19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Eins og hv. þdm. sjá á áliti hv. meiri hl. og minni hl. allshn., sem er á þskj. 163 og 178, þá hefir nefndin ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Þar eð háttv. frsm. meiri hl. (JBald) hefir nú lýst afstöðu hans, þykir mjer og rjett að lýsa með nokkrum orðum afstöðu minni hlutans. En við, sem í honum erum, höfum, eins og sjá má á þskj. 178, lagt til, að frv. stjórnarinnar verði samþykt óbreytt. Frv. fer fram á það, að bætt sje úr augljósum göllum, sem eru á bannlögunum, einkum hvað snertir framkvæmd þeirra. Það er vilji okkar, að úr þessu verði bætt, einkum til þess, að ekki sje hægt hjer eftir eins og hingað til að kenna göllum á lögunum sjálfum um alt það, er miður fer í sambandi við bannlögin. En þótt það sje vilji okkar í minni hl., að frv. gangi óbreytt fram, þá er ekki svo, að við sjeum að öllu leyti samþykkir öllum ákvæðum þess. Sjerstaklega er það álit mitt, að í frv. sje að sumu leyti fulllangt gengið í því að leggja strangar refsingar á menn fyrir verk, sem aðrir en þeir sjálfir fremja. Það er óheppilegt að setja svo ströng refsiákvæði í lög, að óttast megi, að þau út af fyrir sig geri lögin óvinsæl, og verði þannig fremur til ógagns en gagns. En það er framar öllu nauðsynlegt, að bannlögin Verði vinsæl meðal almennings. Önnur ákvæði frv., sem miða beint til þess að bæta úr augljósum göllum á bannlögunum, erum við fúsir til að styðja, og vil jeg þar sjerstaklega tilnefna 7. gr. frv., sem fer fram á, að hlutdeildarmönnum í bannlagabrotum sje refsað. Virðist næsta kynlegt, að slíkt ákvæði skuli ekki fyrir löngu vera komið inn í bannlögin. Og það er engu líkara en að bannmenn og ýmsir aðrir hafi litið svo á, að altaf mætti refsa fyrir hlutdeild í broti, án nokkurs tillits til þess, hverskonar brot er um að ræða, hvort um er að ræða hegningarlagabrot eða smávægilegt lögreglubrot. Og af þessum stórkostlega misskilningi, sem jeg þóttist jafnvel finna hjá hv. frsm. meiri hl. (JBald), hafa oftast þær hnútur sprottið, sem oft hefir ómaklega verið kastað að lögreglustjórum og dómurum landsins fyrir aðgerðir þeirra í þessum málum. Hefir þeim verið brugðið um hlutdrægni. Þeim borið á brýn, að þeir refsuðu aðeins nokkrum af þeim seku, en ljetu aðra sleppa. En sannleikurinn er sá, að hingað til hafa þeir alls ekki haft heimild til að refsa hlutdeildarmönnum í bannlagabroti. En þar eð þessi misskilningur hefir ríkt, þá er ekki furða, þótt dómar almennings í þessu efni hafi æðioft verið helsti sleggjukendir.

Þá vil jeg snúa mjer að þeim þrem aðalbrtt., sem hv. meiri hl. leggur til, en við erum andvígir.

Fyrsta brtt. er fólgin í því, að lagt er til, að feld sje burtu 2. málsgr. 2. gr. bannlaganna. M. ö. o., að strikuð sjeu út af lyfjaskrá landsins þessi vín: rauðvín, malaga, sherry, portvín og cognac, og mega læknar landsins ekki lengur gefa lyfseðla út á þessi vín.

