30.03.1925
Neðri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg býst við, að mjer sje óhætt að lofa hv. þm. því, að jeg skuli ekki tefja hinn dýrmæta tíma þingsins mikið. En mig langar þó til að fara nokkrum orðum um þær till., sem jeg hefi leyft mjer að bera fram. Geri jeg raunar ráð fyrir, að hv. þm. muni fella þær flestar, því að það skal viðurkent, að þær eru ekki bygðar á þeirri skoðun, að borgun „lausra skulda“ sje okkur mest lífsnauðsyn, eins og hv. þm. virðast ætla. En jeg er frá gömlum tíma svo vel að mjer í vaxtareikningi, að jeg sje, hvað viss höfuðstóll verður orðinn eftir 20 ár, ef vextir og vaxtavextir eru teknir með. En aldrei var mjer kent að reikna aðeins aðra hlið dæmisins. Því er mjer tamt að reikna líka tapið af því að láta undir höfuð leggjast að byggja líknarstofnanirnar. Jeg vil að hv. þm. athugi, hvað það kostar, að menn deyi fyrir handvömm og sýki út frá sjer. Jeg fullyrði, að það er á borð við renturnar af upphæðinni, sem til bygginganna fer. Þá vil jeg og taka það fram, að mjer er ljúfara að byggja handa lifandi mönnum en dauðum, því að þeim er gröfin þægilegust. Annars er það merkilegt, að á hverju þingi verður til sjerstök setning, sem rúmar hverju sinni allan kjarnann úr fjármálaspeki þingsins, og sem hv. þm. ríða á alla tíma eins og krakkar á priki.

Það kom umsókn frá stúdentum um styrk til byggingar stúdentagarðs. Þarf ekki að fjölyrða um nauðsyn þessa máls, nje heldur þann dugnað, sem stúdentar hafa sýnt við fjársöfnunina og um það, hversu vel einstaklingarnir hafa brugðist við. Hins er skylt að geta, að í þessari hv. fjárspekinefnd fjekst enginn til að veita þessu máli fulltingi sitt. Stúdentar höfðu beðið um 100 þús. kr., og var jeg því meðmæltur og lagði hitt og þetta til við nefndina til samkomulags. Kom jeg að síðustu með till. um, að 1/3 umbeðins fjár yrði veittur. En síðan átti jeg tal við forsvarsmann stúdenta, og taldi hann, að hv. fjvn. hefði gefið sjer loforð um að taka þessa till. upp við 3. umr. Tek jeg því þessa till. aftur. Veitist þá tækifæri til að reyna höfðingsskap hv. nefndar, og eins það, hversu hún metur loforð sín mikils. Vil jeg ekki taka frá henni þá sæmd, sem hún getur aflað sjer með því að bregðast nú drengilega við.

Þá kem jeg að styrknum til Ingibjargar Guðbrandsdóttur. Hafa henni lengi verið veittar 600 kr. til að halda uppi kenslu í leikfimi, en síðasta þing feldi niður þá fjárveitingu. Er mjer ástæðan til þess ókunn. Stúlkur úr sveit hafa átt kost á að nema fimleika hjá þessari konu, og er þeim það vafalaust meiri heillavegur en margt annað, sem þær aðhafast, er þær koma til bæjarins. En ef það er nauðsynlegt til bjargar hag allrar þjóðarinnar að fella niður þessa styrkveitingu, þá treysti jeg mjer ekki til að telja hv. þm. af því.

Næsti liðurinn, sem jeg kem að, er hækkun launa aðstoðarbókavarðar við Landsbókasafnið upp í 3000 krónur. Öll vinna þessa manns fer til þessa starfs hans við safnið, og hefir hann meira að segja oft orðið að vinna lengur miklu en honum ber skylda til, en situr við sveltilaun. Hann er maður með háskólaprófi í sagnfræði og hefir orðið að kosta miklu til náms síns, en það er vanalegt að taka tillit til þess, þegar kaup manna er ákveðið. Ætlast jeg til, að hann fái í kaup 3000 kr. að viðbættri verðstuðulsuppbót, eða alls kr. 4800. Vænti jeg, að hv. þm. sjái, hversu sanngjarnt þetta er. Ennfremur má vera, að þegar hv. þm. fara að athuga þetta, þá komi það upp úr kafinu, að 2. bókavörður sje líka illa launaður, en í það vil jeg ekki blanda mjer í þetta sinn.

