04.04.1925
Neðri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Árni Jónsson):

Það vill svo einkennilega til, að jeg stóð á þessum stað sem framsögumaður í máli, sem borið var fram í sama tilgangi og það frv., sem hjer liggur fyrir, fyrir nákvæmlega ári síðan. Það var þá hjer til 2. umr., og þótt það væri með nokkuð öðrum hætti en það frv., sem nú liggur hjer fyrir, má þó segja, að það hafi verið undanfari þessa mikla frv., er hjer liggur fyrir, um framtíðarskipulag á nauðsynlegum lánveitingum til landbúnaðarins. Út af þeim umræðum, sem um málið spunnust hjer á síðasta þingi, mun flestum hafa orðið ljóst, að landbúnaðurinn hafði brýna þörf á og fylstu rjettlætiskröfu til, að bætt væri úr því megna misrjetti, sem hann hefir átt við að búa í samanburði við hinn aðalatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn. Og mönnum mun hafa skilist það, að það er svo mikill eðlismunur á starfstilhögun þessara atvinnuvega, að úr því yrði ekki bætt á fullnægjandi hátt nema með því móti, að landbúnaðurinn fengi sína sjerstöku lánsstofnun.

Skilningur minn á þessu máli er algerlega óbreyttur frá því, sem var fyrir ári síðan. En jeg skal játa það, að jeg fylgi þessu frv. með enn meiri áhuga en hinu, af því að það er víðtækara og fremur til frambúðar en frv. um búnaðarlánadeild. Það er, meira að segja, svo víðtækt, að ef landbúnaðurinn gæti annað því að nota svo sem best má alla möguleika sjóðsins á næsta áratugi eða svo, mundi það valda meiri breytingum á högum og háttum sveitamanna en nokkur maður gerir sjer í hugarlund nú sem stendur. Því að í rauninni er landbúnaðurinn á hraðri ferð aftur á bak, þegar miðað er við hinar stórfeldu og hraðfara umbætur, sem sjávarútvegurinn hefir átt að fagna á seinni árum.

Stundum áður hafa heyrst háværar raddir um það, að styrkja bæri landbúnaðinn með sjerstökum lánsstofnunum. Má þar fyrst geta ræktunarsjóðsins, sem stofnaður var árið 1900. Hann fer í rjetta átt, það sem hann nær, en nær alt of skamt til að geta komið að verulegum notum. Lán úr ræktunarsjóði ná eingöngu til jarðræktar. Auðvitað er þetta út af fyrir sig bæði rjett og virðingarvert í alla staði. En þó er ekki hægt að taka ræktunina sjálfa út úr sem aðalskilyrði fyrir bættum lífskjörum og atvinnu þeirra, er búa í sveitum landsins. Húsabæturnar verða að fylgja þar með, því að þær eru víða engu síður skilyrði til þess að geta lifað sómasamlegu og heilbrigðu lífi í sveitunum heldur en sjálf ræktunin. Og það eru ekki eingöngu íbúðarhúsin, sem byggja þarf víða um sveitir landsins, heldur og útihúsin. Og ræktunin er ekki eingöngu bundin við túnræktina heldur. Bæði garðrækt og þó einkum engjarækt eru engu síður mikilsverð og nauðsynleg. Þetta hvorttveggja, húsabœtur og allskonar ræktun, verður að fylgjast að. Jeg veit sannast að segja ekki, hvort efnilegra er, að hafast við í húsakynnum, myrkum og fúlum, sem leka, er fyrsti dropi kemur úr lofti, þótt ræktun landsins sje í góðu horfi, eða hitt, að hafast við í þolanlegum húsakynnum á kotum, þar sem ræktunin er skamt á veg komin og elta verður heyskapinn upp um holt og heiðar. Hvorugt er viðunandi, og hvorugt getur leitt til annars en að landbúnaðurinn hljóti að bregðast hlutverki sínu — að ala um stofn hraustra manna á sál og líkama.

