09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

30. mál, laun embættismanna

(Frsm. (Jónas Jónsson):

Háttv. 2. þm. S.-M. (IP) tók af mjer ómakið sem framsögumanni við síðustu umr., vegna þess að jeg gat ekki verið við. Jeg vil lýsa ánægju minni út af því, að brtt. nefndarinnar hefir verið svo vel tekið í háttv. deild, brtt. um að hækka uppbót sveitapresta frá því, sem. verið hefir. Þegar þess er gætt, að læknar og sýslumenn fá fulla uppbót, þótt þeir hafi bú, þá er ekki hægt að neita prestum um sama rjett.

Það vill nú svo til, að það eru tvær stjettir manna hjer í landi, sem ekki hafa haft samtök um kaupkröfur, en það eru prestar og starfsmenn samvinnufjelaganna. Aðrir starfsmenn hafa haft samtök sín í milli um að fá kaup sitt hækkað. Það er enginn efi á því, að með samtökum sínum höfðu læknar mikil áhrif á það, hvernig launakjör þeirra voru ákveðin 1919. Prestar hafa ekki notað þessa venju, og það mundi óheppilegt að láta þá gjalda þess, því að með tímanum hefðu þá komið harðari kröfur frá þeim.

Jeg vil og nota þetta tækifæri til þess að benda á það, að starfsmenn kaupfjelaganna hafa ekki heldur haft nein samtök í þessu skyni. Sjerstaklega vil jeg benda þeim mönnum á þetta, sem hafa haldið því fram, að sá verslunarskólinn hjer, þar sem þeir stunda nám sitt, ali upp í lærisveinum sínum þann anda, er beri upp slíkar kaupkröfur. Það eru aðrir skólar, sem gera það, meðal annars vissar deildir háskólans.

Um laun ráðherra er það að segja, að jeg sá enga ástæðu til þess að hækka þau, en meiri hl. nefndarinnar var með því, og var sýnilegt, að ekki var hægt að fá breytingu þar á.