27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. (Jón Kjartansson):

Þetta mál er gamall kunningi á þingi, hefir verið hjer á hverju ári síðan fossanefndin skilaði áliti sínu árið 1919. Á Alþingi 1919 komu fram tvö frv. um virkjun vatnsorku. Voru þau samin af meiri hluta og öðrum minni hluta fossanefndarinnar, en einstakir þingmenn fluttu frumvörpin inn á þingið. í byrjun þingsins var nefnd skipuð í báðum deildum til þess að fjalla um vatnamálið. Þessar nefndir gengu svo saman í eina samvinnunefnd.

Þessi samvinnunefnd flutti svo síðar á þinginu frv. um vatnsorkusjerleyfi, og var öll nefndin sammála um frumvarpið, að einum undanskildum, hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ).

Þetta frv. varð þó ekki útrætt á þinginu 1919. Á þingi 1921 lagði stjórnin fram frv. um vatnsorkusjerleyfi. Lagði hún til grundvallar frv. samvinnunefndar frá 1919, þó með nokkrum breytingum. Vort helstu breytingarnar þessar:

Við 2. gr. frv. Var sú breyting fólgin í því að færa niður hámark hestaflatölu þeirrar, sem heimilt sje að virkja án sjerleyfis frá landsstjórn. Samvinnunefnd setti hámarkið 10 þús. hestöfl, en stjórnin lagði til, að það væri fært niður í 500 hestöfl. Var það till. minni hl. fossanefndar. Meiri hl. setti hámarkið 200 hestöfl.

Önnur aðalbreytingin var við 7. gr. Í frv. samvinnunefndar var hámark þeirrar hestaflatölu, sem stjórnin mátti veita sjer leyfi til án samþykkis Alþingis, sett 10 þús. hestöfl. Stjórnin lagði til að færa þessa tölu upp í 25 þús. hestöfl og einnig að feld yrðu burtu ákvæðin um samþykki tveggja þinga með nýjum kosningum á milli, þegar um meiri hestaflatölu væri að ræða en 50 þús.

Þriðja breytingin var við 9. gr. 12. lið, um að setja í sjerleyfin sjálf, en ekki í lögin, ákvæðin um kostnað við eftirlit með virkjunum.

Fjórða aðalbreyting stjórnarinnar 1921 var við 11. gr., og má segja, að það sje veigamesta breytingin. Hún var fólgin í því að lengja sjerleyfistímann úr 55 árum upp í 65 ár. Þetta má telja stærstu breytinguna, sem stjórnin gerði á frv. samvinnunefndar, en í staðinn ljet hún koma ákvæðin í 33. og 34. gr. 33. gr. mælir svo fyrir, að þegar sjerleyfistíminn er liðinn, skuli orkuverið falla til ríkisins endurgjaldslaust, og 34. gr. veitir ríkinu innlausnarrjett á orkuveri og orkuveitu, þegar 40 ár eru liðin frá því að starfsemin byrjaði. Þetta voru höfuðbreytingarnar, sem stjórnin gerði á frv. samvinnunefndar, þegar hún lagði málið fyrir Alþingi 1921. En málið varð ekki útrætt á því þingi og hefir síðan komið aftur og aftur. Lengst komst það á þinginu 1923. Þá náði það samþykki við 2. umr. í Ed. Ed. gerði þá nokkrar efnisbreytingar á frv., og var aðalbreytingin sú, að lengja enn sjerleyfistímann um 10 ár, úr 65 árum upp í 75 ár. Önnur breyting var og gerð við 12. gr., að árgjaldið, sem í upphafi er ákveðið, haldist óbreytt í 35 ár, í stað 25. Þessar breytingar miða báðar að því að rýmka sjerleyfisskilyrðin, og voru þær báðar látnar halda sjer í frv. því, er stjórnin lagði fyrir þetta þing og hjer er nú til umræðu.

Allsherjarnefnd hefir nú athugað þetta frv. nokkuð nákvæmlega og er einróma þeirrar skoðunar, að rjett sje, að málið gangi fram. Hún getur fallist á stjfrv. eins og það liggur fyrir. Hún lítur svo á, að ekki sje rjett að setja sjerleyfisskilyrðin mjög ströng, síst til að byrja með, því að það geti fælt frá virkjun. En það telur nefndin ekki heppilegt. Að því leyti hygg jeg óhætt að segja, að allsherjarnefnd álíti þau skilyrði, sem frv. ákveður, mjög í hóf stilt. Nefndin hefir athugað brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem eru margar, en um þær hefir hún ekki getað orðið á eitt sátt. Hún getur þó einróma aðhylst þá síðustu, enda tel jeg hana veigamesta. Annars hefir nefndin óbundin atkv. um þessar brtt.

Það hefir heyrst, að hv. þm. (SvÓ) hafi með sumum brtt. sínum haft í hyggju að vekja upp gamlar deilur um eignarrjettinn á vatni. En svo mun ekki vera, heldur mun tilgangur hans með brtt. hafa verið sá, að fá meira samræmi milli þessa frv. og vatnalaganna. Brtt. hans eru líka þannig orðaðar, að þær mundu í engu hafa áhrif á deiluna um eignarrjettarspursmálið. Sú deila var leidd til lykta með vatnalögunum, og það, sem frekar verður þar aðhafst, kemur til kasta dómstólanna. Hv. þm. geta því verið alveg óhræddir við till. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ).

Jeg skal svo ekki fjölyrða um málið. Brtt., nefndarinnar eru að mestu orða breytingar, nema ein, sem miðar að því að samræma ákvæðin í 20. og 22. gr.

Jeg vona, að umr. þurfi ekki að verða langar og að ekki verði farið að vekja upp gamlar deilur um eignarrjettinn. Þær koma ekki þessu máli við. En þetta er mikið nauðsynjamál, sem þarfnast framgangs, og þar sem vatnalögin eru nú til lykta leidd, er nauðsynlegt að fá sem fyrst lög um virkjun stærri fallvatna.