31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

1. mál, fjárlög 1926

Halldór Stefánsson:

Jeg ætlaði að mæla fá orð til skýringar brtt. XXII á þskj. 235, um styrk til húsabóta á prestssetrum. Þetta mál er kunnugt frá í fyrra, því að á þinginu þá komum við með samskonar till., sem við raunar tókum aftur, ekki vegna þess, að við værum ekki sannfærðir um rjettmæti hennar, heldur sökum þeirra sparnaðarþanka, sem þá áttu sjer svo djúpar rætur í hugum hv. þm., en við vildum ekki eiga á hættu, að jafnrjettmæt till. yrði feld.

Í stjfrv. er gert ráð fyrir, að veittar verði til húsabóta á prestssetrum alls 10 þús. kr. Hv. fjvn. hefir fært upphæðina upp í 20 þús. kr., og að lokum viljum við, að upphæðin sje áætluð 29 þús. kr., svo að hægt verði að fullnægja þeirri sanngirniskröfu, sem presturinn á Skeggjastöðum í Norður-Múlasýslu fer fram á. Hefir ítarleg greinargerð legið fyrir þinginu um þetta mál, og hafa hv. þm. átt kost á að kynna sjer hana. Er hjer líkt á komið og um prestinn á Mosfelli, og þar sem hv. fjvn. hefir tekið beiðni hans til greina, þá er sjálfsagt, að það sje líka gert hjer. Biskup hefir einnig látið uppi álit sitt um málið; hefir hann alveg fallist á ástæðurnar, sem fyrir till. liggja, og leggur hann til, að helmingur fjárins komi til útborgunar í fjárl. þessum og helmingurinn síðar.

Úr því að jeg á annað borð stóð upp, þá langar mig til þess að fara fáum orðum um nokkrar aðrar brtt. — Kem jeg fyrst að þeirri, sem jeg flyt ásamt hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. samþm. mínum (ÁJ) á þskj. 235, undir lið XXV. Förum við fram á, að veitt verði til viðbótarbyggingar Eiðaskólans 60 þús. kr. Get jeg vísað til þess, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði um þessa till. og vil aðeins undirstrika þau orð hans, að það sje bæði lagaleg og siðferðileg skylda fyrir ríkið veita þetta fje. Skal jeg því til sönnunar vísa til laganna frá 1917 um stofnun alþýðuskóla á Eiðum og afhendingu Eiðaeignarinnar. Sjálft heiti laganna ber það með sjer, að hjer er um samning að ræða. Og texti þeirra sýnir það ennþá ljósar. Skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp nokkur orð úr 1. og 7. gr. laganna. 1 1. gr. síðustu málsgr. segir svo, eftir að búið er að ákveða, að Múlasýslur leggi niður búnaðarskólann og afhendi landinu hann:

„Skilyrði fyrir afhendingunni er, að landssjóður starfræki framvegis á Eiðum .... vel útbúinn æðri alþýðuskóla, er samsvari kröfum tímans“.

Og í 7. gr. segir: „Þó skal landsstjórninni heimilt, meðan heimsstyrjöldin stendur, að reka skólann á þann hátt, sem hentast þykir ..“

Afhendingin hefir farið fram, en fresturinn til að fullnægja skilyrðinu fyrir henni, að ríkið reisi þar skóla, sem fullnægi kröfum tímans, er liðinn. Og af skjölum, sem fyrir liggja, er auðvelt að sjá, að skólinn hefir, ennþá sem komið er, ekki skilyrði til að vera rekinn eins og lögin mæla fyrir og ætlast var til. Fresturinn var veittur vegna hins örðuga og óvissa ástands stríðsáranna, en nú eru forsendurnar fyrir honum fallnar burt og aðstandendur skólans hafa sagt frestinum upp, svo sem sjá má af fjölmennum áskorunum úr viðkomandi hjeruðum til þingsins. Það hafa margir talað um þörfina á því að borga upp lausar skuldir ríkissjóðs, en hjer er um samningsbundna skuld að ræða, sem fallin er í gjalddaga, og mun enginn telja nema sjálfsagt, að greiðslur á slíkum skuldum verði látnar ganga fyrir.

Þá vil jeg víkja að einu atriði í álitsskjali hv. fjvn., þar sem hún talar um styrk handa Ríkarði Jónssyni til að „endurreisa og útbreiða þjóðlegan stíl í öllum listiðnaði.“ Jeg þykist vita, að þessi listamaður sje vel til starfsins fallinn, en vil, út af þessum ummælum, aðeins spyrja, hvort þau eigi að skiljast sem dómur á starfi Stefáns heitins Eiríkssonar, sem lengst hefir haldið uppi kenslu í þessari iðn hjer, hvort nefndin með þessum ummælum vill gefa í skyn, að starf Stefáns hafi ekki hnigið í þessa átt eða náð tilgangi sínum. Nefndin getur ekki um það, að fyrir lá beiðni frá dóttur Stefáns um styrk í þessu sama skyni. En það er kunnugt, að hún hjelt uppi skóla föður síns síðustu árin, sem hann lifði, vegna vanheilsu hans, og hefi jeg ekki heyrt annað en vel væri af því látið. — Mjer finst því, að úr því hv. fjvn. taldi sjer ekki fært að láta hana halda styrknum, þá hafi kenslan eins vel mátt falla niður um hríð. — Lærisveinar Stefáns heitins eru víðsvegar um landið og breiða út frá sjer áhuga og þekkingu á þessari list, og munu þeir allir starfa í sama anda og í skólanum rjeði. Þörfin getur því ekki talist svo brýn, að ekki hefði mátt verða hlje á kenslunni um sinn, svo sem ástæður eru nú til.

Þá kem jeg að styrknum til Hannesar Þorsteinssonar yfirskjalavarðar. Í nál. eru engar upplýsingar um ástæðuna fyrir því, að styrkurinn er hækkaður, og vísaði hv. frsm. (TrÞ) þó til nál., er hann mintist á þetta. Styrkur þessi var í fyrra lækkaður nokkuð, sökum þess að viðkomandi maður tók þá að sjer umfangsmikla stöðu, sem hlýtur að taka upp starfstíma hans meira en áður var. Var búist við, að það myndi taka svo mikið af starfstíma hans, að styrkurinn nægði fyrir þann starfstíma, sem hann hefði afgangs. Í stjfrv. er gert ráð fyrir að hækka styrkinn í 1500 kr., en fjvn. leggur til að hækka hann upp í 2 þús. Mjer er ekki fullljóst, hverjar ástæður eru fyrir þessari miklu hækkun, síst fyrir till. nefndarinnar, að hækka styrkinn úr því, sem stjórnin lagði til, og þá sennilega eftir einhverju samkomulagi við viðkomanda sjálfan. Annars virðist það svo, að þeir menn, sem eitthvað þykjast hafa til brunns að bera, þeim sje það helst í hug að hafa sem mest fje upp úr því, sem þeir gætu lagt fram til þjóðnytja. Þeir vinna ekki af áhuga fyrir þjóðheill eða fyrir sína áhugafræðigrein, heldur vinna þeir sem einskonar aktaskrifarar.