17.02.1925
Neðri deild: 9. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (JM):

Það var rjett hjá háttv. þm. Str. (TrÞ), að læknaþingið á Akureyri síðastl. sumar samþykti tillögu um að taka af læknum rjett þann, er þeir hafa til að gefa lyfseðla út á áfengi. Þetta er mál, sem mikið er deilt um og örðugt er að koma í framkvæmd, meðan áfengi er notað til lyfja. En þetta athugar allslhn. vitanlega ásamt öðrum breytingum. Og jeg sje ekki ástæðu til að taka afstöðu til þessarar breytingar fyr en málið kemur frá nefndinni, eða hún óskar að tala við mig um hana.

Annars held jeg, að í frv. þessu felist ýms ákvæði, sem mikla þýðingu geta haft fyrir bannmálið, breytingar, sem beinlínis eru sprottnar af reynslu við framkvæmd á bannlögunum hin síðustu ár, þó sjerstaklega sje það af reynslu ársins 1924. Vona jeg því, að þær nái greiðlega fram að ganga. En hinsvegar er jeg hræddur um, ef miklar breytingar koma fram, sem ágreiningi valda, að þær geti orðið til þess að hindra það, að þessar nauðsynlegu breytingar nái fram að ganga.