Mjer virðist nauðsynlegt, af því að svo virðist, sem hv. meiri hl. sje þetta ekki ljóst mál, að fara aftur í tímann og skýra frá, hvernig þessi ákvæði 2. málsgr. 2. gr. eru komin inn. Þessi ákvæði voru sett 1915, og var ástæðan sú, að árið áður úrskurðaði stjórnarráðið, að ekki mætti flytja inn önnur lyf til lækninga en þau, er talin væru í lyfjaskránni. 2. gr. bann laganna frá 1909 leyfði læknum að flytja inn þann vínanda, er stæði í lyfjaskránni, en sú lyfjaskrá, er gilti þá og gildir enn, er danska lyfjaskráin. Þar eru ekki talin þau vín, er 2. málsgr. 2. gr. bannlaganna nefnir. Aftur á móti var í lyfjaskránni talinn vínandi, sem læknar vísa oft á, þ. e. spiritus concentratus. Rjett er að geta þess, að framan við sjálfa lyfjaskrána er þess getið, að vín og önnur auðfengin efni, væru ekki tekin í skrána. Danir hafa aldrei haft hug á að koma á hjá sjer banni, og því voru þessi vín og eru enn auðfengin þar utan lyfjabúða.

Úrskurður stjórnarráðsins 1914 var í rauninni aðeins skýring á lyfjaskránni. En þegar læknar landsins heyrðu um úr- skurð þennan og sáu, að þeim væri þar með meinað að ávísa sjúklingum þeim lyfjum, er þeir töldu best henta í hvert skifti, þá mótmæltu þeir. Þeir töldu þetta ekki geta samræmst þeim rjetti, er starf þeirra útheimti og ætti. Alþingi 1915 fjellst á mótmæli læknanna, og var því 2. málsgr. 2. gr. bannlaganna sett, sem mælti svo fyrir, að hin umgetnu vín skyldu sett inn á lyfjaskrána. Minni hl. getur ekki verið samferða hv. meiri hl. í því að leggja til, að þessar áfengistegundir verði nú strikaðar út af lyfjaskránni, enda telur hann það einberan hjegóma. Allar þær áfengistegundir, sem taldar eru í 2. málsgr. 2. gr. bannlaganna, að einni undanskilinni, eru nú til hjer á landi utan lyfjabúða. Ef því þessi till. hv. meiri hl. yrði samþykt, yrði árangurinn sá einn, að cognac hyrfi að lyfjaskránni, en spiritus concentratus yrði þar áfram. Er ástæðulaust að banna læknum að nota cognae eitt.

Hv. meiri hl. fer ekki fram á að banna læknum að nota spir. con. eða gefa lyfseðla út á hann. Undrar þetta mig, og sýnist mjer svo sem hv. meiri hl. fari því öfuga leið, ef hann vill banninu vel. Hann vill sem sje meina læknum að hafa til meðferðar hin ljettu vín, sem allir vita, að eru óskaðleg, en vill hinsvegar neyða þá til, ef vín þarf að nota, að nota spir. con., sem mun ólíkt hættulegri.

Sem sagt, jeg er hálfhissa á, að háttv. meiri hl. skuli bera fram brtt. um að svifta lækna rjetti til að hafa til meðferðar hin meinlausu vín, einkum eftir að sú breyting hefir orðið á síðan 1915, að þessi ljettu vín fást nú utan lyfjabúða. Eina afleiðingin yrði sú, að mönnum, sem búa utan kaupstaða, þar sem þessi ljettu vín eru ekki á boðstólum, yrði erfitt eða ómögulegt að ná í þau, ef læknir ráðlegði þau,

Hv. frsm. meiri hl. (JBald) gat þess, að þessi rjettur læknanna hefði verið herfilega misbrúkaður, og hið sama kemur fram í nál. hv. meiri hl. Jeg tel þetta ómaklega árás á læknastjett landsins yfirleitt. Jeg skal ekki neita, að einstöku læknar kunni að hafa misnotað rjett sinn, en ófært er að dæma stjettina í heild fyrir það. Sem betur fer held jeg, að læknar yfirleitt muni mjög lítið misnota þessa heimild. Eins vil jeg gjarnan spyrja hv. frsm. meiri hl. (JBald): Heldur hann, ef heimildin hefir verið misnotuð, að það hafi verið í sambandi við þær áfengistegundir, sem hann nú vill nema burt af lyfjaskránni ? Jeg er viss um, að hann veit, að svo er ekki. Hafi heimildin verið misnotuð, þá hefir það verið í sambandi við þá tegund, sem þeir hreyfa ekki við, sem sje spir. con., en ekki ljettu vínin.

