en svo, að hægt sje fyrir hæstv. stjórn að hringla með þm. sína eins og henni sýnist? Alt það, sem hægt er að gera til þess að breiða yfirskyn vísindanna yfir þetta, verður ekki nema gagnsæ gríma, en undir niðri er þetta aðeins sú fasta leið til þess að koma ákveðnum manni á ríkissjóð, eins og verið hefir síðan 1920. Og það er sannanlega rjett, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði 1922, að þetta embætti er gamall kunningi, og mjer finst það ekki rjett gert af hæstv. kenslumálaráðherra, og þar á ofan ár eftir ár, að vera að þreyta þingið með þessu nauði, sem þó líklega verður aldrei annað en manninum, sem hlut á að máli, til angurs, og þeim, sem fyrir því berjast, til skapraunar.