22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (JM):

Þær breytingar, sem farið var fram á í stjfrv., eru þær einar, sem reynslan hefir sýnt, að eru nauðsynlegar. Býst jeg við, að samkomulag náist um þær í þessari hv. deild, eins og í háttv. Nd., þar sem jeg minnist þess ekki, að andmælum væri hreyft gegn nokkru atriði frv. Ein aðalbreytingin er sú, að ekki aðeins þeir, sem fremja brotið, verknaðinn, sæti refsingu, heldur og hlutdeildarmenn. Þá hafa og sektir verið hækkaðar, og vil jeg benda á lög um sektir í því sambandi.

Jeg sje ekki ástæðu til frekari ummæla um frv. þetta á þessu stigi málsins. Rjett væri þó máske að benda á eitt atriði, um útfærslu landhelginnar. í háttv. Nd. komu fram brtt., sem jeg álít ekki heppilegar, en jeg veit þó ekki, hvort ástæða er til, þrátt fyrir það, að senda frv. aftur þangað. Hygg þó rjettast að vísa frv. til allshn. að lokinni umr.