31.03.1925
Efri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

Saga sú, sem háttv. 5. landsk. (JJ) rakti, sýnir aðeins, hvernig þetta mál, eins og ýms góð mál, eiga oft erfitt uppdráttar. Þannig er um mörg mál hjá þjóð vorri, sem ennþá eru í minni hluta, að þau eiga eftir að skjóta upp höfði og fá síðar mikið fylgi.

Hvað snertir þekkingu og hæfileika dr. Alexanders læt jeg mjer alveg nægja umsögn háskólans, því að um það er hann færastur að dæma.

Um augu kvenþjóðarinnar, sem hv. 5. landsk. var að blanda inn í þetta mál, skal jeg ekki fara að tala hjer, þó því verði ekki neitað, að ekkert hefir eins mikil áhrif á skáldin sem þau. Og að því leyti fer dr. A. J. alveg með rjett mál í ritgerð sinni.

Annars finst mjer þetta mál svo einfalt, að ekki þurfi um það að deila, þar sem hjer á fyrst og fremst að bæta úr órjetti gegn ákveðnum manni, og svo ennfremur jafnframt bæta úr þeim órjetti, sem íslenskri tungu er sýndur með því að kenna hana ekki við háskólann. Hjer eru því slegnar tvær flugur í einu höggi.