27.03.1925
Efri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Forsætisráðherra (JM):

Hv. frsm. minni hl. (JJ) reiddist mjer og sagði, að jeg hefði kallað sig bjána. Jeg sagði, að hann hefði talað um ákveðið mál eins og bjáni, og það tek jeg ekki aftur.

Það er rjett, að loforðið, siðferðilega bindandi, er til, en jeg hefi ekki lagt sjer lega áherslu á það, heldur á málið sjálft.

Honum þótti hart, að jeg skyldi ekki viðurkenna hann sem mentafrömuð, en það get jeg ekki eftir framkomu hans hjer í gær og í dag. Hans sjón er ábótavant, þar sem hann sjer ekki nema lítinn hluta af því, sem allir heilvita menn ættu að sjá. Og þar sem hann hafði eftir hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), fer hann ekki með rjett mál. Jeg hefi talað við hann sjálfan, og hann sagðist ekki hafa sagt það, sem hv. frsm. minni hl. hafði eftir honum.

Hv. frsm. minni hl. var altaf að segja, að hv. þm. Dala. (BJ) hefði komið þessu af stað. Honum hefir altaf verið ant um þetta, en hv. frsm. minni hl. hefir einnig sagt það, með rjettu, að jeg hefði borið fram samskonar frv. fyrir nokkrum árum. Ætli jeg hafi þá verið farinn fyrir mörgum árum að borga fyrir atkvæði í Krossanesmálinu nú?

Við háskólann hefir bæði saga og bókmentasaga verið kend, en íslensk málfræði að mestu gleymst eða orðið útundan, og virðist það þó lítt sæmandi eða viðeigandi.

Þegar háttv. 5. landsk. (JJ) segir, að þessi maður, sem um er deilt og embættið á að fá, verði frv. þetta að lögum, sje ekki fær um að taka að sjer þessa kenslu við háskólann, þá er það fjarstæða ein, sem ekki er orðum að eyðandi. Dr. Alexander er viðurkendur vísindamaður beint á því sviði, eini viðurkendi sjerfræðingurinn.

Annars ætti mál þetta að vera útrætt í bili.