31.03.1925
Efri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla enn að gleðjast yfir einum rjettlátum, sem bætir ráð sitt, þó jeg hafi raunar gert það áður. Mjer hefir þótt hv. þm. (EP) heldur vaxa af sinni fyrri frammistöðu, þó hann nú virðist vera hálfólukkulegur yfir henni og vilji nú sjálfur draga úr sinni eigin dygð. Það verður ekki dulið, að hann er í mótsögn við hv. aðalflm. frv. hjer í deildinni, því hæstv. forsrh. (JM) segir, að samþykt fjvn. og þingsins 1921 sje ekki bindandi samningur. Hv. þd. leit líka svo á í fyrra, og þar á meðal ýmsir samherjar hv. 1. þm. Rang. (EP), að þessi samþykt væri hvorki lagalega nje siðferðilega bindandi fyrir þingið. Jeg skal líka geta þess, að þrír samherjar hv. þm. (EP) í fjvn. Nd. telja þetta alls ekki bindandi, og býst jeg ekki við því, að háttv. 1. þm. Rang. vilji drótta því að þessum mönnum, að þeir vilji svíkja loforð. Ennfremur er það upplýst, að hv. þm. (EP) var samþykkur foringja flokksins, hæstv. fjrh. (JÞ), er hann vildi í fyrra leggja þetta starf niður, því þá gerði hann ekki ráð fyrir nema tveim prófessorum við heimspekideildina, og þessi maður, sem nú er verið að stofna embætti fyrir, var lagður niður. Mjer þykir leiðinlegt, að hv. þm. (EP) skuli hafa afsalað sjer þeirri dýrð, að hafa fylgt þessu í sparnaðarskyni, því hann játar að vera til með að eyða þessu fje, ef það sje aðeins látið standa í fjárlögunum. Jeg sje ekki betur en að hv. þm. sje í mótsögn við flokksbræður sína í Nd., sem ekki vilja hafa þetta í fjárlögunum, með því þeir telja það hvorki lagalega nje siðferðilega nauðsyn. Hann er líka í mótsögn við hæstv. forsrh., sem vill gera starf þetta að föstu embætti með lögum. Og loks er hann í mótsögn við formann flokks síns, hæstv. fjrh. (JÞ), sem vildi leggja starfið niður til þess að tryggja verklegar framkvæmdir í landinu. Þetta þykir mjer alt leiðinlegt vegna hv. þm. (EP). En hann má sjálfum sjer um kenna.