21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

30. mál, laun embættismanna

Frsm. minni hl. (Klemens Jónsson):

Jeg þarf ekki miklu að svara. Því hefir verið haldið fram, að óþarfi væri að tímabinda gildi þessara laga. Treysta mætti þinginu til þess að afnema þau, þegar ástæða þætti til. Jeg skal játa það, að jeg treysti ekki þinginu til þess að vera svo vakandi, að það grípi strax tækifærið, þegar ástæða er til, og afnemi lögin. Það yrði vissulega látið dragast. En sjeu lögin tímabundin, eru þau af sjálfu sjer fallin úr gildi, nema Alþingi veki þau upp aftur. Hitt get jeg fallist á, að ekki sje hægt að segja með ákveðinni vissu, hve tíminn ætti að vera langur. Hv. 2. þm. Skagf. (JS) vildi segja, að ákvæðið um 2 ár væri út í loftið. En um það getur enginn fullyrt neitt fyrirfram. Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að jeg væri alls ekki ófús að rýmka eitthvað til um tímalengdina, t. d. að binda þetta við þrjú ár, í stað tveggja. Því hefir verið haldið fram, að ekki þyrfti að binda þetta, af því að ekkert útlit væri fyrir, að dýrtíðin hyrfi. En útlitið bendir þó að minsta kosti á, að hún muni minka. Það hafa jafnvel heyrst raddir um, að síðasta dýrtíðaruppbót hafi verið of há. Jeg dæmi ekki um, hvort það er rjett, en því hefir verið haldið fram.

Hæstv. fjrh. (JÞ) kvaðst ekki mundu gera tímatakmarkið að kappsmáli. Það er gott að heyra, og vænti jeg því, að brtt. í þá átt fái góðan byr, og mun jeg koma með brtt. í þá átt við næstu umr.

Annars þykir mjer vænt um, hve hjer í deildinni er lítill ágreiningur um þetta mál. Jeg hafði kviðið því, að það mundi reynast erfitt og vandasamt, ef til við vandasamasta málið á þinginu.