Þá kem jeg að styrk til útgáfu gildandi laga íslenskra. Það hefði ef til vill farið betur á því, að jeg hefði fylgt hjer venju Alþingis og fjvn., þeirri, að deila hverri tölu með tveimur, svo það sæist þó, að jeg kann líka þá list. En þyki hv. þm. sem jeg hafi farið fullhátt, þá er hægur nærri að koma með brtt. við 3. umr. Það er auðskilið mál, að alþjóð er það mjög bagalegt að eiga tvö hálf lagasöfn, en ekkert heilt. Til þess að slík útgáfa komi að fullu gagni, þá þarf hún ,að ganga mjög fljótt, ekki síst hjer á landi, þar sem lagabreytingar eru mjög tíðar, vegna þess að hv. þm. er tamast að tala fyrra árið og hugsa það síðara.

Þá kem jeg með 3 till. um listamenn. Býst jeg við, að hv. nefnd hafi þóst gera vel, þar sem hún hefir hækkað liðinn til skálda og listamanna um 2000 kr. frá því, er hann var í síðustu fjárlögum. En það hefir samt orðið afturför í þessu efni frá því, er best var áður. Fyrir heimsstyrjöldina var liður þessi kominn upp í 12 þús. kr., og eftir því ætti hann að vera að minsta kosti 25 þús. nú, miðað við kaupgildi peninga þá og nú. Hefði því verið sjálfsagt að færa þetta í lag nú á þessu þingi og hækka styrkinn upp í 25 þús. kr., eða öllu heldur að þrefalda upphæðina. Hefði þá mátt annast ýmsar framkvæmdir á þessu sviði.

Jeg hefi farið fram á, að Birni Björnssyni gullsmið og dráttlistarmanni væri veittur nokkur styrkur. Hann er manna listfengastur, en brestur tækifæri og fje til að nema svo list sína, að hann megi njóta sín til fulls. Þurfa menn ekki annað en líta á Vísnakver Fornólfs og Heilaga kirkju til að ganga úr skugga um, að hann hefir óvenjufagurt handbragð, og mætti okkur verða mikill sómi að verkum hans.

Jeg hefi áður látið þá skoðun mína í ljós, að listamenn beri að styrkja á þennan veg. Í fyrsta lagi til náms. Er það ekki annað en ríkið hefir gert fyrir nemendur sína áður, þó að nú sje tekin upp sú óheillastefna að heimta af mönnum gjald fyrir þá kenslu, sem þeir njóta í skólum ríkisins. Nú verða allir listamenn vorir að fara í erlenda skóla til náms, þar sem glöggskygni manna hefir ekki getað sjeð, að það borgi sig að sjá þeim fyrir kenslu hjer innanlands. Að þessu námi loknu á ríkið að veita þeim styrk til dvalar þar, sem kallast má háskóli listarinnar, og á jeg þar við Róm. Þar gefur að líta hina fögru frumlist Hellena, sem ennþá ber ægishjálm yfir aðrar listir og göfugust er þeirra allra. Með þetta fyrir augum hefi jeg farið fram á, að ungum og gáfuðum málara, Tryggva Magnússyni, verði veittur tvö þús. kr. styrkur til Rómaferðar.

Í þriðja lagi vil jeg veita efnilegum rithöfundum styrk til ritstarfa. Nú stendur svo á, að þinginu hefir borist umsókn um styrk nokkurn í þessu skyni frá Halldóri Guðjónssyni, sem auk þess nefnir sig Kiljan og Laxness. Öllum ber saman um, að þessi ungi maður hafi mikla rithöfundarhæfileika til að bera, og hefi jeg sjálfur lesið nokkrar smásögur hans, er hann reit á bernskuskeiði, og mátti strax sjá af handbragðinu, að þar var vænlegur rithöfundur að fæðast, og síðasta bók hans, er nefnist „Undir Helgahnjúk”, er talin hafa svo marga góða kosti, að vel megi skipa henni í röð þess, sem best hefir verið gert þeirrar tegundar á voru máli. Hinsvegar er maður þessi bláfátækur, en ilt til þess að vita, ef hann þarf að kæfa gáfu sína á unga aldri með því að vinna fyrir sjer með störfum, sem hann er máske síst hæfari öðrum til að vinna.