Á síðustu áratugum hafa orðið stórfeldari breytingar í þjóðlífi okkar heldur en nokkurn tíma áður í sögu landsins. Flestar af þessum breytingum hafa ver ið þannig, að þær hljóta að gleðja hvern góðan Íslending. Við hljótum að gleðjast yfir þeim breytingum, sem orðið hafa í bættum samgöngum á sjó og landi, yfir vegabótum, brúargerðum, húsabyggingum og sjúkrahúsum, skólum o. s. frv., sem við höfum fengið á þessum tíma, símasambandinu við útlönd og símakerfinu innanlands. Og ekki síst það, að við höfum fengið fullkomna viðurkenningu á sjálfstæði okkar.

Það er ekki til neins að neita því, að þetta hefðum við ekki getað fengið, nema með stórkostlegum umbótum á atvinnurekstrinum. En eins og drepið var á, hafa þessar umbætur nær einungis orðið á sviði sjávarútvegsins. Nú er hann rekinn með þeim fullkomnustu tækjum, sem völ er á nú á dögum. Hjer „ganga gufuljón grenjandi með landsins ströndum,“ og sú björg, sem dregin er í búið af þessum aflaklóm, er ekkert smáræði. Sjávarafurðir nema nú um 5/6 af öllum útflutningi landsins. Engan hefði dreymt fyrir því fyrir 20 árum, að breytingin yrði svona stórfeld.

Eins og nærri má geta, hafa þessar mikilvægu umbætur ekki orðið án fyrirhafnar. En hver er kominn til að segja, að landbúnaðurinn gæti ekki verið kominn á sama stig eins og sjávarútvegurinn að sínu leyti, ef jafnósleitilega hefði verið unnið að viðreisn hans? Peningastofnanir okkar hafa verið með því marki brendar, að þær hafa haft miklu meiri tilhneigingu til að styrkja sjávarútveginn. Fljóttekni gróðinn og framtakssömu útgerðarmennirnir hafa kastað meiri ljóma í augu þeirra, er með fjármálin hafa farið, heldur en bóndinn, sem hefir orðið að játa, að hann hefði litla von um að geta borgað skuld sína, nema á alllöngum tíma.

Og hver er svo afleiðingin? Bóndinn hefir ekki fengið fjármagn til þess að gera hinar nauðsynlegustu umbætur til að koma framleiðslu sinni í það horf, sem hæfir kröfum tímans. Hann gat ekki haldið í verkafólk, þegar það fjekk miklu hærra kaup í kaupstöðunum. Hann gat ekki bætt húsin og ekki jarðirnar. Og eftir því sem erfiðleikarnir uxu, minkaði trú hans á framtíðarmöguleika landbúnaðarins.

En hver efast um, að landbúnaðurinn eigi sjer glæsilega framtíð fyrir höndum, ef honum er komið í rjett horf? Jeg held að það sje engin tilviljun, að einmitt sá maðurinn, sem mestan þáttinn hefir átt í viðreisn sjávarútvegsins, er einnig manna áhugasamastur um það að koma landbúnaðinum á fastan fót. Hann átti sæti í þeirri nefnd, sem undirbjó þetta frv. Hann veit, að Ísland er annað og meira en sjórinn kringum það og fjaran, sem fiskinum er fleygt upp í, eins og sumir virðast halda. Hann trúir því, að landbúnaðurinn verði ekki síður heilladrjúgur en sjávarútvegurinn, ef honum er komið í það horf, sem hæfir kröfum tímans.

Sjávarútvegurinn er talinn stopulli atvinnuvegur en landbúnaðurinn. En nú er svo komið, að eftir því sem sjávarútvegurinn samsvarar kröfum tímans betur, minkar áhættan stórkostlega. En af því, að búnaðurinn er á eftir tímanum, verða þeir, sem á honum hjara, að gefa sífeldan afslátt á kröfunum til lífsins á öllum sviðum. Það er hið sorglega í þessu efni. Alt er í því fólgið, þar að komast af með minna, minna. Þótt sparsemi sje dygð, af því að hún er nauðsynleg, þá getur hún þó gengið svo langt, að hún fari niður fyrir það láginark, sem menningin setur. Þá er hætta á ferðum. Þá er hætt við, að þessi nauðsynlega sparsemi leiði til menningarlegs niðurdreps þeirrar stjettar, sem við slíkt á að búa. Þá er eymd og skrælingjaháttur fyrir dyrum. Til þess að afstýra slíku, verður þjóðfjelagið að taka í taumana, úr því að einstaklingarnir hafa ekki vit eða getu til þess.

