29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Klemens Jónsson:

Jeg skal ekki þreyta hv. þm. með langri ræðu.

Hv. þm. Dala. (BJ) byrjaði ræðu sína með því að spyrja, hvort menn vissu, hvað 75 ár væru. Jeg held, að flestir fari nærri um það. Það er t. d. 5X15 ár, og þrír fjórðu hlutar úr öld, o. s. frv. Þetta er hæfilegt sjerleyfistímabil, en verði það haft lægra, eins og nú virðist eiga að verða ofan á í þessari hv. deild, er jeg viss um, að enginn kemur með umsókn til þingsins um þetta efni. Það dettur engum manni í hug að leggja út í kostnaðarsamt og áhættumikið fyrirtæki, nema einkaleyfið sje a. m. k. 65–75 ár.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að ef málið væri gott, mætti veita leyfi, þótt jafnvel væri farið fram úr 50 árum. En eftir minni þekkingu á þessum málum veit jeg það, að enginn kemur með góða eða illa beiðni í þessu efni, ef þannig á að búa í pottinn.

Hv. þm. Dala. óskaði, eins og hv. þm. Str., að fossarnir mættu syngja lausbeislaðir uns oss Íslendingum væri sjálfum fært að leggja við þá. Þótt æskilegt væri, að vjer gætum þetta, þá held jeg, að mjer sje óhætt að segja það, að fáir af oss, sem hjer erum nú, verði uppi standandi, þegar svo er komið. (JakM: Engir). Já, það er víst óhætt að segja það. Útlendir menn með aðstoð ísl. manna mundu falla undir 1. og 2. lið 2. gr. Þeir hljóta því að snúa sjer til þingsins eingöngu. Þessir liðir eru því stílaðir gegn ísl. mönnum.

Jeg vil láta hefjast handa sem fyrst í þessu efni og búa til „praktisk“ lög, svo að þeir menn, sem bein hafa í hendi til framkvæmda, geti beitt sjer.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) talaði um verndun tungu og þjóðernis. Um það hefir verið rætt svo oft áður, að jeg þarf ekki að svara því.

Jeg þarf ekki heldur að svara hæstv. atvrh. (MG) mörgu. Hann sagði, að ekki væri venja, að mál væru tekin til 3. umr. fyr en tvær nætur væru liðnar frá 2. umr. Jeg skal játa, að þetta er góð venja, en hitt er líka góð venja, sem 'þó hefir oft verið út af brugðið, að bera út brtt. daginn áður en þær eiga að koma til umræðu.