27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 1. þm. Árn. (MT) stökk upp á nef sjer. (MT: Það var hæstv. ráðh., sem stökk upp fyrir nefið á sjer). Sagðist hann vona, að jeg væri ekki að fjandskapast við járnbraut austur. (MT: Það sagði jeg ekki). Á þá kannske að skilja mál hans á annan veg en annara hv. þm. ?

Jeg veit ekki, hvort jeg nenni að karpa við hv. þm. Str. (TrÞ). Hann kemur með fyrirspurn á fyrirspurn ofan. Jeg hefi reynt að svara þeim, en hann hefir ekki viljað skilja. Jeg er því líklega neyddur til að taka aftur upp svör mín, þó að það tefji tímann, enda mun hv. þm. Str. ósárt um það. Jeg hefi áður tekið það fram skýrt og greinilega, að jeg tel stjórnina óbundna, ef engin sjerleyfislög eru sett, en hefi hinsvegar lýst því yfir, að þá muni stjórnin fara eftir því frv., sem hjer liggur fyrir. Verði lög aftur á móti sett, er sjálfgefið að fara eftir þeim. Þess vegna álít jeg sjálfsagt að setja lög. En jeg er ófáanlegur til þess að fara út í lögskýringar á þessu stigi málsins, en tekið get jeg það fram, að jeg fæ ekki betur sjeð en að skýring hv. 2. þm. Rang. (KM) sje rjett. (TrÞ: Að fjelagið sje erlent?). Það hefir hann ekki sagt. (TrÞ: Jú). Mjer skilst svo, að hv. 2. þm. Rang. hafi enn engan dóm kveðið upp um það, hvort fjelagið sje innlent eða erlent; jeg veit ekkert um, hvort heldur er, og er þetta atriði, sem þörf er að rannsaka. Þetta þarf alt að gerast áður en leyfið verður veitt. En jeg sje yfir höfuð litlar líkur til þess, að nokkurt slíkt leyfi verði veitt. Mjer finst það liggja í loftinu að setja svo ströng skilyrði, að engir vilji ganga að. En jeg vil að ef þingið er þeirrar skoðunar, að þessi leyfi megi alls ekki veita, þá segi þingið það skýrt. En jeg fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að ef hægt er að fá góða skilmála og ef ekki er um eitthvert risafyrirtæki að ræða, þá ætti ekki að neita um slíkt leyfi.