21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

30. mál, laun embættismanna

Jón Auðunn Jónsson:

Eins og sjest af nál. hv. meiri hl., hefi jeg skrifað undir það með fyrirvara. Vil jeg því með örfáum orðum gera grein fyrir sjerstöðu minni.

Jeg hefi frá öndverðu verið mótfallinn því fyrirkomulagi, að allir þeir embættis- og starfsmenn, sem laun taka samkvæmt launalögum, hafi jafna uppbót í hlutfalli við launin, hvar sem þeir eru á landinu, því að það var þegar í byrjun auðsætt, að misrjetti myndi af þessu hljótast, þar sem öllum er vitanlegt, að misdýrt er að lifa á hinum ýmsu stöðum á landinu. Þetta viðurkendi og hið háa Alþingi að nokkru 1919, þegar það samþykti hin gildandi launalög, og reyndin hefir orðið sú, að sveitaprestar og embættismenn, sem búa í hjeruðum, fá lægri dýrtíðaruppbót en aðrir starfsmenn ríkisins. Nú vil jeg benda á dæmi, til þess að staðfesta þetta enn frekar, hve misdýrt er að lifa á hinum einstöku stöðum. Við skulum t. d. bera saman verðlag í Reykjavík og á Akureyri. Eftir því, sem kunnugir menn, er jeg tek fyllilega trúanlega, segja mjer, mun húsaleiga í Reykjavík á 3 herbergjum og eldhúsi, og það öllu litlu, vera þetta 150–165 kr. á mánuði. En á Akureyri er leigan fyrir þetta sama 75–80 kr. á mánuði. Á Akureyri er og mjólk, smjör o. fl. innlendar landbúnaðarafurðir, að undanskildu kjöti, 30–35% ódýrari en í Reykjavík. Og sveitarútsvar er 35–40% lægra á Akureyri en í Reykjavík: Misrjetti hlýtur altaf að leiða af þessu, ef dýrtíðaruppbótin er greidd aðeins í hutfalli við launin, eins og nú er. Því er það, að dýrtíðaruppbætur þurfa að vera fleiri en ein. Í nágrannalöndunum er því og svo farið, að greiddar eru þrennar eða fernar launabætur, sem miða að því að bæta starfsmönnum hins opinbera þann halla á launakjörunum, sem dýrtíð og gengissveiflur valda.

Tökum t. d. Danmörku. Þar var þessu skipað með lögum nr. 489, 12. sept 1919, og með viðaukum og breytingum við þau lög, á árunum 1921–1922. Aðalreglurnar eru um þrennskonar dýrtíðaruppbætur Fyrst er staðaruppbót til þeirra, sem búsettir eru í bæjunum. Er þar einkum tekið tillit til þess, hverja húsaleigu og hversu há útsvör að hundraðstölu af tekjum menn þurfa að greiða í hinum ýmsu bæjum. Þar er og tekið tillit til þess verðmismunar, sem á sjer stað í hinum ýmsu bæjum, en hann er ekki mikill, þar eð samgöngur eru svo góðar þar í landi. En hjer verður verðlagið oft afarmisjafnt í hinum einstöku hjeruðum, einmitt sakir hinna illu samgangna, og þyrfti því að taka sjerstakt tillit til þess, þegar ákveðið er um launabætur. Þessi staðarbót er svo í Danmörku eftir dýrtíð bæjanna alt frá 450–330 eða 240 kr. árlega. Má hún þó ekki fara yfir 30–15% af starfslaununum. En í öllum landshjeruðum og flestum bæjum, þar sem húsaleiga og skattar eru lágir, er þessi staðarbót engin.

Í öðru lagi er dýrtíðaruppbót, sem reiknuð er á líkan hátt og hjer, en er þó nokkuð lægri að hundraðstölu.

Í þriðja lagi er verðgildisuppbót. Hún er mismunandi eftir launaupphæðinni, þannig, að hún bætir þeim, sem lægst etu launaðir, meira upp að hundraðstölu en hinum, sem hæst laun fá. Þannig nemur verðgildisuppbótin alt að 1/3 af stofnlaunum og aldursbótum hinna lægst launuðu, en fer lækkandi eftir því sem launin hækka. Jeg skal nefna nokkrar tölur um þetta í Danmörku.

Til 31. mars 1923 voru verðgildisbætur t. d.:

Af launum alt að .. 1600 kr. 500 kr.

— — — — — ........... ..3900 – 600 –

— — — — .. 4900 – 640 –

— — — — .. 6400 – 700 –

— — .. .. 8400 – 820 –

En þeir, sem hæst voru launaðir og höfðu 10400 kr. eða þar yfir í laun, fengu aðeins 1060 kr. í verðgildisuppbót. Á þennan hátt næst tvent. Bæði það, að gera mismun á mönnum eftir dýrtíðinni á hinum einstöku stöðum, og eins hitt, að jafna betur upp laun þeirra, sem verst eru staddir og minst fá launin. Ennfremur hefir svo verið til skamms tíma, og er sumstaðar enn, að meiri launabætur eru greiddar þeim, er ómegð hafa, þannig að hver starfsmaður ríkisins, sem hefir á framfæri fleiri en einn ómaga, fær sjerstaka dýrtíðaruppbót.

Hvergi mun það vera nema hjer, að launabætur hverfi, er launin hafa náð vissri upphæð, enda getur þá svo farið, að ábyrgðarmestu embættin verði ekki eftirsóknarverð. En það er skaðlegt hverju þjóðfjelagi, ef svo er ekki, því að þá er hætt við, að embættis- og starfsmenn ríkisins hætti að sækja fram og reyna að skara fram úr, með það fyrir augum að verða færir um að ná nauðsynlegu áliti til að öðlast hin hærri embætti og sýslanir.

Tilraunir hv. meiri hl. til að bæta hinum lægst launuðn dýrtíðarhallann tel jeg að gangi í rjetta átt, og kaus jeg því að fylgja honum.

En þess er ekki að dyljast, að jeg tel fyrirkomulagið eins og það nú er, eða hina einföldu, tiltölulega háu dýrtíðaruppbót, valda óþolandi misrjetti milli launamanna á hinum ýmsu stöðinn. En það er ekki meðfæri eins einstaks þingmanns að koma með róttækar till. Í þessu máli, allra síst áður en því hefir verið hreyft í þinginu eða jafnvel í blöðum. Þess vegna hefi jeg ekki gert það. Slíkt mál verður altaf að athugast af nefnd eða stjórn og vera vel undirbúið áður en það er borið fram. En jeg verð að segja, að mig furðar á, hve starfsmannastjett ríkisins eða fjelagsskapur hennar er hugsunarlaus, þar sem hann hefir ekki stungið upp á neinum till. til að bæta það fyrirkomulag, sem nú er og veldur svo miklu misrjetti. Því áreiðanlegt er, að finna mætti að kostnaðarlausu miklu hentugri og heppilegri leið til að bæta mönnum upp dýrtíðina en nú er gert.

Að öðru leyti en því, sem jeg nú hefi sagt, er jeg ekki mótfallinn till. hv. meiri hl., en hefi aðeins viljað með þessum orðum gera grein þess, hvers vegna jeg hefi skrifað undir nál. hans með fyrirvara.