Þó að þessar till. mínar yrðu nú teknar til greina, þá yrði listamannastyrkurinn samt ekki meiri en 15 þús. kr., eða miklu minni en hann var orðinn fyrir stríð.

Á síðari árum er nokkur vottur þess, að heldur sje að rofa fyrir auknum skilningi manna á því, að styrkja beri afburðamenn þjóðarinnar í greinum, sem jafnóarðvænlegar eru og listir og bókmentir. Er það og að minsta kosti illmannlegt að hraksmána þá menn, sem halda uppi listarviðleitni í landinu og selja sig æfilöngum sulti til að gegna köllun sinni. Þeir kasta sjer í haf, þar sem hvergi sjest til stranda, eiga enga von um neina viðunanlega stöðu og enga von um, að þeir njóti nokkurra ávaxta af starfi sínu, annara en gleði listamannsins yfir verki sínu og gleði hetjunnar, sem fórnar sjer fyrir þjóð sína. Er það ómannlegt að telja því fje illa varið, sem fer til að styrkja slíka menn. Það væri það sama og að tíma ekki á ófriðartímum að láta menn hafa skó á fæturna, er þeir ganga út í hemað til að verja land sitt.

Þá kem jeg að till. um styrk til ritstarfa til handa Sigurði Jóhannessyni (Nordal). Mun það hafa verið af óaðgætni eða gleymsku, að ekki stóð í fjárlagafrv., að hann skyldi fá verðstuðulsuppbót af fje því, er honum er veitt í þessu skyni. Því er rjett, að þetta sje leiðrjett nú. Sigurð mun verða að álíta alls góðs maklegan nú sem fyrri, og trúi jeg því ekki, að hv. þm. vilji nota sjer það, ef embætti það, er honum stóð til boða í Osló, er ekki laust lengur.

Þá legg jeg til, að Pálma Hannessyni náttúrufræðingi verði veittur 6000 kr. styrkur til rannsókna í óbygðum. Er það víst allra manna mál, að hann hafi fremur beðið um minna en meira en hann þurfti. Hann hefir ferðast allmikið um áður og sýnt mikinn dugnað. Er lítill hagur að því að fresta þessu og tefja með því æfistarf þessa efnilega manns. Minnist jeg væntanlega síðar á það, hve mikill hagur sje að því að ónýta æfistarf manna með eintómri sparsemi. Því svo má nú kalla þá tilhneigingu þm., þótt henni verði ef til vill valið síðar öllu harðara nafn.

Næst er styrkur, 6000 kr., til útgáfu minningarrits Eggerts Ólafssonar á tveggja alda afmæli hans. Jeg vona, að hv. þm. verði mjer samdóma um það, að ómögulegt sje að láta undir höfuð leggjast að minnast þessa ágætismanns að nokkru við það tækifæri. Fæ jeg ekki skilið, hvernig Alþingi ætti að komast hjá því með fullum heiðri að leggja eitthvað af mörkum til slíks. Munu menn svo vel kannast við þýðingu Eggerts Ólafssonar fyrir þessa þjóð, en þeir munu varla kveða flokk um hann, sem ekki þykir hann drápunnar verður. Er og minst á það í umsóknarskjalinu, að Alþingi muni varla láta sjer sæma að vera eftirbátur Fiskifjelagsins og annara, sem gefa í minningarsjóð Eggerts Ólafssonar til styrktar náttúruvísindum í landinu. Landið ætti að geta gefið á borð við eitt útgerðarfjelag. Er það og þarna að gefa sjálfu sjer, og ætti þeim mun síður að skera fjeð við neglur sjer.

Næsta liðinn tel jeg varla þörf að útskýra. Er það styrkur til manns til a? fara utan og læra að setja upp dýr. En nú svo ástatt hjer, að þótt ekki þurfi nema að setja upp fuglshami, þá er enginn hjer, sem kann það, og getur það á stundum verið mjög bagalegt. Hins vegar er þess ekki að vænta, að menn vilji leggja í mikinn kostnað út af þessu, því að lítið mun atvinnan af því á eftir gefa í aðra hönd.

