27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hæstv. forsrh. (JM) er því miður ekki sem stendur í deildinni, og vil jeg því fyrst snúa mjer að hv. 6. landsk. (IHB) með fáeinum orðum. Það liggur ekki fyrir að tala hjer um það, sem skrafað var í mentmn. í fyrra, enda er það hvergi skráð nje vottfest. Þá lá annað mál fyrir; það, að allstór hluti þingsins ljet sig litlu skifta, að álitlegasti fræðimaður færi frá háskólanum, og voru þar einmitt fremstir í flokki nokkrir þeirra, sem nú sækja fastast, að þetta embætti sje stofnað.

Jeg verð að játa, að jeg er nokkuð gamaldags í þessu máli; jeg lít sömu augum á heimspekideildina nú og gert var þegar hún var stofnuð. Jeg efast um, að þá hefði nokkur prófessor verið þar í íslensku, ef dr. Björn M. Ólsen hefði ekki lifað. En þar sem slíkur yfirburðamaður var til, vildu menn gjarnan gera hann að prófessor, og þá auðvitað til þess fyrst og fremst, að nafn hans skyldi kasta ljóma yfir háskólann.

Mjer finst eðlilegt, að svo var gert, og var þetta líkt og víða tíðkast annarsstaðar, t. d. í Frakklandi, þar sem í College de France eru menn, sem hafa prófessorstign, en kenna ekkert að ráði, heldur fást aðallega við vísindastörf. Mætti hafa þetta eins hjer, þegar þeir menn finnast, sem þess eru maklegir.

Þegar nú Björn M. Ólsen fann endi daga sinna nálgast, rjeð hann því, að próf. Sigurður Nordal var valinn í hans stað. Finst mjer nú skrítið eftir kenningu hæstv. forsrh. (JM), að hann skyldi ekki, þar sem hann eins átti kost á að velja dr. Alexander, gera það. Ef taka ætti trúanlega þá lýsingu hæstv. forsrh. (JM) á yfirburðahæfileikum dr. Alexanders, þá var það vitanlega vanræksla af Birni M. Ólsen að finna ekki þennan kraft, því að hinum manninum stóðu allir vegir opnir til þess að koma sjer áfram erlendis. Hann kom aðeins heim eftir ráði Björns M. Ólsens.

Jeg lít nú þeim augum á heimspekideildina eins og hæstv. fjrh. (JÞ) gerði að sumu leyti, er hann bar fram frv. um að leggja hana við aðra deild í fyrra, að sú deild eigi ekki að vera stærri en það, að þar sje valinn maður í hverju rúmi. Og jeg hefi margsannað það, og það hefir ekki verið hrakið af hv. 1. landsk. (SE) nje hæstv. forsrh. (JM) og Íhaldinu, að það, sem hjer um ræðir, er það eitt, að á knýr maður, sem laginn er að pota sjer áfram og á stuðningsmenn og einn vin í þessari hv. þd. Og þetta er því ekki sprottið af umhyggju fyrir mentamálunum, heldur er það blátt áfram algengur bitlingur.

Jeg vil minna hæstv. ráðh. (JM) á það, að í fyrra sagði þessi maður nefndinni, að hann vildi ekki þiggja stöðuna áfram. Þá skyldi maður ætla, að fenginn hefði verið nýr maður og fjárveitingin staðið áfram. Nei, fjárveitingin var feld niður. Hvaða meining var í því? En það sannaðist við 1. umr. af orðum hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), að það lítur út fyrir, að velunnari þessa manns búist við, að aðalembættið losnaði, og því hefir ekki verið hugsað um að fá annan.

Jeg býst við, að það sjeu ekki að öllu leyti þingleg orð, sem hæstv. forsrh. (JM) viðhafði í ræðu sinni, er hann talaði um bjána, en jeg ætla að leggja þau inn í sjóð hjá hæstv. forseta, til þess að aðrir geti miðað við það orðbragð sitt. Það, sem ráðherranum leyfist í þessu efni, mun öðrum leyfast. Annars er það ljóst, að hæstv. ráðh. er kominn í þrot með sína kenningu. Fjárveitingin var gerð vegna þessa manns, enda hafði honum verið lofað því. Hæstv. forsrh. hefir sagt, að sjer kæmi ekki við, þótt farið væri hörðum orðum um manninn; hann færi ekki á gaddinn. Hví leggur hæstv. ráðherra ekki áherslu á að lækna sína menn, hví hefir hann ekki reynt að snúa þeim til að segja ekki það, sem hann sjálfur álítur fjarstæðu? En mjer finst, þó að jeg fylgi ekki þeim mönnum að málum, að þeir hafi miklu meira til síns máls en forkólfurinn, hæstv. forsrh. Og sá maður, sem er talinn sjerfræðingur í íslensku, hefir aldrei lært íslensku, enda var það játað, Ennfremur var játað, að sá maður, sem hæstv. forsrh. telur ekki færan til þess að kenna þetta, er doktor í norrænni málfræði. Það er ekki hægt að neita því, að það eru tómar vífilengjur, sem hæstv. ráðh. hefir sagt, og rökþrot.

