02.05.1925
Efri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Frumvarp þetta var lagt fyrir hv. Nd. í byrjun þingsins. Hafði allshn. þeirrar deildar það til athugunar. En það kom ekki til 2. umr. þar fyr en nú fyrir nokkrum dögum.

Eins og jeg tók fram hjer í gær út af öðru máli, sem var til umræðu, þá legg jeg mikla áherslu á, að sjerleyfislög verði samþykt á þessu þingi, vegna þeirra trygginga, sem í þeim felast.

Jeg vona, að í frv. sjeu ekki mörg atriði, sem valdið geta ágreiningi. A. m. k. var það ekki í hv. Nd., og þá ætti það ekki frekar að vera hjer, þar sem þetta mál hefir áður legið fyrir deildinni og verið samþykt hjer við 2. umr.

Í hv. Nd. voru aðallega þau tvö atriði, sem um var deilt, hvað sjerleyfistíminn ætti að vera langur og hversu stórt virkjunarleyfi mætti veita án samþykkis Alþingis.

Það varð úr í hv. Nd., að sjerleyfistíminn var ákveðinn 50 ár, í stað 75 ára, sem hann var í stjfrv. En sá tími hafði upphaflega komist inn í frv. í þessari hv. deild fyrir tveimur árum. Það er þó ekki svo að skilja, að ekki megi veita sjerleyfi til lengri tíma, en til þess þarf samþykki Alþingis.

Hitt atriðið er, hve margar eðlishestorkur megi virkja án samþykkis Alþingis. Nú eru það samkv. frv. 25 þús. En í hv. Nd. komu fram brtt., bæði um að færa það niður í 10 þús. og 15 þús., en báðar voru feldar.

Jeg geri ráð fyrir, að máli þessu verði vísað til allshn., en þá vil jeg beina þeirri ósk til hennar, að hún flýti því eins og hún getur, til þess að það komist í gegn á þessu þingi.