26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Forsætisráðherra (JM):

Jeg er þakklátur meiri hl. nefndarinnar fyrir það, hvernig hann hefir tekið í þetta frv., og jeg ætla ekki að orðlengja mikið um það hjer; vona, að þess þurfi ekki. Þetta mál var talsvert rætt við 1. umr., og er óþarfi að taka það upp aftur, einkum eftir að hv. frsm. minni hl. (JJ) hefir lýst því yfir, að hann ætli við 3. umr. að taka þetta alt upp aftur. Get jeg þess vegna ekki verið að gera hv. frsm. (JJ) það til geðs að svara þeim fyrirspurnum, sem hjer er tekið fram, að eigi að koma aftur við 3. umr. Vil jeg heldur halda mjer til þingskapanna. Skal jeg aðeins geta þess, sem jeg hygg, að ekki hafi komið fram við 1. umr. Jeg fjekk hv. mentamálanefnd Nd. til að bera fram samskonar frv. fyrir nokkrum árum, af því að jeg hefi altaf haft þá skoðun, að þessi kensla í íslenskri málfræði og sögu hennar væri alveg nauðsynleg, og fyrsta skylda að hafa kenslu í þeirri vísindagrein við íslenska háskólann. Hvort mjer tekst að koma þessu fram, skal jeg ekkert um segja, en þetta er svo fast hjá mjer, að jeg get ekki annað en endurtekið það. Jeg tel þetta svo sjálfsagt, og jeg hefi sagt það áður, að hefði mjer dottið í hug, að háskólinn ætti ekki að hafa kenslu í íslenskri tungu, hefði jeg ekki greitt atkv. með því í fyrstu að stofna háskóla. Jeg sagði, að það væri engin kensla í íslenskri tungu eins og nú er, því að það kalla jeg ekki vísindalega kenslu í íslensku, þó að farið sje í gegnum gamlar bækur og kvæði til að skýra þau. Það fyrsta er málfræði og samanburður við aðrar tungur, og því þarf háskólinn að hafa mann, sem virkilega er vísindamaður í þeirri grein, og það er ekki hægt að mótmæla því, að dr. Alexander Jóhannesson er sá eini í þessari sjerstöku grein. Jeg veit vel, að það eru margir menn, sem geta kallast góðir í íslensku, eins og t. d. próf. Sigurður Nordal. Hann lærði íslensku meðal annara námsgreina við háskólanám, eins og margir hafa gert, en það var ekki aðalnámsgrein, og því verður ekki sagt, að hann sje neinn sjerfræðingur í þeirri grein. Og þegar hv. þm. (JJ) er að bera það saman að hafa fast embætti og að hafa tímakenslu, þá þykir mjer langt farið. Jeg hefi ekki sjeð kensluskrá háskólans fyrir þetta missiri, og get því ekki sagt, hvað marga tíma aðrir háskólakennarar hafa á viku, t. d. Páll Eggert Ólason og fleiri. (JJ: Jeg vitnaði aðeins í íhaldsmenn í Nd.). En þessi samanburður er óheppilegur. Það er ekki einasta starf kennara við háskóla að flytja þar fyrirlestra og kenna þar. Engu minna ríður á, að þeir rannsaki verkefnin, brjóti þau til mergjar. Annars þætti mönnum það ekki nóg, að háskólakennarar kenni svo sem 4–6 stundir á viku. Og hvernig stendur á því, að engum dettur í hug að skipa fyrir um það, hvað skuli kent marga tíma á viku í háskólanum! — Hv. þm. (JJ) vill ekki láta auka tímafjölda hjá neinum skólum hjer, þótt það sje gert alstaðar annarsstaðar. — Og hvernig stendur á því, að háskólakennarar eru alstaðar undanskildir? Það er af því, að starfsemi þeirra á að vera fult svo mikið fyrir utan skólann sem í honum. Háttv. þm. (JJ) var dálítið að spyrja um samanburð á loforðum, sem gefin voru Sigurði Nordal og dr. Alexander Jóhannessyni. Jeg benti þá þegar á það, og jeg vil nú snúa því til hv. þm. (JJ), að ef þetta er bundið hvað snertir Sigurð Nordal, er það þá ekki alveg eins með dr. Alexander! Því vill þá ekki hv. þm. (JJ) halda því fram frá sinni hálfu; hann getur ekki heimtað það af öðrum, sem hann ekki vill viðurkenna sjálfur. Háttv. þm. (JJ) heldur, að þetta frv., sem er komið fram fyrir 6–7 vikum, sje þakklæti fyrir það, sem skeði fyrir fáeinum dögum. Ja, það er afskaplega spámannlegt, ef svo er, frá stjórnarinnar hálfu, en annars hefði maður eiginlega ekki getað látið sjer detta í hug, að það væri svo röggsamlega þakkað fyrir þess háttar greiða. Og jeg get sagt hv. þm. (JJ) það, hvers vegna það er, að jeg fylgi þessu svo fast. Það er af því, að jeg er alinn upp að nokkru hjá þeim manni, sem setti íslenska tungu hæst af öllum vísindagreinum.

Jeg ætla annars ekki að fara að taka það upp aftur, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls, og býst heldur ekki við að tala neitt frekar um þetta. En það er ekki til neins fyrir háttv. þm. (JJ) að bera það fram, að dr. Alexander sje ekki reglulegur vísindamaður. Um það hafa þeir menn dæmt, sem eru okkur báðum hæfari til þess.

Þá telur hv. þm. (JJ) það fífldirfsku af mjer að bera það frv. fram, sem jeg hafi áður borið fram og felt hafi verið. En jeg geri það af því, að jeg álít frv. nauðsynlegt, og jeg segi, að það verður að skeika að sköpuðu, hvort þetta þing samþykkir frv. nú eða ekki, en jeg mun stöðugt reyna að styðja að því, að það verði virkilega vísindaleg kensla í íslensku við háskólann hjer, og það þarf ekkert í því sambandi að vera að tala um sparnað. Jeg hefi aldrei álitið, að sparnaðurinn þyrfti að ganga svo út í ystu æsar, að ekki mætti kosta til þess, sem er algerlega sjálfsagt og nauðsynlegt, og að mínu áliti væri nær að sleppa því að prenta Alþt. heldur en að láta ekki kenna íslensku á þessum stað; og þótt það sje ekki flokksmál í Íhaldsflokknum, þá kemur það ekki neitt þessu máli við. Jeg býst við, að það sjeu mismunandi skoðanir hjá ýmsum mönnum í ýmsum flokkum, og þó að slíkar skoðanir komi fram, þá álít jeg, að það varði ekki flokkinn, því að ekki má kúga menn svo, að ætlast til, að þeir verði sammála um öll mál, hvort sem þau eru pólitísk eða ekki.