Öllum mönnum hlýtur að vera áhyggjuefni fólksstraumurinn úr sveitunum. Öllum kemur saman um það, að sveitirnar eigi að fóstra kjarnmesta og hraustasta fólkið, eins og í öðrum löndum. Þess vegna mega sveitirnar ekki níðast niður. Við verðum að hlúa að þeim eftir því sem skilningur okkar og geta leyfa, því með því erum við að hlúa að farsælli framtíð hins íslenska kynstofns, og mundi það ekki einmitt vera aðalhlutverk okkar hjer?

Jeg skal nú ekki hafa þessi inngangsorð fleiri, en snúa mjer að störfum nefndarinnar og þeim brtt., er hún hefir gert. Tel jeg mjer fyrst skylt að geta þess, að samvinna í nefndinni hefir verið hin besta. Við höfum allir verið á einu máli um það, að lánsstofnun þessi ætti að komast á, og það sem fyrst. Við höfum reynt að vinna úr þeim tillögum, sem fram hafa komið, eins og okkur virtist heppilegast. Rjett er að geta þess, að við höfum haft nokkra samvinnu við búnaðarmálastjóra, og auk þess Thor Jensen framkvæmdarstjóra, en þeir hafa báðir unnið að undirbúningi þessa máls. Höfum við í flestum atriðum látið till. þeirra haldast, þótt á stöku stað sje út af því brugðið. — Búnaðarfjelagsnefndina skipuðu, auk tveggja hinna fyr töldu, Halldór Vilhjálmsson skólastjóri, og getur víst flestum komið saman um það, að tæplega verði sameinað jafnvel þekking og áhugi á íslenskum landbúnaði eins og hjá þessum þremur mönnum.

Eins og menn geta lesið í nál. á þskj. 229, þá hefir nefndin haft til meðferðar tvö frv. Hið fyrra stjfrv. um ræktunarsjóð Íslands, og hið síðara um ræktunarsjóð hinn nýja, sem hv. þm. Str. hefir horið fram að tilhlutun Búnaðarfjelags Íslands. Frv. stjórnarinnar er fyr fram komið og öllu betur úr garði gert, þó það tæki ekki með ýms mjög mikilsverð atriði, sem standa í frv. Búnaðarfjelagsins og við höfum tekið upp, en stjfrv. höfum við lagt til grundvallar. Jeg játa það, að stjfrv. fór talsvert skemra í því að auka sjóðinn í bili, en þar með er ekki sagt, að stjórnin sje andvíg till. þeim, sem við höfum upp tekið; það mun sýna sig síðar við þessa umr.

Við höfum ekki gengið inn á þá braut að hafa neinskonar hugsjónauppboð til handa landbúnaðinum. Það mega aðrir gera í okkar stað. Við höfum reynt að halda okkur við skynsamlegan grundvöll í þessu máli. Við höfum viljað taka upp haganlegar umbótatillögur, sem miðuðu að því að efla sjóðinn, svo hann gæti þegar frá upphafi fullnægt hlutverki sínu.

Af ásettu ráði ætla jeg ekki að fara að gera neinn samanburð á frv. nje einstökum greinum þeirra, því bæði er það, að þetta frv. hefir verið rætt meira og hugsað meira meðal hv. þm. heldur en flest, ef ekki öll, frv. önnur, sem komið hafa fyrir þetta þing, og svo er hitt, að mismunur sá, sem nokkru máli skiftir, hlýtur að upplýsast í þeim umr., sem hjer munu nú fram fara.

Að svo mæltu skal jeg snúa mjer að einstökum till. nefndarinnar. Að nokkru leyti nægir mjer að vísa til nál. á þskj. 229, en þó skal jeg leyfa mjer að fara um þær nokkru fleiri orðum.

