21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

30. mál, laun embættismanna

Jón Sigurðsson:

Jeg á brtt. á þskj. 366, og býst við, að það þyki hlýða að fylgja henni úr garði.

Aðalbreytingin, sem frv. það, sem hjer liggur fyrir, gerir á gildandi lögum, er að nema burt hámark launa, 9500 krónur og 10500 kr. Þetta hámark mun hafa verið sett til þess að koma í veg fyrir, að ef mjög mikil dýrtíð yrði, gætu launin orðið svo há, að ríkinu yrði ofurefli. Nú er þess að vísu heldur að vænta, að dýrtíð fari rjenandi í landinu, en hinsvegar aldrei fullvíst, að hún geti ekki komið á ný. Jeg tel því óvarlegt að nema burtu þennan sjálfsagða hemil með öllu. Til þess að hámarkið falli ekki burt úr frv., en sýna þó starfsmönnum ríkisins sanngirni í þá átt, sem frv. fer fram á, hefi jeg farið þá leið að gera hámarkið breytilegt, eftir því hver grunnlaunin eru. Jafnframt er með þessari till. reynt að fara eftir ákveðinni reglu, að uppbót á 7000 kr. grunnlaun eða hærri geti aldrei farið fram úr 2500 kr., hversu mikil sem dýrtíðin kann að verða.

Samkvæmt gildandi lögum má dýrtíðaruppbótin á 7000 kr. grunnlaun verða mest 2500 kr., eða launin alls nema 9500 kr. Svo er t. d. um biskup og aðalpóstmeistara. Þá koma hæstarjettardómarur með 8000 kr. grunnlaun og 2500 kr. uppbót, alls 10500 kr.

Þá koma 2 flokkar, dómstjóri og ráðherrar. Dómstjóri hefir 10 þús. kr. laun og 500 kr. uppbót, alls 10500 kr., en ráðherrar hafa 10 þús. kr. og enga dýrtíðaruppbót.

Með till. minni er ákveðið, að dómstjóri og ráðherrar njóti sömu rjettinda og aðrir æðstu embættismenn ríkisins, að þeir geti fengið í mesta lagi 2500 kr. dýrtíðaruppbót. Með því er fult samræmi fengið á laun æðstu starfsmanna ríkisins. Ef einhverjir litu svo á, að laun þessara manna væru nú nægilega há og því engin ástæða til að veita dýrtíðaruppbót, þá er því til að svara, að dýrtíðin hlýtur að koma fram við þessa menn eins og aðra, og ef þeir þurfa ekki uppbótarinnar við, þá er það af því, að grunnlaunin eru of há; þau ættu þá að lækka um 2500 kr. hjá ráðherrunum; yrðu þau þá 7500 kr. eða lítið eitt hærri en póstmeistara. En þingið hefir litið svo á, er það ákvað laun ráðherra fyrir 20 árum, að þetta væru hæfileg laun þá, og síðan hefir ástandið ekki breyst til batnaðar. Mönnum í svo ábyrgðarmiklum stöðum verður að launa svo, að lífvænlegt sje. Vísa jeg í því efni til ummæla hv. 2. þm. Rang.

(KIJ). Jeg skal taka það fram, að till. mín er miðlunartilraun, og eftir því, sem jeg skil hv. frsm. minni hl., þá mun hann hallast að henni. Jeg þarf því ekki að mæla frekar með þessari brtt.

En það er annað ágreiningsatriði milli nefndarmanna, hve lengi dýrtíðarákvæðin skuli vara, hvort heldur um óákveðinn tíma eða til ársloka 1927. Mjer þykir það helst of stutt. Jeg sje engar líkur til, að ástandið breytist svo, að hægt verði að fella þá alla dýrtíðaruppbót. Ef setja skal ákveðið tímatakmark, þá verður að miða afnámið við þann tíma, sem sennilegast er að komin verði á stórfeld hækkun á gildi krónunnar frá því sem nú er og að vöruverð o. fl. verði komið í það horf, sem áður var. En hverjar líkur eru til, að það verði 1927, það fæ jeg ekki komið auga á. Auk þess tel jeg svo skjóta hækkun krónunnar stórhættulega fyrir framleiðendur, bæði til lands og sjávar, og að hún gæti jafnvel komið þeim á knje. Þetta tímatakmark er því sett út í bláinn, og jeg lít svo á, úr því líkurnar eru harla litlar fyrir gagngerðum breytingum í þessu efni, að þá sje það ekki vinnusparnaður að taka málið fyrir á hverju þingi. Jeg hallast því að till., sem setur tímatakmarkið lengra, t. d. 1928.

Þá kem jeg að því, sem nefndin er í raun og veru sammála um. Hún er sammála um að bæta upp laun fyrir neðan 3000 kr., en greinir á um leiðina. Meiri hl. vill bæta upp launin eftir ákveðnum reglum, en minni hl. vill veita einhverja upphæð í fjárlögum. Ef jeg ætti að velja um þessar tvær leiðir, tel jeg leið meiri hl. betri. Þar er þó fylgt föstum og ákveðnum reglum, í stað þess, eins og minni hl. ætlast til, að fleygja fjenu í stjórnina og segja: Þú getur skift. En jeg er algerlega mótfallinn tillögum bæði hv. meiri og minni hl. um þessa aukadýrtíðaruppbót, og það er af því, að meginið af þessum störfum, sem uppbót fellur á, eru hlaupastörf fyrir ungt fólk og einskis sjerstaks undirbúnings af því krafist. Þetta fólk hleypur í þetta, meðan það bíður eftir hentugri störfum eða stöðu. Svo er t. d. um símastúlkurnar, póstaðstoðarmenn, skrifara í stjórnarráðinu o m. fl. Nokkuð öðru máli er að gegna um símritarana. Af þeim verður að krefjast undirbúnings, en uppbótin, sem þeim er ætluð, hefir litla þýðingu, af því að þeir eru svo nærri 3000 kr. markinu. En svo eru líka margir þeirra, sem njóta annara hlunninda, sem vega nokkuð á móti því, þótt launin sjeu lág, svo sem ódýr eða ókeypis jarðarafnot o. fl. Jeg sje því enga ástæðu til að veita þessum mönnum aukna dýrtíðaruppbót.

Þá liggur hjer fyrir tillaga um, að allir kennarar fái þessa aukauppbót, eins og aðrir, en jeg tel hana næsta ósanngjarna, vegna þess, að kennararnir eiga frí dýrasta tíma ársins, og sumir þeirra eru embættismenn í þjónustu ríkisins, með háu kaupi yfir sumarmánuðina. Eftir reynslu síðustu ára mundi þó reynast örðugt að standa móti kröfum kennaranna, ef gengið væri út á þessa braut.

Jeg greiði því atkv. móti aukinni dýrtíðaruppbót til þessara manna, eins og jeg greiddi atkv. móti uppbótinni til símameyjanna á síðasta þingi.