Ekki verður annað sagt en að Alþingi þjóni sjálfu sjer með því að styrkja Náttúrugripasafnið, og á því hvílir skylda um það, að halda því við. En þótt það hafi látið sjer lítið ant um það til þessa, mun þó einhverntíma vakna skyldutilfinning þess um þetta mál.

Þá er tillaga um það að kaupa listaverkið „Móðurást“, er gert hefir myndhöggvarinn Nína Sæmundsson. Mynd þessi hefir fengið mikið lof erlendis, og er oss nauðsyn á því að ná kaupum á henni, svo að útlendingar hrifsi hana ekki frá oss; og það mega menn vita, að eftir svo sem 10 ár, og jafnvel skemri tíma, verður myndin miklu dýrari en nú, ef stúlkan framast svo framvegis sem að þessu. Þess vegna er það hagsýni ein að kaupa myndina nú. Þegar þessi kona er orðin nógu fræg, þá vilja menn veita margfalda þessa upphæð til þess að eignast þetta listaverk hennar, svo að sú skömm spyrjist ekki um Íslendinga, að þeir kunni ekki að meta listamenn sína.

Þá er hækkaður styrkur til búnaðarfjelaganna, og skal jeg ekki tala langt mál um það fyrir mönnum hjer, en geta vil jeg þess, að jeg hefi aldrei viljað skera við nöglur styrk til búskapar. Þó vil jeg hafa sönnun fyrir því, að fjenu sje vel varið, því að stundum hafa orðið misbrestir á því og fjeð komið meira niður í einum stað en öðrum. En þörfin er mest um það að styrkja einstaklinga innan búnaðarfjelaganna og sjá, hvað hvert hjerað þarf helst með til þess að vinna heima hjá sjer það, sem helst kallar að. Fæ jeg ekki betur sjeð en að það sje háðulegt að bjóða öllum búnaðarfjelögunum einar 10 þús. krónur. Hvernig ætti að skifta því fje? En vegna þess, að svo margir bændur eru hjer í hv. deild, þarf jeg eigi að tala frekar fyrir þessari till., en fel þeim brtt. mína og vil sjá, hvort þessi fjárveiting nær ekki fram að ganga.

Kem jeg þá að launabót yfirfiskimatsmanna. Á þessum mönnum hvílir mikið og merkilegt starf og er fyrir oss meira en gulls ígildi. En svo má gera þessum mönnum erfitt fyrir, að þeir verði að sjá sjer farborða á annan hátt og að vjer fáum aðeins aðra ljelegri í þeirra stað. Veit jeg það, að hv. deild muni fallast á að veita viðbót þá, er hjer er farið fram á.

Þá er tillaga um styrk Þórdísar Ólafsdóttur á Fellsenda í Dalasýslu. Sje jeg það, að hv. nefnd hefir ekki litist á þann styrk. Þó er svo fyrir mælt, að Þórdís skuli hafa kenslu í hannyrðum og vefnaði og annari handavinnu kvenna, og að lögð sje áhersla á þær greinir handavinnu, er hjer hafa verið stundaðar fyr á öldum, svo sem knipling, flosvefnað, glitvefnað o. fl., sem nú er að miklu leyti gleymt allri alþýðu. Þórdís hefir áður haldið uppi skóla í hannyrðum og einnig kent stúlkum munnlega á heimili föður síns. Hjer er ekki farið fram á meira en 500 kr., til þess að standast þann kostnað, er heimilið hefir af þessari kenslu, og vona jeg, að hv. þdm. sjeu ekki að fellu þá tillögu, þar sem og er sannanlegt, að hvergi í Dalasýslu er veitt neitt fje til skólahalds.