Fyrsta brtt. er orðabreyting við 1. gr. frv. stjórnarinnar, þar sem tekinn er fram sá tilgangur ræktunarsjóðsins að efla. ræktun landsins, og bætt við: „og stuðla að bættum húsakynnum í sveitum.“ Með þessu er beint tekið fram, að þetta þurfi að haldast í hendur. En sjálft frv. gerir ráð fyrir þessu, því gert er ráð fyrir lánum til húsabóta í frv., sem líka er sjálfsagt. En þá er rjett, að það komi líka fram þar, sem rætt er um tilgang laganna. Húsabætur eru hið mesta þjóðþrifamál, enda er svo víða, að bætt húsakynni eru beinlínis undirstaða undir aukinni ræktun. Því þar sem ljeleg eru hús í sveitum, fer mikið af þeim tíma, sem annars er best fallinn til jarðræktarstarfa, til þess að viðhalda húsunum. Vil jeg minna á það, sem háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) sagði í sambandi við annað mál fyrir skemstu hjer í þessari háttv. deild, að bætt húsakynni í sveitum væru okkar mesta heilbrigðismál. Ennfremur vil jeg vitna í ummæli Steingríms læknis Matthíassonar á Akureyri þessu viðvíkjandi. Hann hefir látið uppi merkilegt álit um heilbrigðisástandið í sínu læknishjeraði, sem mörgum kom á óvart. Þar telur hann heilbrigðisástandið betra í kaupstaðnum heldur en í sveitunum. í sveitunum sjeu líka húsakynni lakari og viðurværi víða ekki eins holt og áður hefði verið. Menn byggju ekki lengur eins vel að sinn og áður, og lifðu sumir hálfgerðu þurrabúðarlífi.

Jeg skal geta þess, að það hafa komið fram æðimargar brtt. við frv. frá hv. þm. Str. (TrÞ). Þeim var ekki útbýtt í deildinni fyr en í gær, og þess vegna hefir nefndin ekki getað athugað þær til hlítar, enda ekki tekið fullnaðarafstöðu til nema fárra. Einstaka brtt. höfum við þó orðið ásáttir um að taka ekki upp. Við höfum viljað leggja alla aðaláhersluna á það, að sjóðnum verði fyrst og fremst varið til sveitanna, en ekki til sjávarþorpanna. Og mun jeg koma nánar að því seinna.

Þá skal jeg minnast á brtt. nefndarinnar við 2. gr. frv., um tekjur ræktunarsjóðs. Jeg skal geta þess, að þessi till. er ein af þeim fáu, sem mætti eigi alllítilli mótspyrnu í nefndinni, svo að jafnvel einn nefndarmanna, hv. þm. Barð. (HK), hefir áskilið sjer óbundið atkvæði um hana. En nefndin í heild lítur svo á, að úr því að það er viðurkent, að ræktunarsjóði beri andvirði seldra þjóðjarða, og þar sem ennfremur er gert ráð fyrir því, að í hann renni andvirði þjóðjarða eftirleiðis, jafnóðum og þær eru seldar, þá sje rjett að stíga sporið út og láta sjóðinn líka eignast tekjurnar af óseldum þjóðjörðum. Þessar tekjur minka líka einlægt, eftir því, sem fleiri jarðir eru seldar. Auk þess geta menn unnið af sjer afgjöldin samkv. núgildandi lögum, svo ríkissjóð munar það litlu.

Næsta till. nefndarinnar er sú, að ríkissjóður leggi til ræktunarsjóðs sem svari þeirri upphæð með vöxtum, er ræktunarsjóður hefir greitt honum samkvæmt lögunum frá 20. okt 1905. Með upphaflegu lögunum um ræktunarsjóð var tilætlunin sú, að allir vextir legðust við sjóðinn. En með lögunum frá 1905 var hvikað frá þeirri stefnu og sjóðnum gert að skyldu að greiða 3% ársvexti í ríkissjóð. Nefndin áleit óhikað, að rjettara væri að halda hinni upphaflegu stefnu, enda í fullu samræmi við alla stefnu frv. í þeirri mynd, sem nefndin ber það fram. En með tilliti til hins erfiða fjárhags ríkissjóðs og þess góða ásetnings að greiða lausaskuldir hans á sem stystum tíma, höfum við ekki viljað setja fast tímatakmark, en ætlumst til þess, að það verði samningsatriði milli stjórnar sjóðsins og ríkisstjórnarinnar. Höfum við því hvorki ákveðið upphæð vaxtanna nje heldur gjalddaga fyrir greiðslunni. Sumum mun þykja þetta ótryggilega umbúið frá nefndarinnar hálfu. En jeg býst nú við því, að óþarfi sje að óttast slíkt, því engri landsstjórn mundi haldast uppi að þverskallast við þessum sjálfsögðu kröfum sjóðsins, er hann þyrfti á fjenu að halda.

