29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi ekki komið inn á atriðið um eignarrjettinn, en fyrst menn eru farnir að vitna, þá get jeg vitnað líka. Jeg er sannfærður um það, að með vatnalögunum er ákveðinn skýlaus eignarrjettur á vatnsafli.

Jeg þarf ekki að víkja mikið að brtt. minni. Jeg vil benda á, að sú stærsta virkjun, sem enn hefir farið fram hjer á landi, er í Reykjavík, 1500 hestöfl. Þessi stöð leggur öllum prentsmiðjum í bænum til afl, og mörgum iðnrekstri öðrum, lýsir öll hús og leggur mikinn kraft til hita. Þó er þetta 10 sinnum minni stöð en hámark um virkjun án leyfis Alþingis. Af þessu geta menn sjeð, hvað hjer er mikið um að ræða.

Jeg skal aðeins víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. Árn. (MT) og því, sem hann sagði um menningarstöðvarnar(!), þar sem útlendingar settu sig á stein og söfnuðu fólki að sjer. Jeg er viss um, að slíkt yrðu hættustöðvar fyrir menningu þessa lands, og sveitamenn mættu kvíða því, ef slíkar stöðvar kæmu upp. Og jeg vona, að jeg lifi það aldrei, að slíkar „menningarstöðvar“ verði settar á úti um land.