18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Hæstv. forsrh. hafði eiginlega ekki neitt út á þessa till. að setja, að mjer skilst, eða ekki annað en það, að hún muni tefja fyrir því, að málið gangi fram. Jeg skil naumast í því, þar sem þetta er í raun og veru í áttina við það, sem hæstv. forsrh. (JM) vill vera láta í frv. Því hann ætlast til að svifta læknana leyfi við þriðja brot, en jeg fer nokkuð lengra í sömu átt.

Hæstv. forsrh. vildi færa það sem afsökun fyrir læknana, að það væri kannske ekki ásetningssynd, þegar þeir brytu í fyrsta sinn. Hver heilvita maður lætur sjer detta í hug, að þeir, sem komast í læknisembætti, sjeu svo illa að sjer, að þeir viti ekki, hvað þeir eru að gera, þegar þeir gefa áfengislyfseðla, viti ekki, að þeir eru að fremja lagabrot? Jeg held, að hvorki þingmenn nje aðrir þurfi að vera að blekkja sig í þessu efni. Og ef þeir ekki fullvissa sig um það í hvert skifti, sem þeir gefa út lyfseðil, að þess sje þörf, þá álít jeg þá menn ekki hæfa til að vera lækna. Frá þessu sjónarmiði er það alveg forsvaranlegt að svifta þá rjettinum við fyrsta brot. Því læknar eiga ekki að hafa heimild til að gefa út lyfseðla, nema þeir hafi fullvissað sig um, að það sje nauðsynlegt fyrir þá sjúklinga, sem þeir hafa undir höndum. En þegar þeir í stórum stíl selja áfengi hverjum, sem hafa vill, og hafa meira að segja opnar skrifstofur í þessu skyni, — ja, jeg sje eiginlega ekki, að það sje vandgert við slíka lækna.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) leggur fyrir hönd minni hl. allshn. á móti þessari till. Það kemur mjer ekkert á óvart, því jeg efast um, að hann fylgi jafnvel sjálfu stjfrv. fast fram. En þar sem hann talaði um að hafa það í lögunum, að læknar skyldu aðeins sviftir lækningaleyfi eftir dómi, þá er því þar til að svara, að þótt það sje felt niður með brtt. okkar, þá verða læknar sviftir rjetti til að gefa út seðla á áfengi um leið og sektin verður ákveðin, og það verður auðvitað með dómi. Þess vegna þarf hv. þm. ekki að vera á móti tillögunni.