31.03.1925
Efri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

Kjarninn í þessu máli er í fyrsta lagi sá, að nauðsynlegt er, að íslenska sje kend við háskólann, og í öðru lagi, að sá maður, er þetta starf er ætlað, er að dómi háskólans mjög vel fær um það. Í þriðja lagi er það siðferðileg skylda þingsins að sjá þessum manni fyrir því, að hann geti haldið starfinu áfram. Það er að vísu rjett, að um það eru ekki neinir bindandi samningar, en þingið hefir þó siðferðisskyldu í þessu máli. Maðurinn hefir verið kostaður ár eftir ár af Alþingi til þess að gegna þessu starfi og þingið er búið að draga hann inn á þessa braut. Hefir hann því kastað frá sjer öðrum störfum, því að honum var gefið undir fótinn með það, að hann fengi að halda starfinu áfram.

Jeg skal svo ekki orðlengja meira um þetta. Þetta er kjarni málsins, og það er ljóst. En ekki nær neinni átt að ætla sjer að gera það að stórpólitísku máli.