10.02.1925
Efri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

23. mál, atvinna við siglingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Frv. þetta er um stýrimensku á bátum frá 12– 30 smál.

Eftir gildandi lögum er það svo um báta af þessari stærð, að ekki verður annað sjeð en að gert sje ráð fyrir, að á bátum þessum sje venjulega stýrimaður, en þó berum orðum sagt, að það sje ekki skylt. Næst liggur því að skilja þessi ákvæði þannig, að það sje á valdi útgerðarmanna, hvort þeir hafa stýrimenn á þessum bátum eða ekki. En þessi regla er ekki heppileg og mun vera komin í lög fyrir misskilning. Óheppileg er reglan vegna þess, að bátar undir 30 smál. að stærð geta oft legið úti í sjó, t. d. við fiskiveiðar, svo sólarhringum skiftir. Það er því nauðsynlegt á þessum bátum að geta haft vaktaskifti, en það mun því aðeins þykja forsvaranlegt, að annar maður sje á bátnum, sem getur tekið við störfum formannsins. Það er ekki heldur rjett, að útgerðarmaður geti ráðið, hvort hann hefir stýrimann á báti sínum. Þar verður að ráða, hvort tryggilegt er eða ekki að hafa aðeins einn á skipi með nægilegri þekkingu.

Í þessu efni hefir skólastjóri stýrimannaskólans látið uppi það álit, að óþarfi sje að krefjast, að stýrimenn sjeu lögskráðir á báta undir 20 smál., en á stærri bátum beri að krefjast þess. Á þessu áliti hans er frv. bygt og stungið upp á því, að aðeins stýrimenska á 20 smál. bátum eða stærri komi til greina til þess að öðlast stýrimannsskírteini á fiskiskipum, og að jafnframt sje fyrirskipað, að stýrimenn skuli jafnan vera á bátum yfir 20 rúml.

Mál þetta er á verksviði sjávarútvegsnefndar, og legg jeg til, að því verði til hennar vísað, þegar þessi umræða er á enda.