29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Sveinn Ólafsson:

Af ræðunni vantar mikið frá hendi skrifarans. — KIJ.

Jeg get eftir atvikum unað vel við undirtektir háttv. þdm. undir brtt. mínar á þskj. 405. Að vísu hefir verið fundið dálítið að 1. brtt., einkum af háttv. þm. Dala. (BJ). Hann mæltist til þess, að jeg tæki till. aftur. En þótt hann álíti hana af misskilningi fram komna, þá verð jeg að halda fast við það, að í henni felist enginn misskilningur. Og að svo sje, styð jeg meðal annars við það, að hæstv. atvrh. (MG) ljet í ljós, að hann teldi ekkert athugavert við hana, og lýsti því meira að segja yfir, að hann mundi greiða henni atkv. Jeg legg meira upp úr lögskýringu hæstv. atvrh; heldur en lögskýringu hv. þm. Dala., þótt glöggur sje og skýr.

Hv. þm. Dala. virtist álíta, að ummæli mín um umráðamann vatnsrjettinda gætu ekki átt við leigjanda, heldur aðeins eiganda eða einhvern þriðja mann, sem ekki gæti notað þessi rjettindi; en svona orðskýring kemst ekki að. Jeg tel rjett að nefna umráðamann þann, sem umráðarjettinn hefir, hvort sem hann er sjálfur eigandi eða hefir þegið sinn umráðarjett af öðrum; heimildin til að nota vatnið getur bæði stafað frá eignarrjetti og leigurjetti. Jeg get, sem sagt, ekki orðið við ósk hv. þm. Dala. um að taka þessa till. aftur. (BJ: Það var ráðlegging, en ekki ósk). Jeg get þá ekki heldur notað mjer ráðleggingu hv. þm. að þessu sinni, en vel má vera, að jeg geti öðru sinni hagnýtt mjer hans vingjarnlegu ráðleggingar. Annars þarf jeg ekki að fjölyrða neitt um þessa brtt. frekar. Jeg þykist vita, að hv. þdm. skilji, að hún er ekki aðeins meinlaus, heldur miðar hún til þess að gera lögin samræmanlegri við vatnalögin sjálf, og það þurfa þau að vera.

Hæstv. atvrh. áleit, að umkvörtun mín um það, að mál þetta er komið svo fljótt á dagskrá aftur, mundi vera ófyrirsynju, þar sem jeg væri svo kunnugur þessu máli og ætti því að vera búinn að athuga það nægilega. En jeg verð að kannast við það, að þótt nú sje langt liðið síðan málið kom hjer fyrst á dagskrá, þá hefi jeg samt enn ekki getað sett mig fyllilega inn í þær umfangsmiklu breytingar, sem hafa verið gerðar á þessu frv. frá mínu frv. 1919. Jeg á t. d. erfitt með að átta mig á 12. gr., hvort hún sje framkvæmanleg eða heppileg, en henni er gerbreytt frá frv. mínu, sem lá fyrir þinginu 1919 og 1920. Aftur eru önnur ákvæði, sem eru í fullu samræmi við frv. mitt, og hefi jeg að vísu áttað mig á þeim, en alt frv. er orðið ósamræmilegt við það, að blandað var saman ólíkum stefnum, er frv. var samið. Jeg vil benda á það, að eftir 12. gr. er sjerleyfisgjaldið 0,50–5 kr. af hestafli, og getur hækkað upp í 10 kr. af hestafli eftir ákveðinn tíma. Þetta er mikil breyting frá frv. mínu, því að hjer er ekki aðeins gjaldið miklu hærra en áður var ætlað, heldur er hjer ekkert ætlað hjeruðum þeim, sem fyrir usla verða af virkjun, eins og jeg ætlaðist til í upphaflega frv. og eins og lengi hefir tíðkast hjá Norðmönnum. Þar rennur hálft gjaldið til hjeraðanna. Aftur er öllu gjaldinu hjer ætlað að renna í ríkissjóð. Þetta og margt annað í þessu frv. er svo gerólíkt því, sem áður hefir vakað fyrir mjer, að jeg treystist ekki til þess að segja um það, hvort þetta verður notað eða er „praktiskt“.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að athugasemdum háttv. 2. þm. Rang. Hann taldi, að þessi örðugu sjerleyfisskilyrði mundu leiða til þess, að enginn treystist til að ráðast í vatnsvirkjanir í stærri stíl, einkum vegna þess, hvað sjerleyfistíminn væri stuttur. En eins og jeg og fleiri bentum á við 2. umr., þá er tíminn hjer, 50 ár, alveg jafnlangur eins og hann er í Noregi, og eins og hann var settur í frv. 1919, og auk þess gert ráð fyrir því, að Alþingi geti lengt hann ótiltekið. Hjá Norðmönnum er það hliðstætt því, sem hjer er ætlast til, að Stórþingið getur lengt sjerleyfistímann upp í 60 ár, en hjer getur Alþingi lengt tímann eins og það vill. Með öðrum orðum, Norðmenn setja Stórþinginu takmörk í þessu efni, svo skilyrði þessi eru ekki þrengri hjá okkur en tíðkast meðal annara þjóða, heldur rýmri. Þá áleit hv. 2. þm. Rang., að það þyrfti að breyta tímaákvörðuninni um innlausn virkja, og lækka sjerleyfisgjaldið, þegar tíminn er styttur í 50 ár. En jeg vil benda á það, að þessi 50 ára sjerleyfistími hjá Norðmönnum er líka bundinn við það, að eftir 35 ár geti ríkið tekið í sínar hendur öll virkin eftir mati, en eftir 50 ár án endurgjalds. Hjer er fullkomið samræmi við lög Norðmanna, og jeg veit ekki til þess, að við getum haft betri fyrirmynd í þessu efni en lög þeirra. Hjer hefi jeg síðustu sjerleyfislög þeirra, og eru þau frá 1917. En jeg hygg, að það sje rjett, að þau hafi verið sett og endurskoðuð þrisvar. Í fyrsta sinn 1904 eða nálægt þeim tíma, síðan 1909 og loks þessi, 1917. Og þessi tímatakmörk eru hjá þeim alveg hliðstæð því, sem er í þessu frv. Út frá þessu verð jeg að segja það, að mjer virðist ekki ástæða til þess að taka málið út af dagskrá fyrir þessar sakir, því jeg hygg, að ekki verði, eins og hjer horfir við, farin önnur líklegri leið til úrlausnar þessu máli en frv. og till. benda nú til. Hinsvegar skal jeg viðurkenna, að það er sitthvað í frv., sem jeg efast um að reynist vel, eins og líka í það vantar ákvæði, sem síðar mun saknað. Þess vegna hygg jeg, að það geti orðið örðugt í framkvæmd, þegar þar að kemur, en nú mun rjettast að láta reynsluna skera úr því, hvernig lögin gefast.