17.02.1925
Neðri deild: 9. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Torfason:

Jeg skal játa, að mjer hefði ekki komið á óvart, þó að í frv. þessu hefði verið einhver ákvæði, sem lagt hefðu að einhverju leyti hemil á áfengislyfseðlasölu læknanna, og það því fremur, þegar uppskátt er látið, að einn læknir landsins hefir gefið út svo marga lyfseðla, að ekki varð tölu á komið. Varð því rannsóknardómari sá, er með málið fór, að láta sjer nægja að punda þá.

Annars stóð jeg upp til þess að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JM), hvað meint væri með því ákvæði 4. gr. frv. þessa, þar sem segir, að skip megi gera upptækt, ef verulegur hluti farmsins sje áfengi. Þetta finst mjer næsta óákveðið. Eins og kunnugt er, kom hingað til Reykjavíkur síðastliðið haust skip, sem eigandinn hafði áskilið sjer 15 tonn af flutningsrúmi í, til þess eins að flytja í áfengi. Og á því leikur nú enginn vafi, að annan flutning tók skipið sem aukaflutning, því að ferðin mun hafa verið gerð einungis til að koma áfenginu.

Jeg er nú í engum efa um, að í slíkum tilfellum sem þessum á að gera skipið upptækt; en eftir frv. þessu er jeg í vafa um, að það sje hægt, að minsta kosti ef miða á við rúmmálið. Fyrir nefndarinnar hönd óska jeg því, að hæstv. forsætisráðherra ákveði nánar, hvernig skilning hann leggur í nefnt ákvæði, „verulegur hluti farmsins“.