07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

23. mál, atvinna við siglingar

Hákon Kristófersson:

Þegar þetta frv. var hjer til 1. umr., leyfði jeg mjer að bera fram mótmæli gegn ákvæðum 2. og 3. gr. Sjútvn. hefir nú horfið að því ráði að leggja til, að 2. gr. verði feld niður, en ekki sjeð sjer fært að taka til greina þær bendingar, sem jeg gaf um 3. gr., sem sje það, að þótt svo sje í ýmsum veiðistöðum, að ætlast sje til þess, að bátarnir komi að á hverjum degi, getur þó svo komið fyrir, að það verði ekki, og því hjelt jeg því fram, að heppilegra væri, að það væri bæði skipstjóri og stýrimaður á bátunum, því að það getur altaf viljað til, að skipstjórann taki út, og hver er þá eftir til skipstjórnar á því skipi? Vitanlega ekki nema þá einhver af hásetunum, sem kannske má slá föstu, að mundi bjarga sjer og skipshöfninni; en ef ekki er hægt að mæla á móti því með neinum rjetti, að sjálfsagt sje að vinna að tryggingu sjómannastjettarinnar, þá vona jeg, að allir verði sammála um það, að betra sje að hafa tvo hæfa menn á skipi heldur en einn. Mjer þykir leitt, að háttv. nefnd gat ekki sjeð sjer fært að taka þetta til greina. Mjer þótti mjög vænt um það, að rjett eftir að þetta mál var hjer til meðferðar, kemur út í einu blaði hjer álit Páls Halldórssonar, skólastjóra við stýrimannaskólann, sem fer í sömu átt, enda hlýtur það að vera, að það er fullkomnara öryggi í því, að öðru jöfnu, að það sjeu vel færir menn, sem fara með svona stór skip, því að þeim er ætlað að geta verið úti marga sólarhringa. Hinu mótmæli jeg ekki, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ.) sagði, að það geta oft verið ágætismenn, sem eru vel færir um að stjórna skipi, þótt þeir hafi ekki próf; en þetta er auðvitað undantekning frá reglunni. (JAJ: Það er ekki farið fram á að veita öllum undanþágu frá reglunni). Rjett, en við vitum það, hve undanþágur geta verið stórhættulegar, og það er ekki sagt til þess að ámæla stjórninni, þótt sagt sje, að hún hafi veitt undanþágur í málum, sem aldrei hefði átt að veita. T. d. veitti hún leyfi til, að skip eitt færi út með akkerisfesti nokkra, og hvað skeður? Þegar skipið leitaði hafnar í vondu veðri, slitnaði festin, og allir hefðu farist, ef ekki hefði verið hægt á sömu stundu að setja af stað mótor, sem var í skipinu. Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að það væri lítil hætta á misbeiting, þó að þetta væri leyft, en það er nú oft svo, að ábyggilegum mönnum hættir um of við að dæma aðra eftir sjálfum sjer. Jeg er viss um, að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) mundi ekki viljandi misbeita slíkri undanþágu, ef hún kæmi í hendur honum.

Eitt þótti mjer leiðinlegt að heyra, sem fram kom í umr., að sagt var, að ef þetta næði ekki fram að ganga, þá mundi þeirri aðferð oft verða beitt að taka meiraprófsmann, og það oft ekki af betri endanum, til þess að vera skipstjóri að nafni til. Já, það sannar það, að menn eru oft helst til kæringarlausir í að sjá um gott öryggi á skipum sínum, því að sagt var, að löngum mundu verða teknir þeir mennirnir, sem kauplægstir væru. Sömuleiðis benti háttv. þm. (JAJ) á, að það væri ekki hægt að segja, að nokkurt slys hefði hlotist af þessum mönnum. Háttv. frsm. nefndarinnar (JakM) hefir svarað því mjög rækilega, og við vitum líka, að þetta mál má teygja og toga á milli sín án þess að sönnunargögnin liggi ljóst fyrir frá hvorugra hálfu, þeirra, sem eru með því, og hinna, sem á móti eru. En það er annað í þessu máli. Það er gengið dálítið inn á rjett þeirra manna, sem hafa aflað sjer þessarar þekkingar, sem þarf, þegar frá þingsins hálfu er heimilað að veita svo og svo margar undanþágur, því að við getum ekki lagt nein skjöl á borðið um það, hve margar þær verði á hverju ári. Jeg mun því greiða atkvæði með till. nefndarinnar. En það, sem mjer þykir á bresta frá nefndinni, er gagnvart 3. gr., sem jeg hefi bent á áður, því að það vitum við allir, sem til sjávar þekkjum, að það er áreiðanlega eitt af fyrstu skilyrðunum til þess, að sjómennirnir komist vel af, að þar sje öruggur formaður, því að það vitum við allir, hvað öruggum formanni hefir oft tekist að koma skipi sínu fram gegnum brim og boða.