29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Bjarni Jónsson:

Menn eru enn með þessa drauma, að fossarnir sjeu eins og kvörnin Grotti og geti malað oss gull í ríkum mæli. En hún getur líka malað malt og salt í djöfuls nafni, til þess að sökkva þessu landi. Og hún mun aldrei mala gull fyrir landsmenn, og ekki einu sinni áburð. Hjer eru og ekki til þau efni, er borgi sig að vinna í verksmiðjum, og yrði því að flytja öll hráefni hingað frá öðrum löndum, en til þess þyrfti meiri skipastól en útflutningur nemur. — Þetta eru því aðeins heimskulegir draumar.

Nú heyri jeg haft eftir þýskum blöðum, að „Titan“ sje endurreist með fjárframlagi frá Ameríku. Vil jeg spyrja hæstv. stjórn, hvort henni sje kunnugt um þetta, því að „Titan“ hefir svo oft sótt um virkjunarleyfi. Jeg veit ekki, hvort blöðin hafa rjett fyrir sjer, en sjálfsagt er, að menn fái að vita um þetta í tíma, því að þingið verður að setja skorður við, ef á að fara að framkvæma þessa draumóra, öllum til ills.

Jeg skal játa það, að þegar jeg talaði um till. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og um það, hvað „umráðamaður“ þýddi, fór jeg þar eftir málvenju, en mundi ekki eftir, að í 49. gr. er það haft í annari merkingu, eða sama sem „handhafi“ ; en þetta er, eins og jeg sagði fyr, misbrúkun á málvenju.

Hv. sessunautur minn (MT) talaði um ýmsar stöðvar, sem rísa mundu upp í landinu við vatnavirkjun, og nefndi menningarstöðvar! En það tel jeg ekki glæsilega framtíð. Þangað mundi fólkið flykkjast og þar rísa upp þorp og kauptún, og þar mundi sveitafólkið sitja, í stað þess að yrkja jörðina. Í öðru lagi er þess að gæta, að þótt virkjun kæmist á, mundu verksmiðjur vart reknar uppi í sveitum, heldur mundi vatnsorkan leidd til hafnar. (SvÓ: Ekki í öllum tilfellum). Menn varðveita sveitirnar best með því að láta enga fossaiðju koma upp í þessu landi, því að það er hægra að leggja á sig Gleipni heldur en brjóta hann af sjer aftur.

Um eignarrjett á vatni er það engum efa undirorpið, að sú skoðun hefir sigrað, sem rjett var, að enginn eignarrjettur er á vatni.