19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Um bannlögin hefir verið deilt að heita má á hverju þingi síðan þau voru sett, enda gefur svo að skilja, þar sem hjer eigast við tvö andstæð öfl. Annarsvegar eru þeir, sem vilja breyta lögunum, svo að þau komi að enn meira gagni, en hinsvegar aftur aðrir, sem gjarnan vilja fleyga lögin og á þann hátt draga úr nytsemi þeirra. Það er öllum kunnugt, að bannlögin voru sett samkv. þjóðaratkvæði. Meiri hluti þjóðarinnar tjáði sig því fylgjandi, að þau yrðu sett, og meiri hl. alþm. hefir jafnan, eða a. m. k. altaf, þegar kosningar hafa staðið fyrir dyrum, talið sig eindregið fylgjandi bannlögunum. Þó verða menn að játa, að þeim, sem heldur vilja spilla lögunum en bæta þau, hefir orðið betur ágengt á síðustu árum, enda þótt mönnum hafi jafnan fundist þeir færri við kosningar. Þessu til sönnunar þarf ekki annað en benda á nokkrar breytingar, sem gerðar hafa verið á bannlögunum frá því þau voru sett, svo sem þegar svonefnt læknabrennivín og konsúlabrennivín var í lög sett.

Þegar nú hjer við bætist, að eftirlitið með lögunum hefir vægast sagt verið mjög slælegt, þá er vel skiljanlegt, að gagnið, sem þau hafa gert, sje minna en þjóðin ætlaðist til í upphafi, er hún stofnaði til þessarar lagasetningar.

Margir líta svo á, að embættismenn þjóðarinnar, sumir hverjir, hafi ekki framfylgt bannlögunum sem skyldi, og væri jafnvel ástæða til að fara frekar út í þá sálma við einhverja umræðu bannlaganna hjer á þingi, þó að jeg leiði það hjá mjer að þessu sinni, enda er hátíð harla nærri.

En þess má nærri geta, að þjóðin hefir ekki heimtað lögin til þess, að þau væru krossbrotin um land alt, þeim stórspilt og ljelega framfylgt af embættismönnum þjóðarinnar. Hún hefir auðvitað heimtað þau til þess, að af þeim mætti hljótast alt önnur umf.