01.05.1925
Neðri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

75. mál, dócentsembætti við heimspekideild

Bjarni Jónsson:

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) virtist velviljaður þessu máli, en jeg skil ekki, hvernig þeir ráða því, hvað tekið er inn í fjárlög. Það er undir atkv. allra þm. komið.

Vísindamenn nútímans eru það betur settir en í minni æsku, að þeir eru eigi svo þrælbundnir, að þeir þurfi að vera milli tannanna á þm. ár eftir ár. Þeir geta fengið sjer önnur störf, en þá getur orðið leit fyrir háskólann að mönnum.

Jeg sje ekkert á móti því að tengja önnur störf við háskólann, en jeg ímynda mjer, að hver fræðslumaður geti nú fengið þar fyrirlestraleyfi og að háskólinn telji sjer ávinning að því, svo að þingið þurfi ekki um það að tala.

Þetta er ekki mitt mál, nema hvað jeg er á einn hátt bundinn við eina deild háskólans, en jeg vil fylgja málum hans, þegar þess er kostur.