Máli sínu til stuðnings mintist háttv. frsm. meiri hl. á, að þetta væri vilji lækna og benti á samþykt þá, er gerð var á læknaþingi á Akureyri síðastliðið sumar. Jeg veit, að það er vilji sumra lækna, að þessi lyfjasöluheimild sje eitthvað takmörkuð. En eins og bent er á í nál. okkar, þá er það ekki einróma álit læknanna, að þá beri að svifta þessum lyfjum; eitthvað annað. Jeg er viss um, að mikill meiri hl. þeirra er eindregið á móti því. Má benda á samþykt Læknafjelags Reykjavíkur um þetta, og hinsvegar á, að samþyktin á Akureyri komst aðeins á með 10 atkv. gegn 2. Voru margir læknanna, sem þingið sátu annars, ekki viðstaddir, og er alveg óvíst, að þessi samþykt hefði verið gerð að öðrum kosti. Jeg hefi nú skýrt frá afstöðu okkar í minni hl. til þessarar brtt., en legg nú úrslitin á vald deildarinnar. En það verð jeg að segja, að vilji deildin gera eitthvað í samræmi við læknasamþyktina á Akureyri, þá verður hún að velja aðra leið en þá, sem hv. meiri hl. vill fara, því að hún er gagnslaus.

Þá er önnur aðalbrtt. hv. meiri hl., sú, að nema burtu úr bannlögunum þá heimild, er íslenskum fólksflutningsskipum var gefin til að mega hafa áfengi handa farþegum og skipverjum í siglingum milli landa. Þessi heimild var gefin 1915 samkv. till. nefndar eða meiri hl. nefndar þeirrar, sem hafði bannlögin til meðferðar, sem í sátu meðal annara núverandi hæstv. forsrh. (JM) og Sveinn Björnsson fyrv. sendiherra. Var það gert af ótta við, að íslensk farþegaskip kynnu að verða of hart úti í samkepninni við erlend skip, ef þeim væri meinað að veita farþegum áfengi á ferð milli landa. Ætluðu menn, að af því myndi leiða fjárhagstjón fyrir skipin, og því var heimildin sett 1915. Alþingi fjelst á þetta 1915 og samþykti undanþáguna.

1917, er bannlögin voru endurskoðuð, vildu sumir fella þessa heimild burt. Spurðist þá allshn. Nd. fyrir um málið hjá stjórn Eimskipafjelags Íslands, og svaraði hún svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákveðið að senda allsherjarnefnd neðri deildar Alþingis tilmæli um, að ekki verði úr lögum numin heimild sú, sem skip fjelagsins hafa nú til þess að hafa áfengi um hönd handa farþegum og skipshöfn í ferðum milli landa, með því að afnám þessarar heimildar myndi hafa í för með sjer fjárhagslegt tjón fyrir fjelagið, misrjetti gagnvart öðrum millilandaskipum og önnur óþægindi.“

Þessu svaraði Eimskipafjelagsstjórnin 1917.

Nú er enn farið fram á það að fella úr lögunum heimild stjórnarráðsins til þess að veita íslenskum fólksflutningaskipum leyfi til þess að hafa áfengi innanborðs.

Út af því snerum við okkur til stjórnar Eimskipafjelagsins. Svar stjórnarinnar er prentað í nál. okkar minni hl. Er það samhljóða svari því, er það sendi 1917. Það þarf ekki að skýra fyrir hv. deild, að samkepnin við erlend siglingafjelög er miklu harðari nú heldur en á árunum 1915–17. Minni hl. álítur því, að ekki geti komið til mála, að Alþingi stuðli að því að baka fjelaginu fjárhagslegt tjón. Hv. meiri hl. dregur það í efa, að fjelagið bíði tjón við þetta, en þeir, sem kunnugir eru málavöxtum, draga það ekki í efa.

