03.03.1925
Efri deild: 21. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

23. mál, atvinna við siglingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Nál. ber það með sjer, að hv. nefnd hefir ekki getað fallist á 1. gr. frv., en aftur á móti á 2. gr. þess. Með öðrum orðum, það skal ákveðið með lögum, að stýrimenn skuli vera á 20 rúmlesta skipum eða þeim, sem stærri eru, en það er ekki heimtað, að stýrimaður sje á bátum milli 12 og 20 smál. En jeg er ekki vel ánægður með þetta. Útgerðarmaður ræður því sjálfur, hvort hann hefir stýrimann á slíkum bátum eða ekki. Jeg benti á það við 1. umr., að jeg teldi þetta ekki heppilegt, en jeg skil, að ástæða nefndarinnar fyrir því að vilja ekki breyta þessu, muni vera sú, að það muni vanta báta af þeirri stærð, sem þarf til þess, að menn geti æft sig á þeim til þess að ná í skipstjórarjettindin. En getur þá ekki eins vantað fyrir stýrimennina? Hvar stendur það skrifað, að útgerðarmennirnir vilji hafa stýrimenn á þessum skipum? Mjer þykir alveg óvíst, að þeir geri það af sjálfsdáðum, og geta þeir með því móti bægt mönnum frá æfingu, sem eru efnileg skipstjóraefni. Þannig hefir hv. nefnd stoppað í gloppuna, sem er í lögin að því er snertir 20–30 smálesta skip, en gloppan er óbætt að því er snertir 12–20 smálesta bátana.

Um hinar nýju brtt. hv. nefndar skal jeg lítið segja. Jeg er alveg samþykkur því, að í veiðistöðum, þar sem bátarnir koma að daglega og engin vaktaskifti eru, sje óþarfi að hafa stýrimenn á skipunum. Eins hefi jeg lítið að athuga við brtt. við 2. gr., um að menn, sem hafa reynst góðir á smábátunum, geti fengið stærri skip. Þó finst mjer nokkuð stórt stökk frá 60 smálesta skipi upp í 150 smálesta skip, en ef vandlega er valið úr mönnum, þarf ekki að stafa bætta af þessu, og skal jeg ekki mæla gegn því.

Um prófið er það að segja, að það er dálítið leiðinlegur hringlandi, sem hjer kemur fram. Nú eru aðeins 2 mánuðir síðan það komst í gildi, að það ætti eingöngu að vera hjer í Reykjavík, og strax á að breyta því. Þó játa jeg, að það kunni að vera fult eins heppilegt, að það megi halda í smákaupstöðunum, og get því felt mig við brtt., en mjer þykir aðeins undarlegt, að sjútvn., sem 1922 endilega vildi aðeins hafa prófið í Reykjavík, skuli nú tala um, hve óhagstæð sú ráðstöfun sje.

En aðalatriðið, og það sem jeg aðeins vildi leggja áherslu á, er þetta, að gloppan í lögin að því er snertir stýrimannaskyldur á 12–20 smálesta bátum er óbætt eftir till. hv. nefndar, og engin trygging enn fengin fyrir því, að þeir menn verði stýrimenn á þessum bátum, sem síðar gætu orðið formenn þeirra.