29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Magnús Torfason:

Mjer þótti leitt að heyra, hve illa lá á hv. 2. þm. Rang. (KIJ), og kemur það sjálfsagt til af því, að hann lítur töluvert öðruvísi á málið en jeg geri. En hvað það snertir, þá stöndum við nokkurn veginn jafnt að vígi að þessu máli, og þess vegna hefði mjer þótt líklegt, að skoðanir okkar hefðu getað farið nokkuð saman, en nú hefir það í umr. skýrst betur og betur, að við eigum ekki að sumu leyti samleið í þessu máli, þótt takmark okkar beggja muni vera það að ýta undir það, að fossarnir verði teknir til virkjunar; en hvað það snertir, býst jeg við, að kjósendur mínir muni hafa ekki minni rjettinda að gæta en kjósendur hv. 2. þm. Rang. Jeg er ekki í neinum vafa um það, að þau fyrirtæki, sem fyrst verður byrjað á hjer og sjerleyfi þarf til, muni yfirleitt verða mjög stór fyrirtæki. Þess vegna skilst mjer, að ekki sje nema eðlilegt, að þingið vilji hafa hönd í bagga með því, hvernig það fer af stað, auk þess sem það er víst, að þegar farið verður að beisla fossana fyrir alvöru, þá hefir það í för með sjer mikla breytingu á öllu atvinnulífi þjóðarinnar. Er því ekki óeðlilegt, þó að þingið vilji hafa óbundið vald til þess að athuga þetta.

En mjer finst hv. 2. þm. Rang. hafa þá skoðun, að þingið eigi að hafa Sem minst vald í þessu efni. En nú stendur svo á, að minsta kosti í þessari hv. deild, að síðan þetta mál kom fyrir þingið 1923, þá vill deildin nú frekar en áður hafa hjer hönd í bagga. Ástæðurnar fyrir því býst jeg við að allir skilji. Skal því ekki fara út í þær nú.

Það, sem háttv. 2. þm. Rang. (KIJ) vantreystir þinginu til að ráða fram úr í þessu efni, er, að því er mjer skildist, sjerstaklega sjerleyfistíminn. Það má vel vera, að 50 ár sjeu það stysta, en vitanlega hefir þingið vald til þess að lengja hann.

Þó jeg sje fulltrúi þeirra hjeraða, sem sennilega verður fyrst farið að beisla fossana hjá, þá er jeg ekkert sjerstaklega hræddur við, að þessi leyfistími sje ekki nógu langur. Og jeg er sannfærður um, að ekki verður erfitt að fá Alþingi til að lengja hann, ef þess gerist þörf.

Það hefir verið mín fasta skoðun, að það, sem vakir fyrir þinginu að hafa full yfirráð yfir í þessum málum, er ekki fjárhagsatriðin, heldur vill það hafa vald til til þess að verja þjóðerni okkar, tungu og öryggi þeirra, sem vinnuna fá. Annars er jeg ekki í neinum vafa um, að þjóðina langar svo mjög til að fá fossana virkjaða, að þingið fer ekki að ófyrirsynju að neita leyfis, ef sæmilegir kostir fást; er því alveg óþarfi að hræðast, þó að valdið sje hjá þinginu.

Þá óttaðist þessi háttv. þm., að pólitík hlypi í málið. En það er ekki nema eðlilegt, þegar um slík stórmál er að ræða. Því jeg er viss um, að í slíkt risafyrirtæki ráðast ekki nema stórburgeisar, hvort sem þeir eru innlendir eða útlendir. En slík pólitík hefði engin áhrif á fyrirtækið. Það verða fossarnir, sem skapa „bolsana.“ Enda mundi þeim fljótlega fjölga, ef slíkt fyrirtæki risi upp. Og jeg er viss um, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) mundi fagna, ef slíkt fyrirtæki gæti komist á hjer. (Atvrh. MG: Er hann „bolsi“?). Jeg vona, að háttv. þm. fyrirgefi, þó að jeg noti þetta orð yfir jafnaðarmenn, sem alment er notað hjer í Reykjavík, og þá sjerstaklega þegar miðað var við „burgeisa.“

Hvað snertir það, sem háttv. þm. Dala. (BJ) sagði, að við ættum að láta fossana syngja sinn söng, þangað til landsmenn þyrftu á afli þeirra að halda, vil jeg segja það, að ef við ættum að bíða eftir því með virkjun fossanna, þá yrðum við nokkuð lengi aflvana, því að það, sem landið þarf með, er að ná í „hvítu kolin.“