Hvað snertir brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) við þennan lið, þá verður því ekki neitað, að þar er öruggar um hnútana búið, þar sem bæði eru ákveðnir vextir og sett tímatakmark um það, hvenær greiðslunni skuli vera lokið. Jeg býst því við því, að nefndin muni áskilja sjer alveg óbundið atkvæði um þá till., því í rauninni er ekkert við henni að segja annað en það, að hugsast gæti, að hún væri óþörf.

Þá kemur till. viðvíkjandi varasjóði 2. fl. veðdeildar Landsbankans. Það er aðeins orðabreyting, sem ekki þarf frekari skýringa.

Nú kem jeg að aðalbrtt. nefndarinnar, þar sem það er lagt til, að ríkissjóður leggi fram til ræktunarsjóðs eina miljón kr. Jeg skal geta þess, að grein þessi hefir aflagast í prentuninni. Hún átti ekki að prentast með tölulið 3, heldur koma á eftir þeim lið sem sjerstök málsgrein. 1 þessari brtt. liggur allur aðalmismunurinn milli frv. Búnaðarfjelagsnefndarinnar og frv. stjórnarinnar. Og því verður ekki neitað, að á þessari till. til aukningar starfsfje sjóðsins, hvort sem hún nær fram að ganga í þessu formi eða öðru, veltur það, hvort þessi stofnun á að verða öflug og starfhæf frá byrjun, svo að hún geti gegnt ekki aðeins þeim smáu kröfum, sem landbúnaðurinn gerir nú um fje til ræktunar og húsabóta, heldur líka þeim háværari og meiri kröfum, sem hljóta að koma, þegar skriður er kominn á framkvæmdirnar — ræð öðrum orðum, hvort sjóðstofnunin á að vera kák eitt og framfarirnar á sviði landbúnaðarins eftir því. Af þessu leiðir líka það, að þó ef til vill megi ekki draga ályktanir af atkvæðum manna um þessa till. um það, hvaða hug þeir hafa til íslensks landbúnaðar og íslenskrar sveitamenningar, þá verður þó dregin fullkomin ályktun af atkvæði þeirra um slíka till., sem þessa um það, hvaða trú þeir hafa á þessari atvinnugrein. En jeg fyrir mitt leyti held, að það fari oftast saman, að menn hafi trú á því, sem menn bera góðan hug til.

Nefndin ber till. þessa fram í mikið breyttu formi frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Búnaðarfjelagsnefndarinnar. Þar er svo ráð fyrir gert, að til aukningar sjóðnum sje lagður sjerstakur tollur á allar innfluttar og útfluttar vörur í þrjú ár, 1925–27. Fyrsta árið skuli tollurinn vera 1/2% af inn- og útfluttum vörum, en eftir það 1/4%. Það má gera ráð fyrir því, að þessi aukning til sjóðsins muni nema einni miljón kr. Þessa upphæð höfum við viljað tryggja sjóðnum, að vísu ekki alveg á jafnstuttum tíma sem ráð er fyrir gert í frv. Búnaðarfjelagsnefndarinnar, en þó á svo stuttum tíma, að við getum ekki annað sjeð en að það muni nægja sjóðnum til þess að hann geti starfað með fullum krafti. En eftir nánari íhugun hefir okkur þótt rjett að breyta um form á þessu. Till., sem stendur hjer í nál., gerir ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram til sjóðsins eina miljón kr., og sje þegar sjeð fyrir sjerstökum tekjuauka í þessu skyni. Frv. það, sem við berum fram, fer í þá átt, að tekjuaukinn komi niður á útfluttum vörum eingöngu. Þegar við fórum að athuga allar ástæður, sáum við, að svo miklir annmarkar voru á því að leggja á aukið innflutningsgjald til aukningar ræktunarsjóði, að við hurfum frá því ráði. Við getum að vísu játað, að Búnaðarfjelagsnefndin hefir rjett fyrir sjer, þar sem hún segir, að þetta sje alþjóðarmál, og beri því öllum að leggja fram til þess sinn skerf, en okkur þótti þó viðurhlutamikið að leggja aukinn skatt t. d. á verkamenn í kaupstöðum í þessu skyni. Eins og kunnugt er, stynja nú allir undir skattabyrðinni, og á hinn bóginn er rígur milli atvinnuveganna. Þetta yrði því óhjákvæmilega til þess að auka þá óvild, sem orðin er milli sveita- og sjávarmanna.

