27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Magnús Torfason:

Út af fyrirspurn hv. 3. þm. Reykv. (JakM) skal jeg geta þess, að nefndin gekk út frá því, að brtt. 9 á þskj. 182 yrði samþykt. Þar stendur: „Slíkt sjerleyfi skal aldrei veitt án samþykkis Alþingis.“

Með þessum orðum fanst nefndinni ljóst, að ekki mættu stærri virkjanir vera í útlendinga höndum, nema samþykki Alþingis komi til. Ennfremur leit jeg svo á, að um leið og slíkt sjerleyfi væri framselt til útlendinga, þá væri það ekki komið undir III. kafla laganna, heldur IV. kafla þeirra.

Viðvíkjandi þessum sjerleyfisádrætti, sem hjer hefir verið talað um, vil jeg taka það fram, að það kom í ljós í nefndinni, þótt ekki væri afstaða tekin til þess máls, að brtt. við 36. gr., á þskj. 182, væri beint svar við því, en vitanlegt er, að ef til virkjunar kemur á Urriðafossi, þarf til þess útlent fje, og þess vegna verður það útlent fyrirtæki.

Út af þessu leyfi, sem hjer er um að ræða, þykir mjer ástæða til þess að taka fram, að jeg vil, að stjórnin fari varlega í að veita slík ádráttarleyfi, enda þótt jeg játi, að hæstv. atvrh. hafi farið varlega í þeim sökum. En ef fje er lagt í slíkt fyrirtæki, stendur stjórnin ekki eins frjáls og ef enginn ádráttur hefði verið gefinn fyrir virkjunarleyfi. Jeg vil líka benda á það, að það er dálítið einkennilegt — og geta legið til þess ýmsar ástæður, m. a. þær, að þing nálgaðist — að í seinna brjefinu er stjórnin sjáanlega fastari fyrir en í fyrra brjefinu. En jeg vona, að af því þurfi ekki að draga þá ályktun, að hæstv. stjórn sje fráhverf járnbraut austur í sveitir. Að öðru leyti skal jeg ekki fara inn á þetta mál, vegna þess að jeg er því of ókunnugur.