07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

23. mál, atvinna við siglingar

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að hv. sjútvn. hefir ekki getað fallist á 2. gr. frv. Ástæðan er sú, eins og getið er um í nál., að forstöðumaður stýrimannaskólans og skipstjórafjelagið „Aldan“ hafa lagst á móti þessu, og eftir þeirra tillögum er lagt til að fella greinina niður. Mótstaða úr þessari átt er ekki ný. Skipstjórafjelagið „Aldan“ lítur svo á, að verið sje að rýra atvinnu þeirra, sem tekið hafa meira prófið. En því er nú samt svo varið, að það mun vera undantekning, að skipstjóri með meiraprófi sje fær um að stunda þorskveiðar með lóð, svo að gagni sje, því að þeir hafa ekki vanist þeirri veiðiaðferð. Það má kannske segja um mennina með minna prófinu, að þeir verði að afla sjer þekkingar og taka próf, en það er nú svo, að erfitt er fyrir fertuga menn eða eldri að setjast á skólabekk og sitja þar heilan vetur. Auk þess mun því svo varið, að jeg held, að enginn geti bent á slys, sem orsakast hafi af vanþekkingu minnaprófsmanna. Jeg a. m. k. veit ekkert dæmi þess. Jeg lít svo á, að engin hætta sje að veita undanþágu mönnum, sem reyndir eru og hafa meðmæli útgerðarmanna þeirra, sem þeir hafa unnið hjá. Þar sem stjórnin getur altaf haft forstöðumann stýrimannaskólans í ráðum, þegar sótt er um undanþágu, ætti lítil hætta að vera á því, að þessi heimild yrði misbrúkuð. Auðvitað er sjálfsagt að synja um undanþágu, ef umsækjandi verður ekki álitinn starfinu vaxinn. Þegar þessar undanþágur fást ekki, þá er önnur leið farin. Það er tekinn einhver meiraprófsmaður, og þá oft og tíðum, að jeg hygg, ekki af skárri endanum, til þess að vera um borð. Hann er lögskráður sem skipstjóri, en hefir svo aldrei nokkur minstu ráð á skipinn. Með því að sjútvn. er einhuga um þessa till. sína, sje jeg ekki ástæðu til að segja meira um þetta mál, en gat hinsvegar ekki látið hjá líða að skýra frá þessu, af því að mjer var mjög vel kunnugt um það.