Þá er þriðja aðalbreytingin, sem meiri hl. leggur til, að svifta sendimenn erlendra ríkja heimild til þess að flytja inn ákveðna lítratölu af áfengi á ári til heimilisþarfa. Þessi undanþága var sett í bannlögin 1913. Kom þá fram beiðni frá sendimönnum Frakka og Norðmanna í þessa átt, og fjellst Alþingi á það. Af umr. um málið þá er ljóst, að þetta var aðeins gert af því, að það var talin sjálfsögð kurteisi af Alþingi að veita þessa heimild. Einnig var litið svo á, að þetta mundi ekki geta skaðað bannlögin í neinu, því að þessir menn myndu ekki misnota undanþáguna. Jeg skal engan dóm á það leggja, hvort nauðsyn hafi verið 1913 að sýna slíka kurteisi þessum erlendu ríkjum, er þarna áttu hlut að máli. En mjer er ekki vitanlegt, að heimild þessi hafi nokkru sinni verið misnotuð, og því er það ókurteisi, ef nú á að fara að svifta þessa menn þessari heimild, eigi aðeins gagnvart þeim sjálfum, heldur einnig gagnvart þeim ríkjum, sem þeir eru fulltrúar fyrir.

Þá hefi jeg minst á aðalbrtt. meiri hl. Flestar hinar brtt. hans eru aukatillögur. Þó eru í þeim nokkrar smávægilegar efnisbreytingar, t. d. þar sem meiri hl. leggur til, að aftan við 4. gr. bannlaganna komi inn ný grein, svo látandi: „Á hverju missiri skal birta í Lögbirtingablaðinu skrá yfir þau iðnaðarfyrirtæki, sem hafa fengið áfengi eða áfengisvökva til iðnþarfa. Jafnframt skal geta nafns stjórnanda eða eiganda iðnaðarfyrirtækis og hversu mikið áfengi eða áfengisvökva fyrirtækið eða einstakur iðnaðarmaður hefir fengið á umliðnu missiri.“ Jeg held, að þetta sje óþarft. Jeg veit ekki betur en að lögreglustjórar semji sundurliðaðar skýrslur um alt áfengi, sem notað er til iðnaðarþarfa, svo að óþarfi sje að prenta þetta í Lögbirtingablaðinu. Það er sáralítið, sem iðnaðarmenn fá af áfengisvökva, þetta 1/2 líter „politur“ í senn, máske á mánuði, mánuði eða jafnvel missiri. Álít jeg þýðingarlaust að vera að birta slíkt. Af því leiddi aukinn kostnað og aukna skriffinsku, — ekkert annað. Eftirlit stjórnarráðsins á að vera nógu gott fyrir því.

Svo er það brtt. hv. meiri hl. við 12. gr., um húsrannsókn. Jeg skal lýsa yfir því, að jeg hefði verið hlyntur því að fá inn í bannlögin eitthvert slíkt ákvæði sem þetta, þó jeg yfirleitt sje því mótfallinn að skerða þann rjett manna um heimilisfrið, sem þeim er heimilaður samkvæmt stjórnarskránni. Og jeg get alls ekki gengið inn á brtt. eins og hún er orðuð. Vil jeg, að slíkt ákvæði sje bundið því skilyrði, að menn hafi verið dæmdir fyrir brot á bannlögunum, sem framið hafi verið í gróðaskyni, en ekki brot alment.

Það var svo ekki fleira, sem jeg þurfti að segja. Jeg vona, að frv. stjórnarinnar verði samþykt óbreytt. í því er margt til bóta, einkanlega 7. gr. frv.; einnig 4. gr., sem fjallar um það, að þegar áfengi er flutt inn í gróðaskyni, þá sje sektin miklu hærri en ella. Ennfremur ákvæðin í 1. gr. um landhelgina. 5. og 6. gr. frv. eru líka til bóta og stefna í rjetta átt. Og verði frv. samþykt, er búið að bæta úr flestum göllum, sem reynslan hefir sýnt, að eru á framkvæmd bannlaganna.