26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

99. mál, vörutollur

Klemens Jónsson:

Þess er getið hjer í niðurlagi greinargerðar frv., að í fjhn. hafi heyrst raddir um það, að afnema bæri toll á korni. Þessar raddir komu frá okkur hv. 1. þm. N.-M. (HStef), en meiri hl. nefndarinnar vildi ekki fallast á það.

Þetta frv. fer fram á að lækka tolla á nokkrum þeim vörum, sem nauðsynlegastar eru fyrir framleiðslu landsins: salti, kolum, steinolíu og tunnum. Skal jeg ekki fara neitt frekar út í ástæður fyrir þessum till., því að hv. frsm. (BL) hefir þegar skýrt afstöðu nefndarinnar, auk þess sem greinargerð frv. sýnir. En jeg vil þó taka það fram, að það getur verið spurning um það, hvort fjárhagsútlit ríkissjóðs sje nú svo glæsilegt, að ástæða sje til að lækka tekjurnar. En hinsvegar er það alveg vafalaust, að það horfir ekki svo glæsilega nú fyrir útgerðinni, að ekki sje rjett og nauðsynlegt að hlaupa undir bagga með henni. En það verður ekki gert á annan viðfeldnari hátt en þann að lækka allverulega álögur, sem hvíla á þeim vörutegundum, sem hún einkum þarf að nota. En mjer þykir þá líka rjett um leið að lækka eitthvað á landbúnaðinum og öðrum skattgreiðendum. Það var sagt hjer áðan, að skattar hvíldu þyngra á útgerðinni en landbúnaðinum yfirleitt. Hvort sem þetta er rjett eða ekki, þá er það hinsvegar víst, að kjör bændastjettarinnar eru ekki svo glæsileg, að ekki sje full þörf að líta einnig á hennar þarfir. Því er það ósanngjarnt, jafnframt því, sem miklum útgjöldum er ljett af útveginum, að ljetta þá ekki um leið eitthvað af landbúnaðinum og verkalýðnum. Jeg vænti þess, að þegar þingmenn, sem eru fulltrúar sveitakjördæma, koma heim, þá verði þeir spurðir af því, hvers vegna ljett hafi verið miklum sköttum af útveginum, en engu af þeim. Afnám kornvörutollsins var lítið eitt athugað í fjhn., og var lauslega áætlað, að sú breyting mundi nema 45–50 þús. kr. fyrir ríkissjóð. Hæstv. fjrh. hefir talist svo til, að þetta mundi nema líkri upphæð. Þetta er að vísu ekki há upphæð, en mundi koma sjer vel til þess að vega dálítið á móti því, sem sjávarútvegurinn fær. Ástæðan til þess, að við hv. 1. þm. N.-M. komum ekki fram með brtt. um þetta, var sú, a. m. k. hvað mig snerti, að jeg vildi heyra undirtektir hv. þdm. Og af umr. um verðtollinn hefir það komið í ljós, að till. um að ljetta vörutoll á korni mundi ekki mæta mikilli mótspyrnu hjer í hv. deild. Mjer skildist einnig, að hæstv. fjrh. mundi heldur ekki verða því mótfallinn. Samkvæmt öllu þessu, sem nú var talið, þá mun jeg flytja við 2. umr. málsins brtt. þess efnis, að kornvara verði undanþegin vörutolli.