29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla aðeins með örfáum orðum að víkja að miðbrtt. á þskj. 405, sem jeg hefi borið fram. Brtt. fer í þá átt, að í stað þess, sem frv. gerir ráð fyrir, að innlendir menn, sem reisa stöð, þurfi ekki leyfi Alþingis til þess að hagnýta 25 þús. hestafla orku, skuli hámarkið vera 15 þús. hestöfl. Það fjell með jöfnum atkv. við 2. umr. að færa hámarkið niður í 10 þús. hestöfl. Jeg vona, að einhverjir, sem þótti of langt farið að færa þetta niður í 10 þús., geti fallist á að ákveða þetta hámark 15 þús.

Hjer er ekki um það að ræða að neita um leyfi til virkjunar, heldur er farið fram á, þegar um stór fyrirtæki er að ræða, að álit og úrskurður Alþingis komi til. Góð fyrirtæki þurfa ekki að óttast úrskurð Alþingis, en betra er að neita heldur en að veita óforsjáleg leyfi. Jeg býst við, að sú virkjun, sem hjer er stærst nú, hjer í Reykjavík, sje þó 10 sinnum minni en þessi 15 þús. hestöfl. Hjer er einungis verið að tryggja það, að ekki sje hrapað að neinu, og jeg endurtek, að engu góðu máli getur stafað hætta af því, að Alþingi fái um það að fjalla.