Þá er nýr liður um það, hvernig best verði tengd við sjávarafla fyrirtæki bygð á íðefnafræði. Íð er kvenkynsorð, og getur verið að menn skilji ekki íð fyrir iðn. og getur verið, að margir vilji heklur segja iðn. Þessu getur hver ráðið, sem vill. En ef tekið er tillit til þorskafla í fiskistöðvum landsins, auk þess sem botnvörpungar draga á land, þá getur það numið rúmum 200 þús. kr., sem Íslendingar geta grætt á því að taka meðalalýsisbræðslu í sínar hendur. Í stað þess að láta þann gróða lenda hjá norskum, dönskum eða enskum lýsiskaupmönnum. Man jeg, að kaupmaður í Hamborg spurði mig að því, hvort nokkur lýsisbræðsla væri á Íslandi. Jeg hjelt nú, að svo væri. En hann kvaðst ekki hafa haft hugmynd um það áður, að lýsi kæmi annarstaðar að en frá Grænlandi eða Danmörku. Jeg skýrði honum frá nöfnum og heimilisfangi allra þeirra lýsisframleiðenda. er jeg þekti hjer á landi, og þótti honum þetta ný uppgötvun og varð alveg hissa. Um meðalalýsisframleiðslu ætti það að vera sjálfsagt að reyna að bæta þann atvinnuveg sem mest, svo að aðrir taki ekki frá oss það, sem vjer getum aflað oss sjálfir.

Fjárveiting þessi getur haft afarmikla þýðingu, ef allri lýsisbræðslu landsins væri komið í kerfi, því að af lifur þeirri, er smábátar einir afla, mundu fást 210 þús. krónur í hreinan gróða, og að því yrði stórkostlegur hagnaður fyrir ríkissjóð. Og til þess að menn skilji þetta betur, hefi jeg sett athugasemd aftan við þennan lið í brtt., er svo er orðuð:

„Þó skal niðurstaðan aðeins notuð til þess að bæta atvinnuvegi landsmanna sjálfra“.

Með þessu vildi jeg koma í veg fyrir það, þá er kept yrði um verðlaun í þessari grein, að Íslendingar ljetu visku sína fyrir verðlaun, — hvorki til Dana nje Norðmanna. En sú hefir verið aldan hjer, að vjer höfum hleypt inn annara þjóða mönnum og kent þeim, hvernig þeir eigi að keppa við oss. Og svo vitum vjer ekki fyr til en enskur fiskur er talinn íslenskur, og þá verður Ísland útundan vegna þess, að vjer höfum kent öðrum of mikið. Þetta er eins og með Bíldudalsfiskinn, sem um eitt skeið var nafntogaður og í hærra verði en annar fiskur. Öðrum var kent að verka fisk alveg eins, og nú eru því yfirburðir hans horfnir. Einu sinni ætlaði jeg að komast að því, hvernig Norðmenn verkuðu þann fisk, er þeir sendu til Suður-Ameríku. En þess var enginn kostur, og átti jeg þó norska menn af háum stigum mjer til aðstoðar í þessu. Þannig gæta þeir þess, að ekkert vitnist um fiskverkunaraðferðir þeirra, en hjer getur hver fengið þá fræðslu, sem hann vill, um aðferðir vorar. Vegna þessa hnýtti jeg þessari athugasemd aftan við brtt., að jeg vil, að engir fái að vita, hvernig vjer Íslendingar framleiðum vörur vorar.

Þá er brtt. um styrk handa Grindvíkingum, til þess að hlaða varnargarða fyrir stórflóðum. Þarna er þjett bygðarlag, s milli hraunkumbla og sjávar. Fyrir íbúana þar er ekki í annað hús að venda, ef sjórinn og náttúruöflin eyðileggja fyrir þeim landspildur þeirra. Ef svo fer, er sögu hjeraðsins lokið. En þegar svo stendur á, að náttúruöfl valda tjóni, þá hefir það jafnan verið siður að hlaupa undir bagga, eða endurbæta þær skemdir, er á urðu, á ríkiskostnað. Og þar sem þarna búa hinir mestu dugnaðarmenn, sem eiga við erfið æfikjör og erfiða sjósókn að búa, þykist jeg vita, að háttvirt Alþingi vilji hjálpa þeim. Það getur verið, að sumum finnist, að farið sje fram á of mikið, er þótt hv. þdm. vildu ekki veita nema helming þeirrar upphæðar, sem farið er fram á, þá er mjer þökk á því, og skil jeg ekki að neinn geti lagst á móti þessu nauðsynjamáli.

