21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

30. mál, laun embættismanna

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg sje ekki þörf á að halda langa ræðu. Við undirbúning þessa máls reyndi stjórnin að finna hagkvæmari grundvöll en þann, sem nú er. En það reyndist ekki hægt, að minsta kosti ekki svo miklu betri, að það orkaði ekki tvímælis.

Um framlengingu uppbótarinnar hafa báðir nefndarhlutar orðið sammála. Ágreiningurinn er aðeins þessi, hvort vara skuli 2 ár eða óákveðinn tíma. Jeg álít rjettara að framlengja um óákveðinn tíma, því að þessi tímabundna löggjöf er óeðlileg.

Núverandi ákvæði um dýrtíðaruppbót eru svo hagstæð ríkissjóði, að ekki er ástæða til þess að vænta, að betri fáist. Menn eru líka orðnir svo vanir þessum grundvelli og hafa unað þannig við, að tvísýnt er um hag af því að breyta til.

Samt er þetta ekkert höfuðatriði. Þetta verður í öllu falli að framlengja til 1927. Og þótt jeg geri ráð fyrir að greiða atkvæði móti uppástungum minni hl., þá tel jeg það ekki miklu varða, þótt einhverjar gengju fram.

Um hámark dýrtíðaruppbótar og launa samanlagðra vil jeg taka það fram, að stjfrv. fór fram á að afnema það vegna þess, að sama hámark er sett fyrir mjög mismunandi laun. Þetta hlýtur að vera rangt, nema það byggist á þeirri skoðun, að ákvörðun grunnlaunanna sje ekki rjett. Og þá á hún ekki að haldast. Nú er hinsvegar komin fram brtt. á þskj. 366, frá hv. 2. þm. Skagf. (JS), og er hún einskonar miðlun á þessu. Jeg get fyrir mitt leyti mjög vel fallist á hana. Ákvæðin um hámark eru sett til varúðar gegn því, að dýrtíðaruppbót launanna verði ríkissjóði nokkru sinni of þungur baggi. Mun það sprottið af reynslu fyrri ára, því að eitt árið komst dýrtíðaruppbótin upp í 137%. Jeg er nú sannfærður um, að við höfum girt fyrir slíkt með því að stöðva verðlagið og koma festu á gengið, og þess vegna held jeg, að engin hætta væri á ferðum fyrir ríkissjóð, þótt hámarksákvæðin væru afnumin. En allir er varinn góður, og skal jeg því ekki spilla fyrir þessari till. Þar sem hv. frsm. minni hl. (KIJ) hefir einnig fallist á hana, vænti jeg, að þetta atriði verði til lykta leitt með góðu samkomulagi.

Það gleður mig sjerstaklega að þurfa ekki að gera grein fyrir ástæðum þeim, sem liggja til grundvallar fyrir dýrtíðaruppbót af ráðherralaunum. Háttv. frsm. minni hl. hefir þar tekið af mjer ómakið. Jeg get tekið undir alt, sem hann sagði um það atriði. Að vísu ætti jeg ekki örðugt með að bera þetta fram. Jeg er svo staddur persónulega, að jeg get látið mjer öldungis á sama standa, en mjer finst, og flestir munu hið sama ætla, að engan ætti að útiloka frá ráðherrasessi af fjárhagsástæðum einum.

Þá er spurningin um aukreitis uppbót handa lágt launuðum embættismönnum, sem hv. meiri hl. hefir lagt til að veitt verði. Ef nú menn líta svo á, að launalögin yfir höfuð sjeu reist á föstum og rjettum grundvelli, þá er, eins og hv. 2. þm. Skagf. tók fram, ekki sjerstök ástæða til að veita lágt launuðum embættismönnum aukreitis dýrtíðaruppbót. Þeir fá laun sín bætt í rjettu hlutfalli við þá, sem hærra eru launaðir, og betur þó. En ef menn hinsvegar viðurkenna, að grundvelli þeim sje áfátt, sem launalögin eru reist á, og ætla, að gallarnir komi helst niður á þeim, sem lægst eru launaðir, þá er ekki ámælisvert, þótt menn vilji bæta það upp með sjerstakri uppbót. En jeg verð aðeins að segja, að jeg lít svo á, að með till. hv. minni hl. sje ekki náð þessum tilgangi, að minsta kosti ekki fyllilega. Því að eins og bent hefir verið á, er það mjög misjafnt, hve sanngjarnt er að hækka launin í hinum einstöku tilfellum. Þeir, sem lægst laun hafa, þ. e. 1000–1500 kr., eru ekki verst staddir. Svo lág laun koma eingöngu af því, að starfið er talið algert aukastarf, og það mætti benda á mörg tilfelli, þar sem sanna mætti, að ekki bæri nauðsyn til að hækka lágu launin, af þessum ástæðum, að þau eru aðeins aukaþóknun. Nú hefir hv. frsm. minni hl. (KIJ) bent á eitt dæmi um óhæfilega lág laun. Það eru laun aðstoðarmannanna í stjórnarráðinu. Þeir byrja með 2000 kr. launum, sem hækka á 15 árum upp í 3000 kr. Þetta er algerlega óviðunandi, ef starfið er skoðað sem aðalstarf, og það hlýtur það að vera, eftir að starfstíminn hefir verið lengdur úr 5 stundum upp í 6 stundir á dag. Þetta er því nauðsynlegt að leiðrjetta sem bráðast, en það næst ekki með till. hv. meiri hluta.

Annars get jeg vel viðurkent það, að öll laun, sem ríkið greiðir, eru mjög lág, samanborið við það, sem atvinnurekendur yfir höfuð gjalda verkamönnum sínum og starfsfólki. Þess vegna get jeg ekki beinlínis verið á móti uppástungum um aukadýrtíðaruppbót. Það er engin hætta á, að nokkur fái of mikið. En mjer virðist svo, sem þær till., sem hjer liggja fyrir, bæti ekki úr þar, sem brýnust er þörfin. Því get jeg látið það mjög hlutlaust, hvort þær ná fram að ganga eða ekki.

Viðvíkjandi atkvgr. vil jeg segja það, að jeg vænti þess, að háttv. minni hl. og hæstv. forseti taki þá till. mína til greina, að atkvgr. um 1. brtt. hv. minni hl. fari ekki fram fyr en sjeð er, hvernig öðrum till. reiðir af. (KIJ: Sjálfsagt). Því ef þær verða samþyktar, á hún ekki lengur við.