Þetta var þó ekki aðalástæðan til þess, að nefndin sá sjer ekki fært að leggja með till. Búnaðarfjelagsnefndarinnar í þessu efni, heldur hitt, að nefndin fjekk upplýsingar um það, að slíkur skattur sem þessi væri svo erfiður og kostnaðarsamur í innheimtu, að ekki gæti komið til mála að leggja hann á. Var þá ekki í annað hús að venda en að snúa sjer til útfluttu varanna. Eins og jeg hefi áður tekið fram, höfum við ásamt meiri hluta sjútvn. borið fram sjerstakt frv. til tollauka fyrir ræktunarsjóðinn. Vona jeg, að hæstv. forseti leyfi það, að vikið sje nokkrum orðum að því frv., þó það sje ekki á dagskrá nú. Það er svo nátengt þessu frv., að það má beinlínis teljast óaðskiljanlegur hluti þess, og stendur og fellur með því. Skal jeg fyrir mitt leyti vera mjög stuttorður um það.

Svo var upphaflega ráð fyrir gert, að þessi tollauki skyldi vera settur í sjálf lögin, en nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki rjett aðferð. Með því væri gengið of mjög á rjett manna í landinu á þann hátt, að rýrð væri tryggingin fyrir því, að þeir yrðu ekki ofskattaðir. Helst hefðum við kosið að leggja allan skattinn á á tveimur árum, þannig að hann væri að fullu innheimtur í árslok 1926. En með því fanst okkur útflytjendum um of íþyngt, og vildum því hafa hann fastan t. d. í 4 ár. En nú vill þannig til, að meðan á þessari meðferð nefndarinnar stóð komu upp kröfurnar um það, að keypt yrði þegar á þessu ári strandvarnarskip, og held jeg, að það hafi þá jafnframt vakað fyrir flestum gætnari mönnum, að ríkissjóði yrði jafnframt sjeð fyrir tekjuauka til þess að kosta þetta skip. Að minsta kosti er mjer kunnugt um það, að ýmsir sjávarútvegsmenn voru þeirrar skoðunar, að svo yrði að vera. Hvað var nú eðlilegra en að þessum tvöfalda tilgangi yrði náð með því, að báðir atvinnuvegirnir legðu nokkuð af mörkum! Hvorugur má án annars vera. — Það varð því að samkomulagi milli landbn. og meiri hl. hv. sjútvn. að flytja þetta frv. Er þar farið fram á, að útflutningsgjaldið verði aukið um 1/2% til óákveðins tíma, og renni þessi tekjuauki fram til ársloka 1926 í ræktunarsjóðinn, en síðan í landhelgissjóðinn að 3/4 en í ræktunarsjóð að 1/4 hluta. Verður varla sagt, að þessi tekjuauki sje frekar til orðinn vegna ræktunarsjóðsins en landhelgissjóðsins, þar sem sá fyrnefndi nýtur hans aðeins tvö árin næstu.

Jeg get þá látið útrætt um þessa brtt. og sný mjer að 3. brtt., við 4. gr. frv. Fer hún í þá átt, að Landsbankinn láti sjóðnum ókeypis í tje húsnæði og geymslu fyrir verðmæt skjöl og fjármuni sjóðsins. Jeg get viðurkent það, að mjer finst þetta ekki skifta miklu máli, en þar sem þessi sjóður ljettir af Landsbankanum talsverðum kvöðum, sem síðasta þing lagði á hann, þá finst mjer ekki til of mikils mælst, þó sjóðurinn njóti þessara fríðinda hjá honum.