En nú kem jeg að því, sem hæstv. ráðh. sagði um þingeyska skólann, sem sje, að það væri jafnfjandsamlegt af mjer, að jeg vildi ekki greiða atkv. með því, að kvennaskólinn væri gerður að ríkisskóla, eins og þegar hann vildi fella niður fjárveitingu til þingeyska skólans. Jeg segi nei. Það er tvent ólíkt að fella niður fjárveitingu til skóla, svo að hann getur ekki starfað, eða að greiða atkv. móti því, að einkaskóli verði gerður að ríkisskóla, þegar ekki er hægt að sýna fram á, að nein breyting verði á honum nema þessi eina, að hann verður dýrari. Ef það er sama að vilja drepa skóla og reyna að sporna við því, að skóli verði dýrari fyrir ríkissjóð en hann þyrfti að vera með sama árangri, þá hefir hæstv. ráðh. rjett að mæla; annars fer hann með lokleysu. Enn sagði hæstv. ráðh., að það hefði verið óhugsað fyrir 2 árum, hvernig ætti að koma alþýðuskólum fyrir, en játar þó að þeir geti verið 5. Þetta er því sagt alveg út í loftið. Svo segir hann, að ekki sje hægt að vita, fyrir hvað mikinn hluta landsins skólinn væri, og því sje ekki hægt að stofna hann. Þetta er líka lokleysa. Fyrir hve mikinn hluta landsins er Eiðaskólinn? Eða gagnfræðaskólinn á Akureyri? Það er ekki hægt að segja fyrirfram, hvaðan lærisveinar koma.

Þá leyfði hæstv. ráðh. sjer að halda því fram út af frv. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að ósamlyndi væri innan flokksins, en ef svo væri, væri það ekki nema hliðstætt við ástandið í Íhaldsflokknum. En það er ekkert ósamlyndi í Framsóknarflokknum út af skólunum. Við viljum allir styrkja þá, án smásálarlegrar íhugunar um, hvar þeir eiga að standa.

Hæstv. ráðh. vildi gera lítið úr mjer með því að segja, að jeg væri enginn mentafrömuður. Það tek jeg mjer ekki nærri. En það felst annar dómur í þessu. Hvað á að segja um hv. samherja hans, sem ár eftir ár hafa reynt að leggja niður embættið, ef á að áfella mig? Þetta er því snoppungur á stuðningsmenn hæstv. ráðh., en ekki mig.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að jeg hefði mislesið í þingtíðindunum, og það hefi jeg því miður gert. Enn það er margt líkt með skyldum, og jeg held, að hæstv. forsrh. hafi í fyrra gert gott úr þessu. Hann endar með orðum, sem voru alveg eins að efni. Hann gerði að sínum orðum alt, sem hv. 1. landsk. hafði sagt um málið.

Jeg get ekki láð hæstv. ráðh., þó að hann vilji láta líta svo út, sem hv. þm. Dala. (BJ) sje ekkert við þetta riðinn, en það hefir samt verið hann, sem hefir borið þetta uppi og hefir á einhvern leyndardómsfullan hátt komið þessum áhuga inn í hæstv. stjórn. Það hefir verið reynt að sanna, að ekki væri samband hjer á milli, en það er engin synd að segja það, að stjfrv. kom í þingbyrjun, og þá vildi þessi hv. þm., sem þá var í Sjálfstæðisflokknum, ekki kjósa sinn eiginn flokksmann, ef það kom sjer ekki hjá Íhaldsmönnum. Og það er ekkert því til fyrirstöðu; að hann hafi með dugnaði sínum gefið stjórninni vilyrði um, að hún mætti hanga, ef hún bjargaði vísindunum við háskólann, þ.e.a.s. þessum manni, sem íhaldsmenn höfðu skorið niður.

Að síðustu mun hæstv. forsrh, hafa ætlað að vera fyndinn með því að segja, að jeg væri í mentamálum blindur og heymarlaus. En þetta mun vera lánað úr ádeiluræðu, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hjelt í Krossanesmálinu og sagði þar um hæstv. ráðh. sjálfan, að það liti út fyrir, að hann vantaði bæði sjón og heyrn.