26.03.1926
Efri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Jónas Jónsson:

Það vill nú svo til, að hæstv. atvrh. (MG) hefir að mestu svarað því, sem jeg hafði ritað hjá mjer til andmæla hv. þm. Vestm. (JJós). Þó að hann sje þessu máli velviljaður, þá er það auðsætt, að hann hefir ekki kynt sjer það sem skyldi, eins og best sjest á því, að hann vissi ekki, að framlagið til Eimskipafjelags Íslands er fyrirframgreiðsla á því rúmi skipsins, sem tapast frá öðrum flutningi við kælitækin. En þetta hefir hæstv. atvrh. skýrt nægilega, svo að jeg get hjer með slept að fara frekar út í það.

En til frekari skýringar vil jeg þó láta þess getið, að það er sagt út í loftið að halda því fram, að við getum tekið sama skipið og í fyrra, sem þá reyndist dýrt og óhentugt.

Ef jeg man rjett, þá mun það hafa verið einn af kjósendum hv. þm. Vestm., sem sýndi mikinn áhuga á því, að Sabroe hefði allan veg og vanda af þessum undirbúningi við fyrstu tilraun með útflutning á kældu kjöti, svo að þess vegna mætti ætla, að þm. væri þetta mál talsvert ljósara en fram kom í ræðu hans. Annars er aðalatriðið það, að þingið áleit rjett, úr því hafist var handa í þessu efni, að gera þá stærri og víðtækari tilraun en með Gullfossi einum. Var þá helst hugsað um leigu á hentugu kæliskipi. Þegar svo vitnaðist, að ekki mundi finnast á öllum hnettinum skip, sem svaraði til okkar flutninga — þessi skip stóru landanna eru smíðuð í samræmi við þá óhemju flutningaþörf, sem þar er um að ræða — þá var fengin tvöföld reynsla, er byggja mætti á. Í fyrsta lagi ómögulegt að fá hentugt skip á leigu, og í öðru lagi, þó að reynt yrði að útbúa Gullfoss eftir föngum, þá mundi hann ófullnægjandi. Var því ekki um annað að gera, og það sáu þeir, sem mest og best hugsuðu um málið, en að við ljetum byggja kæliskip, sem að öllu leyti svaraði til þarfa tímans, en væri þó að öðru leyti við okkar hæfi. Þeim var það ljóst, þessum víðsýnu mönnum, hvað hjer var í húfi: að annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar átti afkomu sína undir því, að tilraununum yrði haldið áfram og nýjar markaðsleiðir fundnar fyrir kjötframleiðsluna.

Það er af ókunnugleika mælt hjá þm., þegar hann fullyrðir, að kjötið hafi skemst á leiðinni. Það var svo hverfandi lítið, að varla er orð á því gerandi, þegar á hitt er litið, hvað skipið sjálft var ófullnægjandi. Þeir, sem að tilrauninni stóðu, hefðu aldrei ráðist í að nota þetta skip, ef landsnauðsyn lægi ekki við, enda óhætt að slá því föstu, að ekkert einkaverslunarfyrirtæki mundi hafa sjeð sjer fært að gera slíka tilraun með þeim útbúnaði, er völ var á, og allra síst í stórum stíl.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara neitt út í saltkjötsmarkaðinn. Við erum sammála um það, hv. þm. Vestm. og jeg, að það fyrirkomulag, sem verið hefir á sölu saltkjöts okkar hafa engir reynt að tortryggja. En af því gæti hann aftur dregið þann lærdóm að reyna að koma á þeirri tryggingu um sölu saltfiskjar, sem menn hefðu ekki ástæðu til að tortryggja.

Yfirleitt hafa umr. þessar orðið til þess að skýra málið, enda hefir nú komið í ljós, hvernig undirbúningurinn hefir verið, hvernig tilraun síðasta hausts hefir tekist og hvers vænta megi um næstu tilraun, ef við kostum kapps um að vanda til hennar eftir föngum. Það er vitanlegt, að örðugleikarnir eru margir. Það er órannsakað, hvort íshús þau, sem ekki verður komist hjá að byggja víðsvegar kringum land, verða nothæf til annars rekstrar en að frysta kjöt í þeim og geyma. En það vita menn nú, að frosið kjöt er ekki eins eftirsótt og kælt kjöt, svo taka verður það til athugunar, þegar næstu tilraunir verða gerðar.

Annars hefir þetta mál, eins og öll velferðarmál þjóðarinnar, sínar sólskins- og skuggahliðar, og þegar reiknað er með framgangi þess, verður að láta alla jafnt njóta sannmælis, sem lagt hafa sitt til að hrinda því áleiðis til heppilegrar lausnar. Hæstv. atvrh. á sinn heiður skilinn fyrir afskifti sín af málinu, því þegar trúnaðarmaður landsins ritaði honum till. sínar, tók hann vel í þær og fjellst þá strax á þá lausn málsins, að landið bygði kæliskip, og síðan hefir hæstv. ráðherra gert það, sem hann gat, að því er sjeð verður, til að styðja málið. Hitt er annað mál, og áður skýrt, hvaða menn hafa lagt grundvöll þessara framkvæmda.