06.05.1925
Efri deild: 69. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get að vissu leyti sagt, að jeg er hv. nefnd þakklátur fyrir meðferð hennar á frv. Henni hefir að vísu ekki þótt nógu langt gengið. En með þessu frv. er reynt að bæta úr þeim göllum laganna, sem komið hafa fram við meðferð bannlagabrota. Því er það ekkert að undra, þótt ekki sje blandað öðru inn í, læknavíninu. En það er sammæli flestra manna, að breytingar frv. sjeu allar til bóta. Um (hið svokallaða læknabrennivín er aftur á móti mikið deilt, hvort banna skuli læknum með öllu að gefa út áfengislyfseðla eða nota áfengi til lækninga. Jeg held, að hvergi í heiminum hafi þótt fært að banna þetta algerlega. Fyrir þá, sem vilja koma breytingum fram, er heppilegast að taka þetta sjer í lagi.

Það er nýmæli í þessu frv. að beita hegningu gegn hlutdeildarmönnum, og tel jeg það rjett, því að þeir geta einatt verið fult eins sekir sem þeir, er sjálfan verknaðinn drýgja. Hert er og mjög á hegningu.

Til skamms tíma hefir verið mjög mikil mótstaða gegn því, að mjög hörðum fangelsishegningum væri beitt í lögreglumálum. Þetta hefir nú mikið breyst.

Hv. frsm. (JJ) beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvort stjórnin sæi sjer fært að bera fram sjerstakt frv. um eftirlit með læknum í þessu efni. Jeg hefi átt tal um þetta við landlækni í sambandi við norska löggjöf um þetta atriði. Ástandið hefir lagast þar í landi, en þar voru líka læknarnir miklu sekari í þessum efnum en hjá okkur. Jeg mun reyna að búa út og leggja fyrir næsta þing frv. í þessa átt, í samráði við landlækni. Jeg hefi átt tal við formenn læknafjelaganna beggja, og hafa þeir báðir áhuga á því að fyrirbyggja misnotkun áfengis af hálfu lækna, og þeir hafa talið sig fúsa til samvinnu um þetta mál. Og úr því þeir sjálfir hafa áhuga fyrir umbótum, þá er hægara aðstöðu fyrir stjórnina. Hefi jeg átt tal við þá um það, hvort banna ætti algerlega notkun áfengra drykkja til lækninga. Þeir voru mjer samdóma um, að það væri mjög varhugavert, meðan skoðanir lækna hjer á landi væru svo skiftar, sem nú eru þær.