01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Forsætisráðherra (JM):

Jeg sagði við 1. umr., að þetta mál væri í sjálfu sjer kunnugt í þessari hv. deild, og ætla jeg mjer því ekki að segja nú neitt sem heitir um það. Jeg leyfi mjer að þakka hv. meiri hl. nefndarinnar fyrir till. hans í málinu og þann skilning, sem þessi hv. hluti nefndarinnar hefir sýnt á því, hve sjálfsagt og nauðsynlegt er að leggja sjerstaka áherslu á, að íslensk tunga sje sem best kend við háskólann. Jeg hefi getið þess annarsstaðar, að þegar háskólinn var stofnaður, var jeg því ekki neitt sjerlega fylgjandi, því að jeg óttaðist, að við með því kynnum að reisa oss hurðarás um öxl. Og hefði mjer þá dottið í hug, að nokkurntíma yrði tregða á því, að þar yrði kend íslensk tunga svo vel sem skyldi, þá hefði jeg verið enn tregari. Mjer finst þetta svo sjálfsagt, að háskólinn hafi kenslustól í sögu tungunnar og málfræði, að jeg get ekki hugsað mjer, hvernig það á eða má vera öðruvísi. Jeg hefi altaf fylgt þessu fram eftir megni og mun berjast fyrir því meðan jeg get. Vonast jeg til, að hv. deild geti samþykt þetta frv. Þetta er mál, sem eigi ætti að þurfa langar umr. um. Það ætti að vera skiljanlegt hverjum manni.