31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Kjartansson:

Jeg á eina brtt á þskj. 235, um heimild til viðlagasjóðsláns handa Síðuhjeraði, alt að 6000 kr. Eins og hv. þdm. eflaust muna, þá hefi jeg tvisvar sinnum sótt um viðbótarstyrk fyrir þetta hjerað, sem hefir komið sjer upp sjúkraskýli, en í hvorugt skiftið fengið því framgengt. Ástæðan fyrir þessum umsóknum var sú, að byggingarkostnaðurinn fór langt fram úr áætlun. Reyndist kostnaðurinn að verða yfir 39 þús. kr., en hjeraðið fjekk einungis 10 þús. kr. styrk úr ríkissjóði. Af þessum ástæðum hvíla nú á hjeraðinu dýr og óhagstæð lán, sem hjeraðinu væri mikils virði að geta komið öðruvísi fyrir. En nú hefir Alþingi ekki getað fallist á að veita umbeðinn viðbótarstyrk, ekki síst sökum þess, að því er hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) sagði, að með því móti væri gefið ilt fordæmi, sem mörg önnur hjeruð mundu fylgja eftir.

Jeg hefi raunar áður bent á, að þessu sje alls ekki svo varið, hjer skapist ekkert ilt fordæmi, því að hjer standi svo sjerstaklega á. En til þess nú alveg að sneiða framhjá þessu illa fordæmi, hefi jeg hjer farið fram á lán úr viðlagasjóði, ef heimild til þess fengist. Gæti það hjálpað hjeraðinu til að losna við óhagkvæmar og erfiðar víxilskuldir. Hins vegar veit jeg, að hjeraðsbúar myndu kosta kapps um að greiða lánið aftur og ekki, fara fram á neina eftirgjöf á því, sem nú virðist vera farið að tíðkast. Vona jeg, að liv. deild muni ljúft að greiða götu þessa hjeraðs með þessu móti.