Við 22. gr. hefi jeg bætt 2 nýjum lið um. Reinhold Andersson er gamall kunningi hjer í þinginu. Fyrir 2 árum gekk þessi beiðni hans fram, en stjórnin hafði þá ekki fje til fyrirtækisins, enda hafði hann og ekki lokið undirbúningi þess. Nú er þessu hvorutveggja kipt í lag. Og þar sem hjer er nú þessi mikla sparnaðarþjóð, er helst vill búa að sínu, þá ætti hún ekki að víla fyrir sjer að hjálpa til þess, að upp rísi hjer innlendar iðngreinir. Verði það gert, munu bændur geta selt afurðir sínar hærra verði, en landið sparað sjer kaup á erlendum varningi, og væri það viturlega gert. Nú mun vera flutt inn fyrir 700 þús. til 1 milj. kr. árlega af karlmannafatnaði, og ef það sparaðist, yrði Íslendingum ekki lítill hagur að því, og gæti það þá ef til vill fremur en áður styrkt fáeina listamenn. Oft hefir verið talað um það að stofna hjer ullarverksmiðju, svo að vjer þyrftum ekki að kaupa fataefni dýrum dómum frá öðrum þjóðum. En hvers vegna hefir þetta ekki verið gert? Vegna þess að menn vilja það ekki. Þeir vilja heldur hundraðfalda vexti heldur en að búa að sínu og hjálpa þeim innlendum atvinnuvegum, er þess hafa þörf. Það er ekki nóg að tala fögur orð, ef ekkert er aðhafst af því, sem hægt er að framkvæma. Vil jeg skjóta þessu máli mínu til þeirra fræðimanna, er mest hugsa og skrifa um búskap og atvinnuvegi bænda. Hvernig mundi standa á því, ef þeir væru á móti þessu? Jeg vona, að þeir hinir fróðu menn standi upp g sannfæri mig um það, að þessi skoðun mín sje röng, að bændur þarfnist þess ekki, að ull þeirra komist í hátt verð, að þeir vilji heldur gróða erlendra manna en innlendra o. s. frv. Segi þeir það, og sannfæri mig um það, þá skal jeg ekki halda þessari brtt. til streitu.

Samskonar brtt. er um það, að veita Friðjóni Kristjánssyni lán til þess að koma upp kembingavjelum hjer í Reykjavík, en jeg vil helst fresta því til 3. umr. að tala um þá brtt., því að mig vantar enn nokkrar upplýsingar.

Þá er það síðast, að „sjeu fjárveitingar eigi fyrirskipaðar í lögum, öðrum en fjárlögum, í tilskipunum, konungsúrskurðum eða öðrum gildandi ákvörðunum, og fylgi þeim eigi fyrirheit um framhald, þá gilda þær aðeins fyrir fjárhagstímabilið“. Mjer er ekki svo mjög ant um það mín vegna, að þessi till. nái fram að ganga, því að gagn hennar fyrir mig er nú um garð gengið. En jeg fæ ekki skilið, að menn sjeu á móti því, að Alþingi sje jafnbundið af sínum loforðum eins og konungsúrskurðum, og kann jeg illa við það, að önnur lög gildi fyrir Alþingi heldur en einstaklinga, og að það efni ekki gefin loforð. Eða máske vill einhver sannfæra mig og aðra heimska menn um það, hvers vegna Alþingi skyldi ekki ganga á undan í þeirri siðfræði, að halda gefin loforð. Annars vakti það eitt fyrir mjer að fá atkvgr. um þetta atriði.

Jeg skal svo ekki tefja fundinn lengur, en skal þó geta þess, að jeg hafði í hyggju að bera fram tillögu um að hækka eftirlaun einnar ekkju, en vegna þess, að jeg vildi, að sú tillaga yrði ekki feld, hefi jeg fengið aðra þingmenn til þess að flytja hana með mjer. Jeg skammast mín fyrir það, að þessa ekkju skyldi vanta, en get þess, að það hafi verið gert af sparnaðarhug Alþingis, en ekki af hinu, að hún eigi ekki miklu betra skilið. Fyrst og fremst hefir hún nú mist fyrirvinnu sína, 2 uppkomna syni, og þar að auki er hún með bestu rithöfundum landsins á sínu sjerstaka sviði. Býst jeg við, að það verði ekki mikil fyrirstaða hjá hv. fjvn. í þessu máli.

Að svo mæltu skal jeg láta hv. þdm. vera í friði fyrir mínu nuddi.