31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

1. mál, fjárlög 1926

Benedikt Sveinsson:

Jeg ber hjer fram eina brtt. á þskj. 235, 31.

Till. er borin fram eftir ósk dr. Páls Eggerts Ólasonar prófessors, því að Fræðafjelagið í Kaupmannahöfn hefir snúið sjer til hans og óskað, að hann fengi einhvern til þess að tala máli sínu í hv. deild fyrir þessari málaleitan.

Eins og mönnum er kunnugt, hefir Fræðafjelagið fengið nokkurn styrk undanfarin ár til þess að gefa út Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns lögmanns, 1 þús. kr. á ári. En í fjárlögunum, sem nú gilda, er styrkurinn feldur niður. Nú hefir stjórn Fræðafjelagsins skrifað ríkisstjórninni erindi, þar sem hún fer fram á, að styrkurinn verði tekinn upp aftur, 1 þús. kr. á ári, og veittur framvegis. Stjórn fjelagsins gerði það eitt af sínum verkum að gefa út þetta rit, og hófst útgáfan 1912. 3. bindið kom út árið sem leið. Bókin á að verða 12 bindi, og mundi það því með sama hraða taka 50 ár að koma henni út. Norðlendingum þykir miða seint útgáfunni, ekki síst þeim, sem gerðust kaupendur í fyrstu; hafa komið óskir frá þeim um það, hvort ekki væri hægt að hraða verkinu meira. Stjórn Fræðafjelagsins er áhugamál að verða við þessum óskum, en sjer sjer það ekki fært nema með nokkuð ríflegum styrk í bráðina, og leggur því til til vara, að þingið veiti nú um nokkur ár 2500 kr., í stað 1 þús. kr., á ári, með því skilyrði, að fjelagið taki þá jafnframt til að gefa út Jarðabókina yfir Norðurland, og gerir það ráð fyrir að byrja á Húnavatnssýslu, sem er stærsta sýslan norðanlands, og ljúka þeirri útgáfu á 2 árum. En jafnframt ætlar fjelagið að fá fje á annan hátt til þess að halda áfram útgáfunni eftir Vesturlandi. Ilefir það von um nægan styrk úr Sáttmálasjóði, þótt þingið leggi ekkert til þeirrar útgáfu.

Hjer er í raun og veru ekki um annað að ræða en nokkra tilfærslu á fje, sem hvort sem er verður veitt til þessarar útgáfu. Það er öllum auðskilið, að það er æskilegast, að slík bók gæti komið út sem fyrst. Það er leitt fyrir fræðimenn norðanlands — en þar hefir bókin flesta kaupendur að tiltölu — að þurfa að bíða svo lengi eftir þeim bindum, sem þeim leikur mestur hugur á að fá, kannske 50 ár. Þessi tilhögun um útgáfuna hefir valdið mestu um það, hve bókin hefir fengið tiltölulega fáa áskrifendur meðal landsmanna. Jeg sje því ekki annað en að það sje mikið unnið við það að taka varaósk fjelagsins til greina. Það er fremur til þess að spara það, sem ríkissjóður leggur til verksins. Á hinn bóginn hraðar það mjög útgáfunni, sjálfsagt um meira en helming, eftir því sem gert er ráð fyrir í brjefinu. Það er heldur ekki hjer um neina hreppapólitík að ræða, eða hlut neins hjeraðs, því að það er ekki ætlast til, að neinir landsh r — t. d. Vestfirðir — þurfi að bíða lengur þessa vegna; bókin í heild kemur engu seinna, þótt þessi breyting verði gerð.

Jeg býst við, að menn geti glöggvað sig á þessu svo auðeldlega, að jeg þurfi ekki að tala frekar. En ef það væri einhver hv. þm., sem ekki er kunnugt um þessa bók, þá skal jeg taka það fram, að hún er eitthvert hið merkilegasta rit, sem til er um sögu Íslands á liðnum öldum. Bókin er samin af tveimur hinum lærðustu og vitrustu mönnum, sem hjer voru uppi í byrjun 18. aldar. Það er vandað svo mjög til bókarinnar, að það er ekki unt að fá slíka fræðslu, sem hún veitir, annarstaðar. Þó má geta þess, að því miður hafa týnst 3 bindi, Múla- og Skaftafellssýslur. Jarðabókin lýsir ítarlega hverri einustu jörð, greinir jarðardýrleika og leigumála á öllum jörðum, nafngreinir hvern ábúanda og skýrir frá allri áhöfn á hverri jörð. Ennfremur eru taldar allar kvaðir, sem á jörðum hvíla, ítök öll, kostir jarða og ókostir, hlunnindi og hvað eina. Er þetta t. d. mjög fróðlegt að því er snertir Gullbringu- og Kjósarsýslu og sýnir glögglega veldi Bessastaðamanna á þeim tímum. Bókin telur einnig allar eyðijarðir og fjölda af örnefnum, sem hvergi er annarsstaðar að finna. Er það hin mesta náma fyrir þá, sem munu á sínum tíma safna örnefnum hjer á landi og skýra þau, og einnig fyrir aðra fræðimenn.

Bókin lýsir greinilega, hvernig háttað var við sjávarsíðuna, hversu mörg skip gangi frá hverri verstöð, högum útræðismanna og þar fram eftir götum. Þetta vildi jeg taka fram, ef einhver væri, sem það hefir farið fram hjá að athuga þessa bók. Vona jeg, að af þeirri kynningu, sem hv. þm. hafa af Jarðabókinni, sjái þeir ekki eftir þessum styrk, þótt hækkaður verði í bili til þess að ljúka útgáfunni á skemmri tíma. Það má geta þess, að útgáfan er í alla staði mjög vönduð að ytra frágangi, pappírinn ágætur.