Næst kemur þá 4. brtt., við 6. gr. frv. Er það orðabreyting ein og þar með fastar ákveðið, hvað mikið af fje sjóðsins skuli leggja í varasjóð. Annars skiftir sú breyting ekki miklu máli.

Hvað næstu brtt., við 8. gr., viðvíkur, þá hefir þegar verið mikið rætt um hana. En hún er í því fólgin, að lánum til húsabóta er gert jafnhátt undir höfði og lánum til jarðræktar. Er það algerlega í samræmi við þær aðrar breytingartillögur, sem nefndin hefir gert við frv. Það er litlum vafa bundið, að víða eiga ill húsakynni einna mestan þátt í flótta fólksins úr sveitunum til kaupstaðanna.

Hvað viðvíkur brtt. hv. þm. Str. (Tr Þ), þá vil jeg aðeins geta þess, að nefndin leggur áherslu á, að þessu fje sje varið til eflingar sveitunum, en ekki til nýræktar í kaupstöðum. Þess vegna finst okkur ekki, að hlutverk sjóðsins sje að stofna til nýbýla í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur t. d. Er það bæði vegna þess, að við kaupstaðina hafa menn greiðari aðgang að lánum, bæði í þessu skyni og öðru, og ennfremur gæti það leitt til brasks og verðhækkunar, þegar kaupstaðirnir stækka. Gæti þá líka svo farið, að sá eiginlegi landbúnaður yrði látinn sitja á hakanum með lán úr sjóðnum.

Þá skal jeg minnast á 6. brtt., við 27. gr., þar sem Landsbankanum er gert að skyldu að kaupa verðbrjef ræktunarsjóðsins, ef hann æskir þess. Er það fyrst og fremst til þess gert að auka verðbrjefasölu sjóðsins og tryggja það, að þau lækki ekki í verði, og er það auðvitað mjög mikilsvert fyrir hann. Er og full sanngirni í því að leggja þessa skyldu á herðar Landsbankanum, þar sem sjóðurinn leysir hann undan þungri kvöð, sem á hann var lögð í fyrra. Sje jeg ekki ástæðu til að sýna honum frekari hlífð.

Loks vil jeg, áður en jeg sest niður, gera stutta áætlun um sjóðinn eins og búast má við, að hann verði eftir 10 ár, ef till. nefndarinnar er fylgt:

1. Ræktunarsjóður um 950000 kr.

2. Þjóðjarðir 800000 —

3. Tillag ríkissjóðs (endur-

greiðsla ræktunarsjóðsvaxta) 250000 —

4. Varasjóður 1. fl. veðdeildar 150000 —

5. Ríkissjóðstillag (tollurinn) 100O000 —

Alls .... 3150000 kr.

Þetta er nú orðið æðilangt mál, enda skal jeg ekki bæta miklu við. En þó get jeg ekki stilt mig um að segja hv. þdm. frá orðum karls eins, er jeg heyrði í fyrsta sinn, sem jeg kom á sjó. Var róið af miklum móði á annað borðið, en slælega á hitt. Snerist því báturinn og lá undir ágjöfum. Varð þá karli þessum á orði: „Það er gott að hafa lagið, piltar, þó það sje gamalt.“

Mjer hafa oft dottið orð þessa karls í hug, þegar jeg á síðari árum hefi verið að hugsa um þjóðarfleytuna íslensku og hversu þar er betur „róið“ á annað borðið. Öðrumegin eru nýtískuvjelar og tæki, hinumegin gömul og slitin árabrot. En til þess að halda laginu verður að róa jafnt á bæði borð. Landbúnaður okkar er orðinn langt á eftir sjávarútveginum; hann þarf ný tæki til rekstrar og nýja starfshætti. Jeg vil halda laginu, þó það sje gamalt, og jeg vil róa með nýtískutækjum á bæði borð. — í áttina til þess er það, sem þetta frv. stefnir.